Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 24/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Vaxtagjöld — Vaxtaafsláttur — Íbúðarlán — Íbúðarhúsnæði — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Íbúðareign — Íbúðarhúsnæði, eignarhald — Eignarhald íbúðarhúsnæðis

Málavextir eru þeir að kærandi færði sem vaxtagjöld til frádráttar 149.441 kr. vegna skulda við X-bankann, Y-bankann og Lífeyrissjóð Z, í skattframtali sínu 1988. Skattstjóri sendi kæranda bréf, dags. 27. júlí 1988, og tilkynnti honum m.a. að fyrrgreind vaxtagjöld væru ekki frádráttarbær á þeim forsendum að lánin sem þau byggðust á tengdust ekki öflun íbúðarhúsnæðis í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í kæru til skattstjóra, dags. 31. ágúst 1988, var ákvörðun hans mótmælt og þess krafist að vaxtagjöld á skattframtali 1988 yrðu látin standa óbreytt. Kærandi gerði ítarlega grein fyrir tilkomu hinna umdeildu lána en fram kom að öll tengdust þau íbúðarhúsnæði sem kærandi hafði eignast árið 1983 og selt aftur vegna fjárhagsörðugleika árið 1985. Voru lánin tryggð með veði í fasteign skyldmennis. Kærandi keypti síðan aðra íbúð 1987. Vegna þeirra lána sem um er deilt í málinu kvaðst hann ekki hafa getað nýtt sér lánsloforð Húsnæðismálastjórnar að fullu við kaupin.

Í úrskurði sem skattstjóri kvað upp í málinu, dags. 10. október 1988, ítrekaði hann að vaxtagjöld af þessum lánum uppfylltu ekki skilyrði um frádráttarbærni í skilningi skattalaga. Var kröfu kæranda synjað.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. október 1988. Er þess krafist að fallið verði frá lækkun vaxtagjalda til frádráttar af ofangreindum þrem lánum með þar tilgreindum röksemdum. Jafnframt segir í kærunni til ríkisskattanefndar:

„Núverandi húsnæði mitt að A í Reykjavík keypti ég algjörlega miðað við að geta greitt af því afborganir ásamt afborgunum af lánunum þremur frá fyrra húsnæðinu. Fyrir mér er hér um einn húsnæðispakka að ræða og vaxtagreiðslur allar hljóta því að gefa mér rétt til fulls vaxtaafsláttar vegna húsnæðiskaupa enda eignast ég í raun ekki samþykkt íbúðarhúsnæði fyrr en 1984, eins og áður greinir.

Ég fer þess á leit við Ríkisskattanefndina að fallið verði frá lækkun vaxtagjalda til frádráttar af ofangreindum þremur lánum, þ.e. frá X-bankanum, Y-bankanum og Lífeyrissjóði Z.

Ég bið ríkisskattanefndina að taka í þessu sambandi tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem ég hef greint frá hér að framan og hef ég þá sérstaklega í huga að ég eignaðist ekki samþykkt íbúðarhúsnæði fyrr en á árinu 1984 (sic), ég varð að selja það sökum greiðsluörðugleika 1985, ég gat engan veginn flutt í það, þar eð innréttingar voru ófrágengnar, ég gat ekki keypt nýtt húsnæði fyrr en með nýjum lögum frá Alþingi um húsnæðislán í maí 1987 og er því í raun tímabilið 1984-1987 leiksoppur aðstæðna, sem ég réð ekkert við. Ef ég hefði flutt beint inn í húsnæði fullbúið og samþykkt haustið 1983, selt það 1985 án ástæðu og keypt svo annað í beinu framhaldi af því myndi ég sætta mig við úrskurð Skattstjórans í Reykjavík. En það gerði ég ekki. Heldur seldi ég nauðungarsölu, beið í 1 1/2 ár og vann mig út úr verstu fjárhagskröggum og fjárfesti síðan í íbúðarhúsnæði og er fluttur inn í það núna. Ég get af þessum sökum ekki verið sáttur við lækkun vaxtagjalda til frádráttar samkv. áðurnefndum úrskurði Skattstjórans í Reykjavík.“

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 9. nóvember 1989, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Lán þau og vaxtagjöld er í málinu greinir eru vegna húsnæðis sem kærandi keypti árið 1983 og seldi árið 1985. Af þessum sökum er ekki unnt að fallast á að um sé að ræða vaxtagjöld til frádráttar í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30 gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Því þykir verða að synja kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja