Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 132/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 4. mgr.   Lög nr. 45/1987   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr.  

Reiknað endurgjald — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Rekstrartap — Rekstrartap yfirfæranlegt

Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kæranda bréf, dags. 10. maí 1988 og tilkynnti honum um breytingu sem hann hefði gert á skattframtali kæranda árið 1988 með vísun til 3. ml. 1. málsgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfinu segir m.a.: „Lækkuð reiknuð laun úr kr. 400.000 í kr. 172.375.

Breytingin er gerð með vísan í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, en þar segir að óheimilt sé manni, sem ber að telja sér til tekna endurgjald í framtali ársins 1988 vegna tekjuársins 1987, að mynda tap vegna þessa í rekstri sínum.

Yfirfært tap fyrri ár til næsta árs verður kr. 120.561.“

Þessi breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1988 var með kærubréfi umboðsmanns hans, dags. 25. ágúst 1988, kærð til skattstjóra og henni mótmælt með svofelldum rökum:

„Forsendur kæru eru þær, að framteljandi telur að lagagreinar varðandi reiknað endurgjald stangist verulega á, og að markmið löggjafans með tilvitnaðri lagagrein 4. mgr. 4. gr. 46/1987 sé ekki að mismuna einstaklingum með rekstur miðað við lögaðila.

Með vísan til 59. gr. skattalaga þá kemur glögglega fram að mönnum með sjálfstæðan atvinnurekstur ber að reikna sér laun, og einnig að skattstjóri skal ákvarða endurgjald ef framteljandi hefur talið sér laun sem eru hærri eða lægri en ætla mætti að hann hefði fengið hjá óskyldum aðila. Til nánari stuðnings er vísað til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald.

Með vísan til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda 45/1987 kemur einnig greinilega fram að maður er vinnur við eigin atvinnurekstur skal reikna sér laun, einnig hefur ríkisskattstjóri gefið út viðmiðunarreglur um eigin laun svo og verulegt lestrarefni um framkvæmd þeirra í staðgreiðslukerfi.

Miðað við fyrrgreindar forsendur þá verður að líta á nefnda lagagrein 4.4. 46/87 öðrum augum heldur en bréf skattstjóra gefur til kynna.

Laun kæranda eru innan eðlilegra marka, bæði miðað við fyrri ár og einnig þótt tekið sé mið af ofangreindu, einnig því að rekstur kæranda er í sama farvegi og rekstur fyrri ára og að úttektir eru innan eðlilegra marka, þá verður að líta svo á að tap myndist ekki vegna reiknaðs endurgjalds, heldur af öðrum ástæðum, svo sem of litlum tekjum miðað við kostnað, tilfallandi viðbótarkostnaði, vöxtum, efniskaupum eða öðru.“

Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu þann 9. desember 1988 og féllst á það með kæranda, að honum teldist heimilt að reikna sér endurgjald 1987 sem önnur ár og væri gjaldstofnum breytt samkvæmt því. Skattstjóri taldi hins vegar ljóst, að ekki væri heimilt að mynda yfirfæranlegt tap með þessu endurgjaldi og því yrði yfirfæranlegt tap óbreytt eða 120.561 kr.

Þessi kæruúrskurður skattstjóra leiddi til hækkunar á álögðu slysatryggingargjaldi atvinnurekenda og vinnueftirlitsgjaldi á kæranda alls um 752 kr. og lækkunar á skattafslætti til greiðslu eignarskatts og sérstaks eignarskatt um samtals 19.296 kr.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 12. desember 1988. Mótmælt er niðurfellingu yfirfæranlegs taps vegna reiknaðra eigin launa svo og viðbótarálagningu og niðurfellingu skattafsláttar. Röksemdir umboðsmanns kæranda eru sem hér segir:

„Framteljandi kærir viðbótarálagningu og niðurfellingu skattafsláttar er myndast með reiknuðu endurgjaldi, sé ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps.

Framteljandi kærir ennfremur niðurfellingu yfirfæranlegs taps. Til nánari rökstuðnings vísast í bréf umboðsmanns 25.08.88 til skattstjóra D-umdæmis.

Þar sem skattstjóri telur að ekki sé heimilt að mynda yfirfæranlegt tap, þá stangast álagning hans á óheimil laun algjörlega á við innihald lagagreinar 4.4. 46/87.

Framteljandi telur eðlilegt, að komist ríkisskattanefnd að þeirri niðurstöðu að 4. mgr. 4. gr. laga 46/87 stangist það verulega á við aðrar lagagreinar að hún standist ekki, þá sé álagning og yfirfæranlegt tap heimil. Ef hins vegar fyrrgreind lagagrein stendur, þá er álagning á óheimil laun ekki réttmæt.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 16. febrúar 1989, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda verður að telja að í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 felist ótvírætt bann við því að mynda tap í rekstri vegna reiknaðs endurgjalds.“

Skattstjóri lækkaði reiknað endurgjald kæranda með bréfi sínu, dags. 10. maí 1988 að því marki, að tap myndaðist ekki í rekstri kæranda. í hinum kærða úrskurði færði skattstjóri reiknað endurgjald kæranda í upphaflegt horf en ákvað jafnframt að yfirfæranlegt tap yrði ekkert. Þessi síðari breyting skattstjóra fær eigi staðist og er henni því hnekkt. Hins vegar þykir bera að staðfesta breytingu hans, dags. 10. maí 1988, með skírskotun til 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Álögð opinber gjöld á kæranda gjaldárið 1988 breytast því í samræmi við þessa málsniðurstöðu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja