Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 113/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 2. og 4. tl. — 100. gr. 1. mgr. —116. gr.  

Fargjaldakostnaður — Fargjaldafrádráttur — Fargjöld — Dagpeningar — Fæðispeningar — Fæðisfrádráttur — Langferðir — Kærufrestur — Póstlagningardagur — Matsreglur ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greidda dagpeninga að fjárhæð 231.000 kr. frá vinnuveitanda sínum, A. Fjárhæð þessa færði kærandi sér til tekna í reit 23 í skattframtali sínu árið 1987. Jafnframt færði hann fjárhæðina svo og fargjaldafrádrátt 113.400 kr. til frádráttar í reit 33 eða alls 344.400 kr. Að undangegnum bréfaskriftum lækkaði skattstjóri nefnda frádráttarfjárhæð úr 344.400 kr. í 133.572 kr. Heimilaði skattstjóri umræddan fargjaldafrádrátt 113.400 kr. Hins vegar leit skattstjóri svo á varðandi nefnda dagpeninga, að um væri að ræða heilsdagsfæði í 164 daga 231.000 kr. Skv. ákvæðum 4. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, miðaðist frádráttur vegna fæðishlunninda við matsreglur ríkisskattstjóra. Skv. þeim reglum væri hámarksfrádráttur á móti fæðisgreiðslum á árinu 1986 123 kr. á dag. Með vísan til þessara reglna heimilaðist fæðisfrádráttur 123 kr. x 164 = 20.172 kr.

Í kæru, dags. 10. júlí 1988, bendir kærandi á, að greiðslan frá A. 231.000 kr. sé ekki frítt fæði frá vinnuveitanda, sbr. reiti 26 og 34 í skattframtali, heldur greiddir dagpeningar eins og segi í lið 25 og 33.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún virðist of seint fram komin, en 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út miðvikudaginn 13. júlí 1988 og hefur kærandi ekki sýnt fram á að honum hafi ekki verið unnt að kæra innan tilskilins frests.“

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur 13. júní 1988 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Með bréfi, dags. 10. júlí 1988, til skattstjóra mótmælti kærandi úrskurðinum. Barst bréf þetta skattstjóra þann 14. júlí 1988 skv. móttökuáritun hans. Með bréfi, dags. 21. júlí 1988, framsendi skattstjóri bréf þetta til ríkisskattanefndar sem kæru til nefndarinnar. Eftir öllum atvikum þykir rétt að taka kæruna til efnismeðferðar og er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið. Fargjaldafrádráttur 113.400 kr. er ágreiningslaus í málinu. Deilt er um það, hvort umrædd greiðsla vinnuveitanda 231.000 kr. sé dagpeningar vegna ferða á vegum vinnuveitanda eða fæðisgreiðsla. Fram hefur komið af hálfu kæranda, að hann hafi verið við vinnu á vegum A. á B. frá því í júní 1986 til loka þess árs. Með tilliti til þess, sbr. og umræddan fargjaldafrádrátt, þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að honum beri frádráttur frá umræddri greiðslu á grundvelli reglna um dagpeninga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja