Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingabætur
  • Tekjutímabil
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 558/1999

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 28. gr. 2. tölul., 60. gr. 2. mgr.   Lög nr. 37/1993, 7. gr. 2. mgr., 13. gr., 15. gr.  

Kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga frá tryggingafélagi samkvæmt tryggingu, sem hann hafði hjá félaginu, í einu lagi hinn 1. apríl 1996. Kærandi mótmælti skattlagningu greiðslunnar og byggði á því að um eingreiðslu vegna varanlegrar örorku hefði verið að ræða sem ekki væri skattskyld. Yfirskattanefnd tók fram að þótt fyrir lægi að kærandi væri öryrki væri ljóst að umrædd greiðsla samkvæmt þessari tryggingu hefði ekki verið bætur vegna varanlegrar örorku, enda hefði kærandi ekki átt rétt á slíkum bótum á grundvelli tryggingarinnar. Þótti engu breyta um eðli greiðslunnar þótt tryggingafélagið hefði afráðið að greiða fjárhæðina í einu lagi vegna bótatímabilsins og þar með að hluta til fyrirfram. Því var kröfu kæranda hafnað. Tekið var fram varðandi tekjutímabil að greiðslan þætti réttilega heimfærð undir tekjuárið 1996 með tilliti til þeirrar ákvörðunar að greiða dagpeningana að fullu á því ári.

I.

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra er hann tók með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 12. janúar 1999, að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 1997 2.318.400 kr. sem skattstjóri taldi vera skattskyldar bótagreiðslur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1997 í samræmi við það. Kærandi mótmælir skattlagningu greiðslnanna og byggir á því að um eingreiðslu vegna varanlegrar örorku hafi verið að ræða er ekki sé skattskyld, sbr. 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

II.

Málavextir eru þeir að í reit 73 í skattframtali sínu árið 1997 tilgreindi kærandi sem skattfrjálsar greiðslur tjónabætur vegna sjúkdóms 2.318.400 kr. Í athugasemdadálki skattframtalsins var svofelldar upplýsingar að finna: „Eingreiðsla úr slysa- og sjúkra (sjóði) v/varanl. tapaðrar starfsgetu vegna sjúkdóms að upphæð kr. 2.318.400.-“

Með bréfi, dags. 8. október 1998, lagði skattstjóri fyrir kæranda, með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, að gera grein fyrir því hvers vegna hann hefði ekki talið til tekna í skattframtali árið 1997 dagpeninga að fjárhæð 2.318.400 kr. frá tryggingafélaginu X hf. Vísaði skattstjóri til framsends lista frá skattstjóranum í Reykjavík yfir bótagreiðslur frá tryggingafélögum þar sem fram kæmi að kærandi hefði fengið umræddar greiðslur. Um skattskyldu umræddra dagpeninga vísaði skattstjóri til 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 27. október 1998, barst skattstjóra svar kæranda. Í bréfinu sagði m.a.:

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði mér hjá skattyfirvöldum var eingreiðsla frá tryggingafélagi ekki skattskyld heldur aðeins framtalsskyld. Þar sem þessi greiðsla var ekki uppsöfnuð heldur greidd út í byrjun bótatímabils, í einu lagi og þar sem um varanlega örorku er að ræða, samanber læknisvottorð og mat Tryggingastofnunar, tel ég greiðsluna rétt færða.

Ég lít á greiðsluformið sem aðalatriði en ekki hvað greiðslan er kölluð, samanber að í dag fæ ég greiddar örorkubætur mánaðarlega sem ég greiði skatt af, en ætti ekki að gera ef bætur sem kallaðar eru örorkubætur ættu að vera framtalsskyldar en ekki skattskyldar.“

Með bréfi kæranda fylgdu ýmiss gögn, þ. á m. yfirlit X hf. yfir tjónagreiðslur til kæranda og ljósrit af tjónskvittun kæranda, dags. 1. apríl 1996, þar sem kærandi kvittar fyrir greiðslu á dagpeningum vegna slyss að fjárhæð 2.318.400 kr. Kærandi gerði í bréfinu sérstakar athugasemdir við yfirlit tryggingafélagsins yfir tjónagreiðslur er hann hefði ekki kvittað undir. Vörðuðu athugasemdir kæranda tilgreiningu á tjónsdegi og tjónstilviki o. fl. og tók kærandi fram að hann væri haldinn sjúkdómi, eins og hann greindi nánar frá, en hefði ekki orðið fyrir slysi. Gat kærandi þess að tryggingafélagið hefði neitað honum um staðfestingu á því að hann hefði fengið umrædda greiðslu í einu lagi. Þá gerði kærandi grein fyrir högum sínum að öðru leyti, þ.á m. tekjum, og lagði fram umsókn um ívilnun í sköttum.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1998, boðaði skattstjóri kæranda, með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, að fyrirhugað væri að færa honum til tekna í skattframtali árið 1997 skattskylda dagpeninga að fjárhæð 2.318.400 kr. frá X hf. og endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1997 í samræmi við þá tekjuhækkun. Um skattskyldu greiðslnanna vísaði skattstjóri til 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og gerði jafnframt grein fyrir því að þær féllu ekki undir skattfrelsi samkvæmt 2. tölul. 28. gr. sömu laga sem skattstjóri rakti efnislega. Þá vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 skyldi tekjur að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær yrðu til, þ.e. þegar myndast hefði krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur væri að ræða. Á þessum grundvelli væri fyrirhugað að færa kæranda til skattskyldra tekna umrædda dagpeninga gjaldárið 1997. Þá sagði m.a. svo í boðunarbréfi skattstjóra:

„Samkvæmt staðfestum upplýsingum frá X hf. dags. 6. og 19. nóvember sl., sbr. meðfylgjandi afrit, má vera ljóst að greiðsla sú sem þér fenguð á árinu 1996 er skilgreind sem dagpeningar og er því um skattskyldar tekjur að ræða, sbr. framangreint. Það skiptir engu hvað skattskyldu ofangreindra dagpeningagreiðslna varðar, þótt tryggingafélagið hafi ákveðið að greiða yður dagpeninga, fyrir allt bótatímabilið, út í einu lagi.“

Í bréfi X hf., dags. 6. nóvember 1998, er skattstjóri vísaði til og lét fylgja boðunarbréfi sínu, kom fram að það var ritað í tilefni af ósk skattstjóra um upplýsingar um uppgjör félagsins við kæranda. Upplýst var í bréfinu að uppgjör við kæranda hefði farið fram 1. apríl 1996 og hefði félagið þá greitt honum 2.318.400 kr. er væru dagpeningar úr sjúkra- og slysatryggingu sem kærandi hefði tekið hjá félaginu árið 1990, þ.e. summutrygging með fyrirfram ákveðnum bótafjárhæðum. Hinn 2. febrúar 1994 hefði kærandi óskað eftir að biðtími í sjúkraþætti tryggingarinnar yrði lengdur úr 4 vikum í 12 vikur og hefði það verið gert. Hefðu honum verið tryggðar greiðslur að fjárhæð 24.396 kr. á viku ef óvinnufærni hans stafaði af sjúkdómi. Tryggingin væri ekki með bótaþátt vegna varanlegrar örorku af völdum sjúkdóms. Í mars 1996 hefði félaginu borist læknisvottorð um alvarlegan sjúkdóm kæranda og hefði sú ákvörðun verið tekin 1. apríl 1996 að greiða kæranda dagpeninga fyrir allt bótatímabilið, þ.e. 92 vikur. Hefði það verið gert með vísan til fyrrgreinds læknisvottorðs og þess að örorkumat hefði verið óþarft þar sem tryggingin hefði ekki verið með þann bótalið. Félagið hefði því greitt kæranda 2.318.400 kr. að teknu tilliti til biðtíma samkvæmt tryggingaskírteininu sem dagpeninga, enda hefði kærandi ekki átt rétt til annars. Kom fram að af áðurgreindu læknisvottorði mætti ráða að kærandi yrði óvinnufær út bótatímabil tryggingarinnar og því hefði þótt rétt að hann nyti fullra bóta strax. Væri það skýringin á því að um eingreiðslu hefði verið að ræða. Með bréfum X hf., dags. 19. nóvember 1998, til skattstjóra sem skattstjóri vísaði til og lét fylgja boðunarbréfi sínu, var staðfest af hálfu tryggingafélagsins að greiðsla dagpeninga að fjárhæð 2.318.400 kr. til kæranda hinn 1. apríl 1996 væri tilkomin vegna læknisvottorðs frá 27. mars 1996 um óvinnufærni kæranda frá janúar 1996. Dagpeningar þessir hefðu því verið greiddir fram í tímann út bótatímabil tryggingarinnar.

Ekki bárust skrifleg andmæli af hálfu kæranda við boðunarbréfi skattstjóra og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 12. janúar 1999, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda í samræmi við hana. Með sama úrskurði tók skattstjóri til úrlausnar beiðni kæranda um ívilnun í sköttum og lækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 1997 um 850.000 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

III.

Með kæru, dags. 8. mars 1999, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 12. janúar 1999, til yfirskattanefndar. Krefst kærandi þess að skattlagning umræddra greiðslna 2.318.400 kr. frá X hf. verði felld niður. Kærandi tekur fram að í samræmi við upplýsingar, sem hann hafi aflað sér frá ríkisskattstjóra vegna framtalsgerðar árið 1997, hafi hann litið svo á að eingreiðsla vegna varanlegrar örorku væri ekki skattskyldar tekjur heldur einungis framtalsskyld, enda bæri að líta til greiðsluformsins og ástæðna fyrir greiðslunni en ekki hvað hún kynni að vera kölluð. Í samræmi við þetta hefði verið getið um greiðsluna í skattframtali árið 1997 sem skattfrjálsa greiðslu. Kærandi getur þess að starfsmenn X hf. hafi verið svo vissir um varanlega örorku hans að þeir hefðu látið læknisvottorð duga til ákvörðunar um greiðslu, en örorkumat hefði ekki legið fyrir fyrr en 6. júní 1996. Þá rekur kærandi samskipti sín við X hf. m.a. vegna leiðréttingar á tilgreiningu í tjónskvittun í þá veru að greiðslan hefði verið innt af hendi í einu lagi vegna fyrirséðrar varanlegrar örorku, sem staðfest hefði verið af Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 14. júní 1996. Athugasemdir kæranda hafi beinst að tilgreiningu á greiðslunni sem dagpeningum vegna slyss. Bendir kærandi á þýðingu leiðréttingar að þessu leyti, enda hafi starfsmaður skattstjóri tjáð sér að ef greiðslan væri tilgreind sem eingreiðsla vegna varanlegrar örorku kæmi ekki til skattlagningar. Jafnframt rekur kærandi í kærunni bágar aðstæður sínar og kostnað vegna veikinda sinna svo og útgjöld vegna menntunar barna. Kærunni fylgdu afrit af ýmsum gögnum, þ.á m. tjónskvittun, yfirliti tryggingafélagsins yfir tjónagreiðslur, örorkumati tryggingayfirlæknis, dags. 14. júní 1996, læknisvottorði, dags. 1. febrúar 1999, svo og bréfaskiptum í málinu bæði bréfaskiptum skattstjóra og tryggingafélagsins og bréfum skattstjóra og kæranda við meðferð málsins. Meðal bréfanna er bréf X hf. til kæranda, dags. 22. febrúar 1999, þar sem staðfest er samkvæmt beiðni frá kæranda að eingreiðsla 2.318.400 kr. hafi verið byggð á tilgreindu læknisvottorði, dags. 27. mars 1996, og þar sem talið hefði verið að það bæri með sér að allar líkur væru á því að varanleg örorka myndi hljótast af sjúkdómi kæranda og þar sem tryggingin hefði ekki haft að geyma bótaþátt vegna varanlegrar örorku hafi það verið ákvörðun félagsins að greiða kæranda strax fulla dagpeninga út bótatímabil tryggingarinnar. Þá barst í framhaldi af kæru örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. júní 1999.

IV.

Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð í málinu:

„Með bréfi dagsettu 8. október 1998 tilkynnti skattstjóri kæranda að samkvæmt framsendum lista yfir greiðslur frá tryggingafélögum (í þessu tilfelli X) hefði kærandi ekki talið fram dagpeninga til tekna. Skattstjóri veitti kæranda 14 daga frest til að tjá sig. Í svarbréfi til skattstjóra tók kærandi fram að hann teldi að um bætur fyrir varanlega örorku væri að ræða og því væru þær ekki skattskyldar. Vísaði hann til þess máli sínu til stuðnings að um eingreiðslu hefði verið að ræða og að greiðslan væri í raun greiðsla vegna varanlegrar örorku. Í kjölfar svarbréfs kæranda boðaði skattstjóri honum endurálagningu opinberra gjalda á þeim forsendum að um dagpeningagreiðslur tryggingarfélags væri að ræða sbr. 2. tl. A-liðar 7. gr. l. nr. 75/1981. Kærandi neytti ekki andmælaréttar. Með úrskurði dagsettum 12. janúar 1999 hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd.

