Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 180/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 3. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. — 100. gr. 1. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Vítaleysisástæður — Reiknað endurgjald — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Yfirfærðar launatekjur — Skattlagning hluta reiknaðs endurgjalds sem yfirfærðra launatekna

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sættu kærendur áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu stofna skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í framhaldi af kæru, dags. 25. ágúst 1988, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1988 til skattstjóra með bréfi, dags. 11. október 1988. Er framtalið dagsett 7. október 1988. Fór umboðsmaðurinn fram á, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1988 án álags vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem þau hefðu dregist vegna atvika, er vörðuðu umboðsmanninn og hann gerði nánari grein fyrir.

Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1988, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kærenda árið 1988 til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 1988 með ýmsum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Sú breyting, sem ágreiningur er um í máli þessu varðar skattlagningu hluta reiknaðs endurgjalds kæranda, A., sem yfirfærðra tekna skv. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þessi kærandi hafði reiknað sér endurgjald að fjárhæð 855.000 kr. vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Í kæruúrskurðinum lagði skattstjóri tekjuskatt og útsvar á 255.000 kr. af fjárhæð endurgjaldsins skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987. Þá bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna kærenda vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Með kæru, dags. 9. desember 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst niðurfellingar á skattlagningu á 255.000 kr. af fjárhæð reiknaðs endurgjalds, kæranda, A., jafnframt því að hann fer fram á niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila. Umboðsmaðurinn kveður tekjuaukninguna eingöngu til komna vegna aukins vinnuálags og færir fram töluleg rök fyrir þeirri staðhæfingu.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin er lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 11. des. 1988. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“

Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar og frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hrundið. Fallist er á kröfu kærenda um niðurfellingu álags. Að virtum málavöxtum og með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 þykir bera að hafna kröfu kærenda um niðurfellingu skattlagningar á umræddar yfirfærðar tekjur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja