Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 153/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 49/1986   Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 5. og 9. tl. — 71. gr. 3. tl. — 84. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Húsaleigutekjur — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Fasteignaleiga — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Álagningarmeðferð skattstjóra — Eignarskattur — Eignarskattsauki

Málavextir eru þeir, að í skattframtali kærenda árið 1988 kom fram, að þau byggju nú í Noregi. Skv. framtalinu hafði kærandi, A., launatekjur að fjárhæð 57.974 kr. Þá höfðu kærendur leigutekjur vegna útleigu íbúðar. Skv. rekstraryfirliti, er fylgdi framtalinu, námu hreinar tekjur af útleigunni 162.505 kr. Var sú fjárhæð færð í reit 59 í framtalinu. í reit 72 voru hins vegar færðar 237.505 kr. Við frumálagningu gjaldárið 1988 var kærandi, A., skattlagður vegna leigutekna að fjárhæð 237.505 kr. Þá var honum gert að greiða eignarskatt og sérstakan eignarskatt vegna nefndrar íbúðareignar. Byggði skattstjóri á því, að um takmarkaða skattskyldu væri að ræða í þessum efnum.

Álagning skattstjóra var kærð með kæru, dags. 25. ágúst 1988, og þess krafist, að eignarskattur og sérstakur eignarskattur yrði felldur niður. Tekið var fram, að kærendur ættu lögheimili hér á landi og væru eingöngu um stundarsakir í Noregi. vegna náms. Þau leigðu íbúð sína hér á landi út, meðan á dvölinni stæði og greiddu tekjuskatt og eignarskatt af leigutekjum eignarinnar.

Með kæruúrskurði, dags. 24. október 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 1. mgr. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing hefði birst í Lögbirtingablaði föstudaginn 29. júlí 1988. Síðasti dagur kærufrests hefði því verið laugardagurinn 27. ágúst 1988. Á miðnætti þess dags hefði póstkassi skattstofunnar verið tæmdur. Kæran, sem dagsett væri 25. ágúst 1988, hefði verið í póstkassanum mánudaginn 29. ágúst 1988. Skv. þessu væri kæran of seint fram komin og bæri að vísa henni frá.

Með kæru, dags. 5. nóvember 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er farið fram á, að kæran verði tekin til efnismeðferðar og álagður eignarskattur og sérstakur eignarskattur felldir niður. Kærendur ættu lögheimili hér á landi, en dveldust í Noregi. eingöngu um stundarsakir vegna náms.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir öllum atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar. Gögn málsins bera með sér, að kærendur hafi átt lögheimili í Noregi. Þykir því bera að byggja á takmarkaðri skattskyldu þeirra hér á landi vegna nefndrar íbúðareignar og leigutekna af henni, sbr. 5. og 9. tl. 3. gr., 3. tl. 71. gr. og 84. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lög nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, með síðari breytingum. Er kröfu um niðurfellingu eignarskatts og sérstaks eignarskatts því hafnað. Hins vegar þykir rétt að leiðrétta leigutekjur til skatts í 162.505 kr. í samræmi við framtalsgögn, sbr. m.a. rekstraryfirlit. Að öðru leyti verður eigi haggað við álagningu skattstjóra, en tekið skal fram, að fyrrnefndar launatekjur hafa eigi sætt skattameðferð af hans hálfu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja