Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 176/1989
Gjaldár 1988
Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 4. mgr. Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. Lög nr. 73/1980 — 36. gr.
Reiknað endurgjald — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn
Málavextir eru þeir, að kærandi ákvarðaði sér reiknað endurgjald að fjárhæð 657.708 kr. vegna vinnu við sjálfstæða starfsemi sína, er hann gjaldfærði á rekstrarreikningi árið 1987 og tekjufærði í reit 24 í skattframtali árið 1988. Rekstrartap nam 193.111 kr.
Með bréfi, dags. 27. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að reiknað endurgjald hans hefði verið ákvarðað 464.597 kr. í samræmi við 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem svo væri kveðið á um, að ekki væri heimilt að mynda rekstrartap með reiknuðu endurgjaldi. Þá hækkaði skattstjóri aðstöðugjaldsstofn um fjárhæð breytingarinnar eða úr 407.547 kr. í 600.658 kr.
Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 19. ágúst 1988. Rökstuðningur kæranda barst í bréfi, dags. 18. október 1988. Hélt kærandi því fram, að það gæti ekki hafa verið tilgangur löggjafans að mismuna skattþegnum eftir því hvort þeir væru launþegar eða þægju laun frá eigin atvinnurekstri. Lög nr. 46/1987 ættu að koma í veg fyrir það, að sjálfstæðir atvinnurekendur gætu notfært sér aðstöðu sína. Lögin ættu fyrst og fremst að varna því, að laun annarra ára er ársins 1987 væru færð á það ár. Þá reifaði kærandi ákvæði 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því er varðar myndun rekstrartaps með reiknuðu endurgjaldi. Þá segir svo í bréfi kæranda:
„Ýmiss atvinnurekstur getur verið mjög sveiflukenndur. Tekjur geta myndast síðar heldur en störf þau eru innt af hendi, sem liggja að baki tekjunum. T.d. hvað varðar þróun ýmisskonar, byggingarstarfsemi ofl. Með tilkomu staðgreiðslulaga myndast millibilsástand þar sem tekjuskattur, útsvar ofl. gjöld eru felld niður af launatekjum ársins 1987. Skattar af öllum almennum launatekjum féll niður, sama hversu mikil aukning launa varð á milli ára. Atvinnurekendum voru aftur á móti settar skorður (nokkuð rúmar þó). Hérna held ég að lög nr. 46/1987 hafi átt að grípa inn í þ.e. ekki að skaða þann lágmarksrétt sem atvinnurekandi hafði (þ.e. reikna sér laun fyrir sína vinnu) heldur að koma veg fyrir að atvinnurekandi gæti teygt reiknað endurgjald sitt eins langt og viðmiðunarreglur frekast leyfðu, og ekki var hægt að rökstyðja það á haldbæran hátt. Að öðrum kosti er atvinnurekendum hreinlega refsað. Þ.e.a.s. ef atvinnurekstur var rekinn með tapi 1987, en skilar hagnaði bæði fyrr og síðar er atvinnurekandinn að greiða skatt af launum sem hann fékk 1987, en það átti að vera skattlaust ár hvað varðaði skatta af launatekjum.
Ég hóf sjálfstæðan atvinnurekstur á haustdögum 1987 og að vísu hafði ég rekið, í litlum mæli þó, sjálfstæða starfsemi áður. Nú er það svo í atvinnurekstri eins og mínum að við stofnun svona stofu fer mikið starf í undirbúning og tekjur af slíku skila sér ekki strax. Ennfremur er ýmiss kostnaður sem vegur þungt í byrjun og dreifist á mjög skamman tíma í mínu tilfelli (3. mán.) í stað heils árs t.d. prentunarkostnaður, stofnkostnaður síma ofl. Það er augljóst að með því að færa niður reiknað endurgjald mitt er verið að mismuna mér borið saman við almennan launþega. Því það er ljóst að hluti af tekjum v/vinnu sem ég leysti af hendi á tímabilinu okt. til des. 1987 skila sér ekki fyrr en 1988 og koma til með að mynda hagnað á því ári ef túlkun skattstjóra nær fram að ganga. Í raun er ég því að greiða skatta af launatekjum sem ég vann til 1987. Það er ljóst að það er á tímabilinu okt.-des. sem tap myndast vegna reiknuðu launanna. Reiknuð laun á því tímabili eru samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra og er því ekki verið að búa til nein reiknuð laun. Skv. tímabókhaldi eru skráðir 78 tímar um áramót, sem ekki var búið að útskulda. Voru þetta ýmist verk sem voru í vinnslu um áramót og var ekki lokið fyrr en á þessu ári eða 1—2 tímar á hin ýmsu fyrirtæki. Auk þess, eins og áður kom fram, er ýmis undirbúningsvinna sem ekki verður heimfærð á neitt sérstakt verkefni.
Undirritaður er ekki sáttur við að gjalda þess að hafa hafið fyrirtækjarekstur á því ári sem launatekjur áttu að vera undanþegnar skattaálagningu.
Þess er hér með farið á leit að tap v/reiknaðs endurgjalds verði látið standa. í fyrra bréfi var mótmælt hækkun á aðstöðugjaldsstofni og þess óskað að álagningu verði breytt v/þessa.“
Með kæruúrskurði, dags. 5. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til ákvæða 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem svo væri kveðið á um, að manni, er bæri að telja sér reiknað endurgjald til tekna, í framtali árið 1988 vegna tekjuársins 1987, væri óheimilt að mynda tap vegna þess. Skattstjóri ákvarðaði í kæruúrskurðinum aðstöðugjaldsstofn kæranda 407.547 kr.
Með kæru, dags. 5. nóvember 1988, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst hann þess, að tap vegna reiknaðra launa verði talið yfirfæranlegt milli ára. Kærandi vísar til bréfs síns, dags. 18. október 1988, til skattstjóra varðandi rökstuðning í málinu. Kæruúrskurður skattstjóra hafi ekki haft áhrif á gjöld gjaldársins 1988 að öðru leyti en því, að launaskattsstofn hafi lækkað. Launaskattur myndi því hækka, ef kröfur hans næðu fram að ganga.
Með bréfi, dags. 4. janúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með vísan til skýlausra ákvæða 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, er hinn kærði úrskurður skattstjóra staðfestur.