Skv. 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 teljast „Tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr.“ til skattskyldra tekna. Í 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981 er greint frá því hvaða bætur teljast ekki skattskyldar. Samkvæmt nefndri grein teljast bætur vegna varanlegrar örorku sem ákveðnar eru í einu lagi ekki til skattskyldra tekna. Í bréfi frá X dagsettu 6. nóvember 1998 kemur fram „að tryggingin feli í sér að kæranda séu tryggðar greiðslur að fjárhæð 24.396 á viku, ef óvinnufærni hans stafaði af sjúkdómi. Tryggingin er ekki með bótaþátt vegna varanlegrar örorku af völdum sjúkdóma“. Jafnframt segir: „Félagið greiddi tjónþola því kr. 2.318.400.- að teknu tilliti til biðtíma skv. tryggingarskírteininu, sem dagpeninga (leturbreyting fyrirsvarsmanns gjaldkrefjanda), enda átti hann ekki rétt til annars. Af áðurgreindu læknisvottorði mátti ráða að A yrði óvinnufær út bótatímabil tryggingarinnar og því rétt að hann nyti fullra bóta strax. Er það skýringin á því að um eingreiðslu var að ræða“. Skv. þessu bréfi tryggingarfélagsins verður að ætla að um dagpeninga vegna sjúkdóms hafi verið að ræða, sem eru skattskyldir skv. 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Eingreiðslan sem slík var einungis til hagræðis fyrir kæranda en veldur því ekki ein og sér, að skattskylda falli niður. Þar sem fram kemur í bréfi X að tryggingin feli ekki í sér bótaþátt vegna varanlegrar örorku, af völdum sjúkdóma, þá getur þessi greiðsla ekki talist greiðsla vegna varanlegrar örorku jafnvel þó sýnt þyki að kærandi hafi hlotið varanlega örorku af sjúkdómi sínum.

Krafa ríkisskattstjóra er því sú, með þeim athugasemdum sem að ofan greinir, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

V.

Telja verður að kæran lúti annars vegar að niðurfellingu skattlagningar á umrædda greiðslu 2.318.400 kr. frá X hf., er kærandi veitti viðtöku á árinu 1996, og hins vegar að ívilnun í sköttum samkvæmt 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Í dæmaskyni um skattskyldar tekjur er m.a. í 2. tölul. A-liðar sömu lagagreinar tilgreindar tryggingabætur, meðlög og styrkir svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. laganna. Í nefndum 2. tölul. 28. gr. er m.a. kveðið á um að til skattskyldra tekna teljist ekki eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingarfjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu.

Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi sínu, dags. 8. október 1998, og að fengnum athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 27. október 1998, boðaði skattstjóri kæranda hina umdeildu tekjuhækkun með bréfi, dags. 23. nóvember 1998, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, eins og grein þessari var breytt með 16. gr. laga nr. 145/1995. Ekki bárust andmæli frá kæranda og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 12. janúar 1999, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd samkvæmt 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995. Var úrskurður þessi kæranlegur til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, sbr. 6. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995.

Óumdeilt er að kærandi fékk umrædda fjárhæð 2.318.400 kr. greidda í einu lagi frá X hf. hinn 1. apríl 1996, sbr. og ljósrit tjónskvittunar, undirritaðrar af kæranda, sem dagsett er þann dag, er liggur fyrir í málinu. Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu á skattlagningu umræddrar greiðslu á því að um hafi verið að ræða bætur vegna varanlegrar örorku er ákveðnar hafi verið í einu lagi til greiðslu. Samkvæmt þessu byggir kærandi á því að ákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981 taki til umræddrar greiðslu og hún teljist þannig ekki til skattskyldra tekna samkvæmt því ákvæði. Vísar kærandi til framlagðra gagna um örorkuna, þ.á m. örorkumats Tryggingastofnunar ríkisins og læknisvottorðs. Fyrir liggur að greiðslan var innt af hendi í einu lagi, sbr. fyrirliggjandi gögn frá tryggingafélaginu. Skattstjóri byggði hins vegar á því að um skattskylda dagpeninga væri að ræða samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og vísaði til upplýsinga frá X hf. um eðli greiðslunnar til kæranda, sbr. bréf tryggingafélagsins til skattstjóra, dags. 6. og 19. nóvember 1998, er fylgdu boðunarbréfi skattstjóra, dags. 23. nóvember 1998.

Hér að framan í II. kafla er gerð grein fyrir efni fyrrnefndra bréfa X hf. til skattstjóra. Þar kemur fram að trygging kæranda hjá félaginu var sjúkra- og slysatrygging sem fól í sér rétt til dagpeninga tiltekið bótatímabil, þ.e. 92 vikur, að teknu tilliti til biðtíma sem var 12 vikur. Kemur fram að tryggingin hafði ekki að geyma bótaþátt vegna varanlegrar örorku. Tekur tryggingafélagið fram að umrædd fjárhæð 2.318.400 kr. hafi verið greidd kæranda sem dagpeningar, enda hafi hann ekki átt rétt til annars. Þá kemur fram í bréfum tryggingafélagsins að ákveðið hafi verið, á grundvelli læknisvottorðs, að greiða kæranda fjárhæðina í einu lagi, enda mætti byggja á því samkvæmt vottorðinu að kærandi yrði óvinnufær út bótatímabil tryggingarinnar. Sé þetta skýringin á eingreiðslu.

Samkvæmt framangreindum upplýsingum X hf., sem ekki þykja nein efni til að vefengja, var hin umdeilda greiðsla til kæranda 2.318.400 kr. sem fór fram 1. apríl 1996, sjúkradagpeningar samkvæmt þeirri tryggingu, sem kærandi hafði hjá félaginu, er voru greiddir kæranda í einu lagi. Þótt fyrir liggi að kærandi sé öryrki er ljóst að umrædd greiðsla samkvæmt þessari tryggingu var ekki bætur vegna varanlegrar örorku, enda átti kærandi ekki rétt á slíkum bótum á grundvelli tryggingarinnar samkvæmt upplýsingum tryggingafélagsins. Þá þykir engu breyta um eðli greiðslunnar þótt tryggingafélagið hafi afráðið að greiða fjárhæðina í einu lagi vegna bótatímabilsins og þar með að hluta til fyrirfram. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 verður að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu skattlagningar á umrædda greiðslu, enda falla sjúkradagpeningar ekki undir ákvæði 2. tölul. 28. gr. sömu laga. Tekið skal fram varðandi tekjutímabil að greiðslan þykir réttilega heimfærð undir tekjuárið 1996 með tilliti til þeirrar ákvörðunar að greiða dagpeningana að fullu á því ári, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981.

Tekið skal fram að í bréfi sínu, dags. 8. október 1998, vísaði skattstjóri til upplýsinga samkvæmt framsendum lista frá skattstjóranum í Reykjavík yfir greiðslur bóta frá tryggingafélögum. Þær upplýsingar liggja þó ekki fyrir í málinu og nánari grein hefur skattstjóri ekki gert fyrir þessum gögnum. Þá verður ekki séð að skattstjóri hafi kynnt kæranda þessi gögn, svo sem rétt hefði verið, sbr. 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Með boðunarbréfi skattstjóra, dags. 23. nóvember 1998, fylgdu hins vegar staðfestar upplýsingar frá tryggingafélaginu, þ.e. bréf þau er fyrr greinir. Þá nýtur að auki ýmissa annarra gagna í málinu um kæruefnið, sem kærandi hefur m.a. lagt fram. Að þessu virtu þykja ekki efni til að ómerkja hina kærðu breytingu skattstjóra, enda verður hvorki talið að málið hafi verið vanupplýst af skattstjóra hálfu né að andmæla- og upplýsingaréttur kæranda hafi verið fyrir borð borinn.

Að því er varðar ívilnunarþátt málsins skal tekið fram að um ívilnanir í sköttum samkvæmt ákvæðum 66. gr. og 2. mgr. 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 21. og 25. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fjalla skattstjórar og ríkisskattstjóri og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórn. Er lögfest sérstök málskotsleið í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981 á ákvörðunum skattstjóra um þessi efni til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Samkvæmt þessu falla slíkar ívilnunarbeiðnir, sem hér um ræðir, utan valdsviðs yfirskattanefndar. Ber því að vísa þessum þætti málsins frá yfirskattanefnd. Með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 12. janúar 1999, ákvarðaði skattstjóri kæranda ívilnun í skattstofnum, eins og fyrr greinir. Samkvæmt framansögðu og eins og tekið er fram í úrskurðinum er sá þáttur málsins kæranlegur til ríkisskattstjóra. Í samræmi við það og með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981 og reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, sem birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda, er kæran framsend ríkisskattstjóra til afgreiðslu að því leyti sem hún varðar ívilnun.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um niðurfellingu skattlagningar á greiðslu 2.318.400 kr. frá X hf. er synjað. Ívilnunarbeiðni kæranda er vísað frá yfirskattanefnd og framsend ríkisskattstjóra til afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja