Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 22/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. — 30. gr. 1. mgr. E-liður 3. tl. og 3. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Húsaleigutekjur — Íbúðarhúsnæði — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Húsaleigufrádráttur — Beinn kostnaður — Beinn kostnaður á móti húsaleigutekjum — Frádráttarheimild — Frádráttur vegna greiddrar húsaleigu — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall — Lagaheimild

Málavextir eru þeir að kærandi leigði út íbúð sína í X árið 1987. Á sama tíma leigði hann íbúð í Y. Í kæru til skattstjóra, mótt. 26. ágúst 1988, gerði kærandi athugasemd við að lagt væri á húsaleigutekjur að fullu að því er virtist án nokkurs frádráttar auk þess sem ekki virtist hafa verið tekið tillit til 50% frádráttar vegna greiddrar húsaleigu. Kvað kærandi það ofvaxið sínum skilningi að húsaleigutekjur væru skattlagðar, því í raun væri þetta „sami potturinn“ fengin og greidd húsaleiga enda nánast um sömu fjárhæðir að ræða.

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu 29. nóvember 1988. Fram kom í úrskurði hans að húsaleigutekjur teldust til tekna skv. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um frádrátt frá þeim tekjum færi eftir ákvæðum 3. mgr. 30. gr. laganna og með vísan til þeirra ákvæða væri ekki unnt að fallast á kröfu kæranda um færslu húsaleigutekna á móti húsaleigugreiðslum. Um frádrátt vegna greiddrar húsaleigu færi eftir ákvæðum 3. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga. Helmingur greiddrar húsaleigu hefði þegar verið heimilaður til frádráttar tekjum í reit 70 í skattframtali kæranda 1988. Húsaleigutekjur væru ekki meðal þeirra tekna sem innheimta álagðs tekjuskatts og útsvar félli niður af gjaldárið 1988 sbr. 2. gr. laga nr. 46/1987. Var því kröfu kæranda um niðurfellingu opinberra gjalda af húsaleigutekjum synjað.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Ítrekar kærandi gerðar kröfur með svofelldum rökstuðningi:

„Forsaga málsins er að ég leigði út íbúð mína að X árið 1987. Aftur á móti leigði ég mér íbúð í Y fyrir sama tíma.

Sem löghlýðnum borgara sæmir taldi ég fram leigutekjur á skattaframtal kr. 225.537 en til frádáttar viðhald og tryggingar upp á 26.213 þannig að mismunur er ca. 200 þúsund. Á móti taldi ég fram þær greiðslur sem ég greiddi fyrir íbúðina í Y kr. 241.800. Þegar ég fæ álagningarseðil frá sýslumanni sé ég að á mig hafa verið lögð gjöld frá árinu 1987 upp á kr. 86.536 þar af er tekjuskattur 30.331 kr., útsvar 22.637 eignarskattur 29.559 og sérstakur eignarskattur 4.009.

Nú er mér sagt af skattstjóra að tekjuskattur og útsvar sé lagt á þessar 200 þús. kr. húsaleigutekjur, en greidd húsaleiga kr. 241.800 er dregin frá tekjuskattsstofni, en þar sem árið er skattfrjálst þá nýtist það ekki.

Nú hljóta allir að sjá að þetta eru ekki tekjur, þar sem ég greiði meira í húsaleigu en ég fæ greiddar úr X. Frá mínum sjónarhóli er þetta nákvæmlega það sama og ég hefði búið í minni íbúð sjálfur. Til vara hlýt ég að fara fram á að helmingur af greiddri húsaleigu kr. 120.900 sé dreginn frá þessum 200 þús. sem ég er talinn hafa í tekjur af húseign minni í X. Svona lög eða öllu heldur ólög eru ekki til að menn beri virðingu fyrir þeim. Ég set þetta í dóm ykkar. Það getur ekki verið að löggjafinn ætlist til, að þannig sé staðið að verki. Túlkun mín er þessi; „skattlausa árið“ á ekki að refsa mér.“

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 20. desember 1989, er á þá leið að úrskurður skattstóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ekki er lagaheimild fyrir kröfum kæranda hvorki aðalkröfu né varakröfu. Þykir því verða að hafna kröfum hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja