Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 130/1989

Gjaldár 1986 og 1987

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 8. tl. — 77. gr.   Lög nr. 32/1978 — 37. gr. 3. mgr. — 93. gr. —103. gr. — 147. gr.  

Arður — Arðsfrádráttur — Hlutafélag — Hlutafé — Hlutafélagaskrá — Tillaga um arðsúthlutun — Nafnverð hlutafjár — Hámark arðsfrádráttar — Jöfnunarhlutabréf — Ársreikningur — Ársskýrsla — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Hlutafjárhækkun

I

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er hlutafélag, færði til frádráttar tekjum sínum gjaldárin 1986 og 1987 10% arð 62.500 kr. hvort ár og jafnframt arðsfjárhæð til skuldar í framtali árið 1987. Skv. efnahagsreikningum nam hlutafé í kæranda 625.000 kr. í lok rekstraráranna 1985 og 1986.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda m.a., að fyrirhugað væri að gera eftirtaldar breytingar á skattframtali hans árið 1986:

„Fyrirhugað er að hækka eignarskattsstofna um kr. 687.000, sem er oftalið hlutafé kr. 624.500 og skuldaliðurinn ógreiddur arður kr. 62.500, en þeim lið var ranglega bætt inn á framtalið af starfsmanni skattstjóra, en sá taldi, að löglega hefði verið staðið að ákvörðun og greiðslu arðs. Þá er fyrirhugað að hækka tekjuskattsstofn um kr. 62.500 vegna oftalins arðs til frádráttar.

Í símtali við skattstjóra í október 1986 hefir þáverandi stjórnarformaður X. hf., A., upplýst, að arður sá, sem aðalfundur í júlí 1985 ákvað, var ákveðinn á grundvelli jöfnunarhlutabréfa, sem gefa átti út samkvæmt ákvörðun sama fundar, hafi verið greiddur hluthöfum á fundinum sjálfum og því ekki verið færður til skuldar í ársreikningi 1985. í ársreikningi 1984 var ekki gert ráð fyrir greiðslu arðs, þannig að þessi ráðstöfun brýtur í bága við 103. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög, sbr. 93. gr. sömu laga. Þá var umrædd útgáfa jöfnunarhlutabréfa fyrst tilkynnt til skráningar hjá Hlutafélagaskrá 24.10.1986 og getur hún því samkvæmt 37. gr. áðurnefndra laga nr. 32/1978 um hlutafélög ekki öðlast gildi fyrr en frá þeim tíma.

Breytingar sambærilegar þeim, sem hér um ræðir, en á gjöldum áranna 1985 og 1986 voru gerðar með bréfum skattstjóra 24.10.1986. Breytingu gjalda ársins 1985 var ekki mótmælt af yður, en breyting gjalda ársins 1986 var kærð og hefir ríkisskattanefnd ógilt þá breytingu vegna formgalla á málsmeðferð skattstjóra, en nefndin virðist hafa talið báðar breytingamar vera vegna ársins 1986.“

Jafnframt boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu arðs 62.500 kr. til frádráttar og skuldar gjaldárið 1987 á þeim forsendum, að í ársreikningi fyrir árið 1986, er fylgt hefði framtalinu, væri ekki gert ráð fyrir arðgreiðslu. Væri hún því óheimil skv. 103. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög.

Í svarbréfi kæranda, dags. 1. desember 1987, var því mótmælt, að fullyrt hefði verið, að arður hefði verið greiddur út á aðalfundi í júlí 1985. Hið rétta væri, að arðurinn hefði verið greiddur út í lok desembermánaðar 1985, enda hefði þá legið ljóst fyrir hver rekstrarafkoma kæranda yrði á árinu 1985 og væri sú ráðstöfun fyllilega í samræmi við gildandi hlutafélagalög. Þá var því mótmælt, að eignar- og tekjuskattsstofnar gjaldárið 1986 yrðu hækkaðir vegna „oftalins hlutafjár“ og „oftalins arðs til frádráttar“. Skv. bókum hlutafélagaskrár hefði hlutafé í kæranda numið 625.000 kr. hinn 31.12.1985. Arðgreiðsla 62.500 kr. væri því að fullu frádráttarbær frá tekjum. Þá var niðurfellingu arðgreiðslu 62.500 kr. til frádráttar gjaldárið 1987 mótmælt, „enda er litið svo á að ársreikningurinn í heild sinni, þ.m.t. fylgiritin sé ársskýrsla stjórnarinnar og að sú ráðstöfun hagnaðar sem sýnd er á framtali 1987, sé hluti af þeirri skýrslugerð.“

Með bréfi, dags. 11. desember 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga gjaldárin 1986 og 1987. Eignarskattsstofn gjaldárið 1986 væri hækkaður um 687.000 kr., þ.e.a.s. oftalið hlutafé hefði verið 624.500 kr. og skuldaliðnum ógreiddum arði 62.500 kr. hefði ranglega verið bætt inn á framtalið af starfsmanni skattstjóra. Ákvæði 37. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, kvæðu skýrt á um, að útgáfa jöfnunarhlutabréfa öðlaðist ekki gildi, fyrr en hún væri skráð í hlutafélagaskrá, þannig að jöfnunarhlutabréfaútgáfa, sem tilkynnt hefði verið 24. október 1986, gæti ekki verið í gildi, þegar framtal árið 1986 væri gert. Arðgreiðsla 62.500 kr. væri felld niður úr gjalda- og skuldahlið skattframtals árið 1987. Ekki væri unnt að samþykkja, að skattframtal væri hluti ársreiknings, enda þótt ljóst væri, að ársreikningurinn væri fylgiskjal með framtali og hluti þess. Benda mætti á, að skýrsla stjórnar fylgdi ekki ársreikningnum svo sem vera bæri.

Af hálfu kæranda var fyrrgreindum breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 28. desember 1987. Segir svo í kærunni um hin umdeildu atriði:

„2. Varðandi lið 2 í sama bréfi er það að segja að sú breyting sem þér boðið á skattframtali undirritaðs 1986 er ekki samþykkt af minni hálfu.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það að skv. samtali sem stjórnarformaður X. h.f. átti við lögfræðing hjá hlutafélagaskrá þann 28.12.1987, telur hann að hlutafé í félaginu hafi verið kr. 625.000 þann 19.06.1985. Hann telur það ekki skipta neinu máli í þessu tilfelli að tilkynning til Hlutafélagaskrár barst ekki fyrr en talsverðu síðar. Lögfræðingur Hlutafélagaskrár benti og á það að Hlutafélagaskrá hafi móttekið tilkynninguna athugasemdalaust og með því að gera ekki athugasemdir við efnisinnihald tilkynningarinnar síðar hafi hún verið samþykkt óbreytt.

Í öðru lagi vil ég ítreka það að allir hluthafar í X. h.f. gerðu grein fyrir jöfnunarbréfaútgáfunni og arðgreiðslunni á skattframtölum sínum 1986.

3. Varðandi lið 3 í bréfi yðar vill stjórn X. h.f. benda á það að það var óumdeilanleg tillaga og vilji hennar að gera þær ráðstafanir sem tilgreindar eru á skattframtali X. h.f. 1987, þ.e. að úthluta 10% arði, kr. 62.500-. Því til staðfestingar ritar stjórnin nöfn sín undir bréf þetta.“

Með kæruúrskurði, dags. 15. janúar 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með vísan til bréfa sinna, dags. 27. nóvember 1987 og 11. desember 1987.

II

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. febrúar 1988. Auk rökstuðnings í kærunni vísar kærandi máli sínu til stuðnings til kæru sinnar til ríkisskattanefndar, dags. 11. desember 1986, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 622, 13. október 1987. Krefst kærandi þess, að byggt verði á ákvörðun hluthafafundar frá 19. júlí 1985 um aukningu hlutafjár í kæranda með útgáfu jöfnunarhlutabréfa úr 500 kr. í 625.000 kr. frá og með þessu tímamarki að telja. Tekin verði til greina arðgreiðsla til frádráttar að fjárhæð 62.500 kr. í framtali 1986. Hluthafafundur hafi samþykkt hlutafjárhækkunina þann 19. júlí 1985 og félagsstjórn samþykkt að greiða 10% arð og hluthafafundur fallist á það. Þessar samþykktir hafi hins vegar ekki verið tilkynntar hlutafélagaskrá, fyrr en á árinu 1986. Allir hluthafar í kæranda hafi gert grein fyrir jöfnunarhlutabréfaútgáfunni í skattframtölum sínum árið 1986 ásamt arðgreiðslunni. í ársreikningi kæranda árið 1985 sé að sjálfsögðu miðað við, að jöfnunarhlutabréfaútgáfan sé fyllilega lögleg og gildi frá samþykkt hluthafafundar. Þótt láðst hafi að tilkynna þessar samþykktir til hlutafélagaskrár, fyrr en á árinu 1986, hafi það ekki á nokkurn hátt haft bagaleg áhrif á þá, sem viðskipti hafi átt við hlutafélagið eða aðra. Þá er vísað til upplýsinga frá hlutafélagaskrá varðandi framkvæmd þessara mála og skv. þeim komi stundum fyrir, að tilkynningar dragist í marga mánuði, en hefðu engu að síður öðlast fullt gildi frá samþykkt hluthafafundar. Þá er vísað til staðfestingar hlutafélagaskrár, er kærunni fylgdi. Að því er arðgreiðslur gjaldárið 1986 snerti þá hafi hluthafafundur verið haldinn í árslok 1985 og samþykkt arðgreiðslu 62.500 kr., enda hefði á þeim tíma legið fyrir, að rekstrarafkoman réttlætti slíka arðgreiðslu. Hefði arðurinn verið greiddur út rétt fyrir áramótin 1985/1986. Skattstjóri hefði krafist þess, að arðurinn yrði sýndur sem ógreiddur í árslok 1985 og hefði það verið gert í leiðréttum ársreikningi. Varðandi hin kærðu atriði gjaldárið 1987 bendir kærandi á, að félagsstjórnin líti svo á, að ársreikningurinn ásamt fylgiritum hans sé plagg, sem stjórnin beri ábyrgð á og þær ráðstafanir, sem þar séu sýndar endurspegli vilja stjórnarinnar. Gögn þessi feli í sér skýrslu stjórnarinnar, enda ekkert fylgirit með ársreikningnum, sem sérstaklega sé kallað skýrsla stjórnar.

III

Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV

Hinar kærðu breytingar sínar gjaldárið 1986 hefur skattstjóri byggt á því, að sú hækkun hlutafjár með útgáfu jöfnunarhlutabréfa, sem um ræðir í málinu, hafi ekki verið tilkynnt til hlutafélagaskrár með lögformlegum hætti, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, en þar segir, að slík hlutafjárhækkun sé ekki gild, fyrr en ákvörðun hefur verið skráð, sbr. og 147. gr. sömu laga um mánaðarfrest til þess að tilkynna breytingar á félagssamþykktum og öðru því, sem tilkynnt hefur verið, til hlutafélagaskrár og gögn, er slíkum tilkynningum skulu fylgja. Fyrir liggur, að slík tilkynning fór ekki fram á árinu 1985. Verður því að staðfesta breytingar skattstjóra að því er tekur til gjaldársins 1986. Hins vegar þykja eigi efni til annars en taka kröfu kæranda til greina varðandi gjaldárið 1987.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja