Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 171/1989
Gjaldár 1988
Lög nr. 46/1987 — 4. gr. — 5. gr. 2. mgr. Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. l. ml.
Reiknað endurgjald — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Málsmeðferð áfátt — Rökstuðningur — Frávísun vegna síðbúinnar kæru
Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kærendum bréf, dags. 25. júlí 1988, og tilkynnti þeim um breytingu sem hann hefði gert á skattframtali þeirra árið 1988 með vísun til 3. ml. 1. málsgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfinu segir m.a.:
„Breytingin er gerð með vísan til 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, en þar segir: Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skal leggja á menn og innheimta tekjuskatt og útsvar vegna launa tekjuársins 1987 hafi launin verið yfirfærð á það ár vegna breytinga á uppgjörsaðferð eða viðmiðun teknanna eða á annan hátt.
Fari fjárhæð reiknaðs endurgjalds manns vegna ársins 1987, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A — liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, fram úr reiknuðu endurgjaldi hans fyrir árið 1986, eftir að það hefur verið leiðrétt með hliðsjón af breytingum sem orðið hafa á lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1986 til 1. júlí 1987, að viðbættum 25%, eða fram úr viðmiðunartekjum í starfsgrein hans samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir árið 1987 telst sú fjárhæð, sem umfram er, hærri viðmiðun til yfirfærðra launatekna skv. 1. mgr. þessarar greinar.“
Þessi breyting skattstjóra á skattframtali kærenda árið 1988 var með kærubréfi umboðsmanns hans, dags. 28. ágúst 1988, kærð til skattstjóra. í kærubréfinu segir umboðsmaður kærenda m.a.:
„Óskað er eftir því, að tekið verði tillit til þess að í sjálfstæðri starfsemi er um verulega aukningu á vinnuframlagi að ræða, sem fengist hefði viðurkennt að einhverju leyti hefðu framteljendur eingöngu stundað sjálfstæðan atvinnurekstur, sbr. það að heimilað hefur verið að draga frá hagnaði allt að tvöfaldar viðmiðunartekjur.
Einnig óskast tekið tillit til þess, að A. hættir störfum á árinu 1987 sem launþegi og byrjar sjálfstæða starfsemi í eigin fagi (sjúkraþjálfun) og námu brúttótekjur hennar kr. 331.674,- Auk þess sem hún vinnur einnig aðstoðarstörf við starfsemi B.“
Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 28. október 1988 og vísaði kærunni frá sem of seint framkominni, enda hefði hún verið móttekin 30. ágúst 1988 eftir lok kærufrests. Þá getur skattstjóri þess í úrskurðinum, að samþykkt skattlaust endurgjald hjá kæranda, B., sé 94% þess, sem hann hafi reiknað sér 1988.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns þeirra, dags. 22. nóvember 1988, og vísað til rökstuðnings í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1988.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 4. janúar 1989, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Kærendur hafa enn ekki sýnt fram á að þeim hafi eigi verið unnt að kæra innan tilskilins frests.“
Eftir atvikum er kæran til ríkisskattanefndar tekin til efnismeðferðar.
Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Svo sem atvikum máls þessa er varið, verður að telja, að skattstjóra hafi borið að fara með breytinguna eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga, sem hér eiga við sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 46/1987 um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo sem þeirri grein var breytt með 1. gr. laga nr. 85/1987. Af þessum ástæðum og þar sem skattstjóri gerði eigi fullnægjandi tölulega grein fyrir breytingu sinni þykir verða að fella hinar kærðu breytingar úr gildi og taka kröfu kæranda til greina.