Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 182/1989
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 23. gr. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. og 4. tl. — 34. gr. — 44. gr. 1. mgr. 2.ml. — 53. gr. — 74. gr. 4. tl. Lög nr. 73/1980 — 37. gr.
Vörubirgðir — Niðurfærsla vörubirgða — Niðurfærsluheimild — Niðurfærslu— og samanburðarblað — RIS. 1981.162 — RIS. 1985.108 — Aðstöðugjaldsstofn — Tap af sölu atvinnurekstrareignar — Sölutap — Rekstrarkostnaður — Verk í vinnslu — Sérstök fyrning — Fyrning — Fyrning tekjufærslu — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Varasjóður — Varasjóðstillag
Málavextir eru þeir, að skattframtal kæranda árið 1987, dags. 15. apríl 1987, er barst skattstjóra sama dag, var lagt til grundvallar frumálagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1987. Með kæru, dags. 19. ágúst 1987, sendi umboðsmaður kæranda endurgert skattframtal árið 1987, þar sem þurft hefði að gera ýmsar leiðréttingar á fyrra framtali. Var þess farið á leit, að hið endurgerða skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1987. Með bréfi, dags. 28. október 1987, krafði skattstjóri kæranda skýringa á nokkrum atriðum framtalsins. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessu bréfi svarað með bréfi, dags. 4. nóvember 1987, og umbeðnar skýringar gefnar. Að svo búnu tók skattstjóri kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 30. nóvember 1987. Féllst hann á að leggja hið endurgerða skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1987 með nokkrum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Ágreiningsefnið í máli þessu eru eftirgreindar breytingar skattstjóra:
1. Niðurfærsla vörubirgða. Kærandi dró frá tekjum sínum niðurfærslu vörubirgða að fjárhæð 694.388 kr., sbr. niðurfærslu- og samanburðarblað R4.04, er fylgdi skattframtalinu. í bréfi sínu, dags. 28. október 1987, krafði skattstjóri kæranda m.a. um skýringar á eignaliðnum „verk í vinnslu“ að fjárhæð 6.566.000 kr. Í svarbréfi sínu, dags. 4. nóvember 1987, sundurliðaði umboðsmaður kæranda þennan lið og gat þess, að um væri að ræða verk sem ekki hefði verið lokið við um áramót 1986/1987. Í kæruúrskurði sínum tekur skattstjóri fram, að svar kæranda sé ófullnægjandi. Skattstjóri kvaðst líta svo á, að virtum tilgangi kæranda, að um byggingarframkvæmdir væri að ræða og því óheimilt að færa verðmæti verka í vinnslu niður, sbr. 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Niðurfærsla vörubirgða væri því lækkuð í 117.560 kr.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. desember 1987, mótmælir umboðsmaður kæranda þessari breytingu skattstjóra. Segir svo í kærunni:
„Við lestur laga nr. 75/1981 og að virtum úrskurði ríkisskattanefndar nr. 742 frá 12.03.81, þar sem lagaákvæði sem snerta niðurfærslu vörubirgða eru rakin að nokkru leyti, virðist okkur ekki einsýnt hvar mörkin liggja milli vörubirgða sem heimilt er að færa niður og hinna sem ekki er heimilt að færa niður. Leyfum við okkur því að upplýsa eðli máls ýtarlegar, en gert var í svarbréfi til skattstjóra 4. nóvember 1987 og förum fram á sem aðalkröfu að niðurfærsla umræddra vörubirgða verði heimiluð að fullu.
- X. sf. flytur inn, selur og setur upp milliveggi, auk þess að annast almenna viðhalds- og nýsmíðavinnu.
- Verkin eru annað hvort unnin samkvæmt fyrirframgerðu tilboði eða á grundvelli tímaútskriftar.
- Verk í vinnslu í árslok 1986 samanstóðu því annars vegar af innfluttum veggeiningum og áætlaðri vinnu við uppsetningu þeirra, og hins vegar af viðhaldsverkefnum. Að sögn forráðamanna félagsins var efnisþátturinn nálægt kr. 1.646.000 og vinnuþátturinn nálægt kr. 4.920.000. Af verkum í vinnslu í árslok 1986 voru 3.766.000 verk unnin samkvæmt tímaútskrift en 2.800.000 samkvæmt tilboði.“
Með bréfi, dags. 23. nóvember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur varðandi þetta kæruatriði. Ríkisskattstjóri vísar til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 742/1981 í þessu sambandi.
2. Aðstöðugjaldsstofn. Skv. greinargerð kæranda um aðstöðugjaldsstofn nam hann 18.377.260 kr. Skattstjóri ákvarðaði stofninn m.t.t. breytinga sinna 18.384.784 kr. í hinum kærða úrskurði. M.a. bætti skattstjóri gjaldfærðu tapi 44.939 kr. af sölu bifreiðar við stofninn. í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. desember 1987, segir svo: „Fallist er á að aðstöðugjaldsstofn hækki um kr. 28.696 vegna fyrningar og lækki um kr. 66.111 vegna ófrádráttarbærra gjalda á rekstrarreikningi. Því er hins vegar mótmælt að stofninn hækki um kr. 44.939 vegna taps á sölu bifreiðar. Vísast þar til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 108/1985. Stofn til útreiknings aðstöðu- og iðnlánasjóðsgjalds nemur því kr. 18.339.845 samkvæmt okkar kröfum“.
Með bréfi, dags. 23. nóvember 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur varðandi þetta kæruatriði: „Ríkisskattstjóri telur að 34. gr. laga nr. 75/1981 eigi við sölutap bifreiðar, eins og málum háttar hér. Samkvæmt því telst gjaldfærslan rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. s.l. og því aðstöðugjaldsskylt skv. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980“.
3. Eignarskattsstofn. Skattstjóri hækkaði eignarskattsstofn um 576.828 kr. til samræmis við niðurstöðu sína varðandi 1. tl. hér að framan svo og vegna leiðréttingar á fyrningargrunni um 32.476 kr. Af hálfu kæranda er fallist á síðastnefnt atriði en því fyrrnefnda mótmælt, sbr. röksemdir kæranda varðandi ágreiningsefni í 1. tl. Ríkisskattstjóri krefst þess að þessari kröfu verði hafnað, sbr. 1. tl.
4. Varakröfur. — Fyrning á móti tekjufærslu og tillag í varasjóð. Varakröfur þessar hljóða svo í kæru kæranda, dags. 29. desember 1987: „Verði ekki fallist á niðurfærslu vörubirgða samkvæmt lið 1 hér að framan er farið fram á til vara, að fjárhæð tekjufærslu samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/1981 verði fyrnd allt að 40% samkvæmt 44. gr. sömu laga á móti iðnvélum og tækjum sem metin eru 31/12 1986 á 946.967 kr. Jafnframt er farið fram á að heimild til tillags í varasjóð verði nýtt að fullu“. Ríkisskattstjóri fellst á varakröfur þessar í kröfugerð sinni, dags. 23. nóvember 1988.
Um 1. tl. Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að honum sé að neinu leyti heimil umkrafin niðurfærsla tilfærðra verka í vinnu. Að svo vöxnu þykir verða að vísa þessu kæruatriði frá vegna vanreifunar.
Um 2. tl. Fallist er á kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði.
Um 3. tl. Kröfu kæranda er vísað frá sbr. 1. tl. hér að framan.
Um 4. tl. Fallist er á kröfur kæranda.