Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 177/1989
Gjaldár 1988
Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I Lög nr. 75/1981 —51. gr.
Vaxtagjöld — Vaxtaafsláttur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Verðbætur — Gildistaka skattalagabreytinga
Málavextir eru þeir, að skattstjóri ákvarðaði kærendum vaxtaafslátt gjaldárið 1988. Nam fjárhæð hans í heild 1.678 kr. Með kæru, dags. 26. ágúst 1988 vora álögð gjöld 1988 kærð til skattstjóra og boðað að rökstuðningur yrði sendur síðar. Sá rökstuðningur barst skattstjóra í bréfi, dags. 28. október 1988. Þar segja kærendur m.a.:
„Á framtal okkar 1988 eru gjaldfærð vaxtagjöld að fjárhæð kr. 119.741. Gjöld þessi eru reiknuð samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt eins og þau hafa verið undanfarin ár, þ.e. verðbætur eru taldar til gjalda er þær gjaldfalla. Með 5. gr. laga nr. 49/1987 voru hins vegar felldar niður úr lögum nr. 75/1981 2. og 3. málsl. 2. mgr. 51. gr., þannig að eftir stendur sú regla enn, sem hefur gilt í atvinnurekstri, að verðbætur ber að gjaldfæra er þær falla á viðkomandi skuld.
Því óskum við að sú leiðrétting verði gerð á framtali okkar, að vaxtagjöld verði hækkuð í kr. 902.981, þ.e. að áföllnum verðbótum frá lántökudögum til 1/1 88, kr. 783.240 verði bætt við gjaldfærða vexti og vaxtaafsláttur reiknaður samkvæmt því. Varakrafa okkar er, að vaxtagjöldin verði hækkuð í kr. 450.061, þ.e. að áföllnum verðbótum frá 31/12 86 — 1/1 88, kr. 330.320 verði bætt við vaxtagjöldin.“
Með kærunni fylgdi útreikningur ofangreindra verðbóta.
Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda með svofelldum rökum:
„Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra breyta lög nr. 49/1987 ekki þeirri reglu, sem verið hefir, að verðbætur utan atvinnurekstrar beri að færa til gjalda er þær eru greiddar eða gjaldfallnar.“
Úrskurði skattstjóra hafa kærendur skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. desember 1988. Ítrekaðar eru kröfur um leiðréttingu á fjárhæð vaxtaafsláttar og er í því sambandi vísað til kæru til skattstjóra.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 13. janúar 1989, fyrir hönd gjaldkrefjenda gert svofelldar kröfur í máli þessu:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Ákvæði 5. gr. laga nr. 49/1987 um breytingu á 51. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt öðluðust ekki gildi fyrr en 1. janúar 1988 og koma fyrst til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1989 vegna tekna á árinu 1988 og eigna í lok þess árs, sbr. 21. gr. laga nr. 49/1987.“
Með vísan til ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 49/1987 um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, er kröfu kærenda í þessu máli hafnað.