Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 115/1989

Söluskattur 1987

Lög nr. 10/1960 — 9. gr. 1. mgr.  

Söluskattur — Söluskattsskyld velta — Fæðiskostnaður — Verktakafyrirtæki — Útboð — Rekstrarkostnaður — Dvalarkostnaður

Kærandi skilaði skattstjóra söluskattsskýrslu fyrir nefnt söluskattstímabil. Til frádráttar frá þar greindri heildarveltu færði kærandi m.a. sölu til endurseljenda. Í framhaldi af bréfaskiptum lækkaði skattstjóri þennan lið um 135.689 kr. með því að komið hefði í ljós að um hefði verið að ræða kaup á fæði og gistingu fyrir starfsmann kæranda. Af hálfu kæranda hefur þessari ákvörðun skattstjóra verið mótmælt og þess krafist að hún verði felld úr gildi. Til stuðnings þeirri kröfu er á það bent að kærandi sé „verktakafyrirtæki á sviði almennrar vélavinnu og vörubifreiðareksturs auk útboðsverkefna". Ágreiningsefni þessa máls snúist „um frádrátt vegna fæðiskostnaðar og gistingar starfsmanna sem unnu að útboðsverkefni fyrir A.“. A. hefði greitt kæranda 140.000 kr., sem hluta af tilboðsverði í vegagerð við X., og hefði sú fjárhæð verið ætluð til greiðslu á kostnaði við uppihald og aðstöðu á vinnustað. Sá kostnaður hefði í reynd orðið 135.964 kr. og hefðu þeir aðilar, sem fengu þá greiðslu, vafalaust þegar greitt söluskatt af þeirri fjárhæð sem seldri vöru og þjónustu.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1988, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu „að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, sbr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt“.

Eigi er fallist á að umræddur rekstrarkostnaður kæranda komi til frádráttar við ákvörðun söluskattsskyldri veltu hans svo sem hann krefst. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja