Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 152/1989

Gjaldár 1988

Barnabótaauki — Framfærandi — Barnabótaauki, skipting — Sambýlisfólk — Lögheimili — Sönnun

Kærð er ákvörðun barnabótaauka við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Mótmælir kærandi því að barnabótaaukanum sé skipt á milli foreldra barnsins, A., en kærandi er faðir þess. Krefst hann þess að sér verði ákvarðaður fullur og óskiptur barnabótaauki. í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi svofellda grein fyrir kröfu sinni:

„Röksemdir mínar eru þær að þann 5. nóvember 1987 var komist að bráðabirgðasamkomulagi fyrir framan dómara í X. þar sem mér er veitt forræði yfir barninu og samið er um umgengnisrétt móðurinnar. Þessu samkomulagi var síðan gengið frá að nýju fyrir framan borgardómarann í C. í byrjun janúar 1988.

Ég fæ því ekki betur séð en að taka verði tillit til þessa samkomulags þó svo ekki hafi náðst að tilkynna breytinguna til Hagstofu Íslands fyrir áramót þar sem við vorum bæði erlendis.

Hjálagt sendi ég, þessu til sönnunar, ljósrit af þýðingu á bókun réttarritara frá 05.11.87 sem gerð var fyrir Dómsmálaráðuneyti Íslands.“

Með hinum kærða úrskurði dags. 12. október 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með svofelldum rökum: „Samkvæmt skráningu frá Hagstofu Íslands er kærandi um áramót skráður í sambúð með B., bæði með lögheimili að G-götu, þar af leiðandi skiptist barnabótaauki á milli þeirra skv. 69. gr. laga nr. 75/1981.“

Með bréfi, dags. 9. desember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á grundvelli framlagðra gagna og skýringa kæranda er krafa hans í máli þessu tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja