Úrskurður yfirskattanefndar

  • Atvinnurekstur
  • Reiknað endurgjald

Úrskurður nr. 574/1999

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr. og B-liður, 30. gr. 2. mgr. (brl. nr. 8/1984, 4. gr. D-liður), 53. gr., 59. gr. 1. mgr.  

Fallist var á með skattstjóra að líta bæri á kaup og endurbætur kærenda (hjóna) á íbúðarhúsi sem þátt í sjálfstæðri starfsemi eiginmannsins við húsasmíði. Var í því sambandi litið til starfa og menntunar hans, skamms eignarhaldstíma á húsinu, umtalsverðra endurbóta á því og lítilla umsvifa kæranda við rekstur hans að öðru leyti. Jafnframt var ákvörðun skattstjóra um reiknað endurgjald vegna eigin vinnu kærenda við endurbæturnar látin standa óhögguð.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1997 og sættu þau því áætlun opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda barst skattstjóra með bréfi umboðsmanns þeirra, dags. 13. ágúst 1997, og var farið fram á að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1997 í stað áætlunar. Skattframtalinu fylgdi rekstrarreikningur vegna eigin starfsemi kæranda, A, við húsasmíðar á árinu 1996. Þá fylgdu með framtalinu tvær húsbyggingarskýrslur annars vegar vegna Z-götu í Reykjavík og hins vegar vegna X-götu í Kópavogi.

Með bréfi, dags. 4. desember 1997, fór skattstjóri þess á leit við kærendur að þau gæfu tilteknar skýringar á skattframtali 1997 áður en kæra þeirra yrði tekin til afgreiðslu. Skattstjóri vísaði til þess að samkvæmt því sem fram hefði komið á skattframtali kærenda árið 1996 hefðu þau keypt fasteignina X-götu í smíðum árið 1995 og selt hana aftur í febrúar 1997 samkvæmt upplýsingum úr skrám Fasteignamats ríkisins. Samkvæmt húsbyggingarskýrslu hefðu þau unnið við byggingu X-götu, en ljóst væri að þau hefðu ekki keypt eignina til eigin nota. Með hliðsjón af því að sjálfstæð starfsemi kæranda, A, væri byggingarstarfsemi, og með hliðsjón af byggingu kærenda á íbúðarhúsnæði við Z-götu, skoraði skattstjóri á kærendur að leggja fram rekstrar- og efnahagsreikning, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, vegna tekjuársins 1996 þar sem grein yrði gerð fyrir útgjöldum og vinnuframlagi vegna umræddrar byggingarstarfsemi, þar sem telja yrði að um hefði verið að ræða atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Benti skattstjóri á að hafa yrði í huga við ákvörðun á reiknuðu endurgjaldi að kærendur hefðu ekki keypt að vinnu vegna byggingaframkvæmdanna og yrði því að gera ráð fyrir að vinnuframlag kæranda, A, hefði verið umtalsvert.

Af hálfu kærenda var því mótmælt í bréfi umboðsmanns þeirra, dags. 15. desember 1997, að kaup á X-götu hefðu verið liður í atvinnurekstri þeirra og á það bent að tilgangur með kaupunum hefði verið sá að leigja út íbúðir. Um hefði verið að ræða gamalt hús sem þarfnast hefði nokkurs viðhalds, en þegar upp hefði verið staðið hefði viðhaldið orðið mun umfangsmeira, dýrara og tímafrekara, en þau hefðu gert ráð fyrir í upphafi. Benti umboðsmaður kærenda á að ef þau hefðu litið á kaup á húsnæðinu sem atvinnurekstur hefðu þau væntanlega lagt alla áherslu á að klára verkið sem fyrst til að binda ekki fjármuni sína í óarðbæru verkefni í nær tvö ár. Eignina hefðu þau keypt á árinu 1995 og hefðu framkvæmdir staðið yfir á því ári og allt árið 1996, en þær hefðu tekið svo langan tíma einmitt vegna þess að um aukavinnu við eigin íbúð utan venjulegs vinnutíma hefði verið að ræða. Þar sem tilgangur kærenda með kaupunum hefði verið sá að leigja eignina út teldist ekki um atvinnurekstur að ræða, sbr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og því bæri kærendum ekki að skila ársreikningi. Benti umboðsmaður kærenda á að flestar þær upplýsingar sem koma ættu fram í rekstrar- og efnahagsreikningum kæmu fram á framlagðri húsbyggingarskýrslu vegna X-götu. Þó vantaði þar upplýsingar um vexti, fasteignagjöld og fleiri slíka gjaldaliði, sem ekki tengdust framkvæmdunum beint. Vinnuframlag kæranda, A, kæmi skýrt fram á húsbyggingarskýrslu og teldist það umtalsvert, eða 160 klukkustundir. Kærendum væri óheimilt að reikna sér laun vegna útleigu á íbúðarhúsnæði nema umfangið væri svo mikið að það teldist til atvinnurekstrar. Jafnvel þótt litið yrði svo á að um útleigu hefði verið að ræða hefði þeim ekki verið skylt að reikna sér endurgjald samkvæmt 59. gr. laga nr. 75/1981, þar sem engar leigutekjur hefðu verið af húsnæðinu á árinu. Þá benti umboðsmaður kærenda á að samkvæmt húsbyggingarskýrslu væri gert ráð fyrir að iðnaðarmenn gætu unnið í iðngrein sinni við íbúðarhúsnæði sitt. Ekkert væri óeðlilegt við að smiður keypti gamalt íbúðarhús og gerði við það í frítíma sínum, hvort heldur húsnæðið væri ætlað til útleigu eða til eigin nota. Engin lagaheimild væri til staðar til að láta smiði sæta annarri skattalegri meðferð en aðra laghenta menn sem gerðu slíkt hið sama. Það væri svo annað mál að hefði fasteignin verið keypt í þeim eina tilgangi að endurbæta hana og selja aftur með hagnaði þá yrði að telja að um atvinnurekstur hefði verið að ræða sem fara bæri með eins og skattstjóri teldi, en það ætti ekki við í tilviki kærenda. Ástæða þess að kærendur hefðu selt fasteignina í febrúar 1997 hefði verið sú að eignin hefði orðið miklu dýrari en ráð hefði verið fyrir gert og skuldir verið orðnar óviðráðanlegar. Að lokum tók umboðsmaður kærenda fram að trúlega hefði orðið hagkvæmara fyrir kærendur að litið yrði á kaup þeirra á fasteigninni sem atvinnurekstur því þá þyrftu þau ekki að reikna sér laun við rekstur þess á árunum 1995 og 1996, og þau hefðu þá fengið vaxtagjöld, fasteignagjöld og fleiri kostnaðarliði viðurkennda sem gjöld. Hins vegar hefðu kærendur litið svo á að ekki hefði verið um val að ræða heldur hefði þeim samkvæmt 30. gr. laga nr. 75/1981 verið óheimilt að telja framangreind útgjöld til gjalda samkvæmt 31. gr. laganna.

Með kæruúrskurði, dags. 11. mars 1998, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997, án álags, að gerðum þeim breytingum að til eignar í efnahagsreikningi færðist byggingarkostnaður X-götu samtals 10.269.178 kr., þ.e. 7.141.915 kr. vegna ársins 1995 og 2.599.936 kr. vegna ársins 1996 og 549.150 kr. vegna reiknaðs endurgjalds kærenda og tryggingagjalds að frádregnum 21.823 kr. vegna verðbreytingafærslu, sbr. 53. gr. laga nr. 75/1981. Til skuldar á efnahagsreikningi færðust 8.803.968 kr. Benti skattstjóri á að engar upplýsingar væru fyrirliggjandi um vaxtagjöld, fasteignagjöld og önnur gjöld, sem umboðsmaður kærenda hefði bent á í bréfi sínu, og væri því ekki unnt að taka tillit til þeirra. Jafnframt benti skattstjóri á að kærandi, A, hefði ekki gert frekari grein fyrir vinnuframlagi sínu við endurbætur þrátt fyrir ábendingu frá skattstjóra í bréfi, dags. 4. desember 1997. Með hliðsjón af umfangi endurbótanna yrði að telja að vinnuframlag kæranda, A, hefði verið umtalsvert og þætti reiknað endurgjald hans hæfilega ákvarðað 500.000 kr. vegna starfa hans við endurbætur á X-götu, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 59. gr. laga nr. 75/1981. Skattskyld vinna kæranda, B, yrði óbreytt 13.560 kr., en þær tekjur væru að fullu skattskyldar samkvæmt 7. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum, sbr. 3. gr. laga nr. 53/1993, um ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota, væri tryggingagjald 6,93% af reiknuðu endurgjaldi, sbr. 1. gr. laga nr. 113/1990. Tryggingagjaldstofn ársins yrði 513.560 kr. og tryggingagjald 35.590 kr. Eignir umfram skuldir yrðu 1.465.210 kr.

Framangreinda ákvörðun byggði skattstjóri á því að ljóst væri að endurbætur kærenda á X-götu féllu undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi þeirra. Kærendur hefðu flutt í núverandi íbúðarhúsnæði sitt í apríl 1995 en keypt X-götu í ágúst 1995. Að mati skattstjóra hefði kærendum ekki tekist að sýna fram á að tilgangur með kaupum á X-götu hefði verið sá að leigja út íbúðir. Í fyrsta lagi væru skýringar kærenda órökstuddar og í öðru lagi yrði ekki séð að þau hefðu haft fjárhagslega burði til að standa fyrir þeirri langtímafjárfestingu sem slík útleiga hefði í för með sér og þeirri óvissu og áhættu sem fylgdi útleigu. Í þriðja lagi benti sá dráttur sem orðið hefði á því að setja eignina í útleigu ótvírætt til þess að tilgangur með kaupunum hefði verið annar. Í fjórða og síðasta lagi yrði að líta til þess að kærandi, A, hefði atvinnu af húsbyggingum og viðhaldi húseigna og því þættu skýringar kærenda um að húsið hefði þarfnast meira viðhalds en ráð var fyrir gert ófullnægjandi vegna sérþekkingar hans. Af skýringum kærenda yrði ráðið að þau hefðu ekki keypt húsnæðið til eigin nota og væri því vinna þeirra við endurbætur þess að fullu skattskyld, en samkvæmt ákvæðum 4. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teldist eignaauki sem stafar af aukavinnu sem menn legðu fram utan venjulegs vinnutíma við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota, ekki til tekna. Með því að húsnæðið hefði ekki verið ætlað til eigin nota teldist vinna kærenda við endurbætur á því skattskyld samkvæmt ákvæðum 7. gr. framangreindra laga. Skattstjóri féllst ekki á það sjónarmið kærenda að þeim hefði ekki verið skylt að reikna sér endurgjald vegna starfa við húsbyggingar þar sem ekki hefði verið um tekjuöflun að ræða og benti á að endurgjald vegna vinnu væri hluti af þeim kostnaði sem bæri að eignfæra uns viðkomandi eign væri seld og kæmi þá fyrst til gjalda í rekstrarreikningi á söluári.

Skattstjóri benti á að samkvæmt húsbyggingarskýrslu hefðu kærendur keypt byggingarefni fyrir 2.190.280 kr. og annar ótiltekinn byggingarkostnaður hefði numið 347.056 kr. og væri því ljóst að umtalsverðar endurbætur hefðu verið gerðar á X-götu. Aðkeypt vinna hefði einungis numið 57.600 kr. vegna teikninga og 5.000 kr. vegna gröfuvinnu. Viðhaldsvinna hefði því sem næst öll verið unnin af kærendum sjálfum. Kærandi, A, hefði haft 350.000 kr. í laun frá hlutafélagi sem hann væri eigandi að, 66.619 kr. sem launþegi og reiknað endurgjald vegna starfa hans við eigin atvinnurekstur hefði numið 200.000 kr. og væri því ljóst að hann hefði ekki unnið fullan vinnudag við eiginleg störf sín á árinu 1996. Hann hefði starfað sjálfstætt sem smiður við húsasmíðar og tilgangur með hlutafélagi hans væri almenn byggingarstarfsemi og viðhald fasteigna. Með hliðsjón af því og með því að útlagður kostnaður vegna endurbóta á X-götu hefði numið 4.273.372 (sic) kr. á árunum 1995 og 1996 þætti ekki sennilegt að tilgangur með kaupum á eigninni hefði verið sá að leigja hana út. Með hliðsjón af vinnuframlagi kæranda, A, og reiknuðu endurgjaldi hans á árunum 1995 og 1996 teldi skattstjóri því ljóst að líta yrði svo á að tilgangur og markmið með kaupunum hefði verið sá að selja eignina að gerðum nauðsynlegum breytingum með hagnaðarsjónarmið í huga og teldist því hluti af atvinnurekstri hans.

II.

Með kæru, dags. 8. apríl 1998, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 11. mars 1998, til yfirskattanefndar. Er gerð sú krafa að allar breytingar skattstjóra á skattframtali kærenda verði felldar úr gildi en þess í stað verði tekjuskattsstofn kæranda, A, hækkaður um 53.400 kr. og kæranda, B, um 13.560 kr. eða sem nemur eigin vinnu þeirra við íbúðarhúsnæðið að X-götu. Fallist yfirskattanefnd hins vegar á það með skattstjóra að um atvinnurekstur í hendi kærenda hafi verið að ræða er þess krafist til vara að vinna þeirra við íbúðarhúsið verði skattlögð samkvæmt reglum ríkisskattstjóra sem birtar eru á bakhlið húsbyggingarskýrslu (RSK 3.03), þar sem skýrt kemur fram að reglurnar gilda einnig um atvinnurekstrarhúsnæði. Fallist yfirskattanefnd á varakröfu kærenda er þess jafnframt krafist að leiðrétt verði meint mistök skattstjóra við útleiðslu skattstofna þeirra. Í kærunni mótmælir umboðsmaður kærenda því sjónarmiði skattstjóra að kærendum beri að sýna fram á að þau hafi keypt umrædda fasteign í því skyni að leigja hana út og bendir á að samkvæmt meginreglum skattalaga þurfi skattþegnar að sanna gjöld sín en skattstjóri þurfi hins vegar að sanna tekjur. Áréttar umboðsmaður kærenda að tilgangur þeirra með kaupum á X-götu hefði verið sá að leigja eignina út. Ljóst hafi verið að eignin þarfnaðist nokkurs viðhalds og hafi þau sjálf unnið að því, en samanlagður vinnutími þeirra hafi verið 160 klukkustundir á árinu 1996. Þegar upp hafi verið staðið hafi viðhaldið hins vegar verið mun umfangsmeira, dýrara og tímafrekara en ráð var fyrir gert. Mótmælir umboðsmaður kærenda því sjónarmiði skattstjóra að vinnan hafi verið umfangsmeiri en kærendur hafi gefið upp og bendir á að vinna þeirra svari til mánaðarvinnu í dagvinnu. Auk þess verði að hafa í huga að kærandi, A, sé iðnaðarmaður og kunni því að vinna slíka vinnu á hagstæðan og fljótlegan hátt. Sú staðreynd að framkvæmdum hafi ekki verið lokið í lok árs 1996 sýni ennfremur að önnur vinna hafi verið látin hafa forgang fyrir þessari vinnu og einnig að vinnan hafi ekki verið unnin í því harða hagnaðarskyni sem skattstjóri ætlar. Þá mótmælir umboðsmaðurinn því sjónarmiði skattstjóra að kærendur hafi ekki haft þá fjárhagslegu burði til að standa undir þessari fjárfestingu og telur að það hafi ekki þýðingu í málinu og segi ekkert um tilgang kærenda með kaupunum. Kostnaðarverð umræddrar eignar hafi einungis verið tíu milljónir í árslok 1996 og því hafi alls ekki verið fráleitt að ætla að leigutekjur gætu staðið undir öllum kostnaði og rúmlega það. Eins og fjármögnun framkvæmdanna hafi verið háttað undir lokin hafi kærendum þó orðið ljóst að leiga stæði ekki undir svo þungri greiðslubyrði vegna hækkunar á kostnaði og seinkunar á framkvæmdum. Kærendur hafi því selt eignina í febrúar 1997. Umboðsmaður kærenda hafnar því sjónarmiði skattstjóra að dráttur á því að setja eignina í leigu bendi til þess að upphaflegur tilgangur með kaupunum hafi ekki verið að setja húseignina í útleigu. Bendir hann á að skattstjóri hafi litið framhjá þeirri staðreynd að framkvæmdum hafi seinkað og því hafi ekki verið gerlegt að leigja eignina. Þá hafnar hann þeirri ályktun skattstjóra að fagþekking kæranda, A, hafi átt að koma í veg fyrir vanmat á viðhaldsþörf húsnæðisins, enda geti það hent alla að gera mistök þótt um sérsvið viðkomandi sé að ræða.

Loks mótmælir umboðsmaðurinn þeirri ákvörðun skattstjóra að reikna kærendum endurgjald og bendir á að sú ákvörðun standist ekki samkvæmt 59. gr. laga nr. 75/1981, enda yrði þá ákvæðið um að ekki megi mynda tap markleysa ein. Kærendur geri hins vegar ekki ágreining um eignaauka vegna vinnu þeirra við umrætt húsnæði. Ríkisskattstjóri hafi gefið út reglur um hvernig fara skuli með eignaauka vegna vinnu við húsnæði. Hafi hann ákveðið tímataxta annars vegar vegna vinnu faglærðra manna og hins vegar ófaglærðra. Reglur þessar séu mjög skýrar og birtar á bakhlið húsbyggingarskýrslu þar sem einnig komi skýrt fram að reglurnar gilda einnig um atvinnurekstrarhúsnæði. Skattstjóri hafi hins vegar ekki farið eftir þessum reglum, en samkvæmt þeim hafi skattskyld vinna kæranda, A, numið 53.400 kr. á árinu 1996, og vinna kæranda, B, 13.560 kr.

III.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Svo sem fram hefur komið í máli þessu var kærandi, A, með sjálfstæða starfsemi sem húsasmiður á þeim tíma sem um ræðir í málinu. Samkvæmt skýrslu um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) er fylgdi skattframtali kærenda árið 1996 keyptu þau einbýlishúsið að X-götu í Kópavogi í ágúst 1995 og er ágreiningslaust í málinu að þau keyptu húsnæðið ekki til eigin nota. Kaupverð eignarinnar nam 6.800.000 kr. Samkvæmt skýrslu um kaup og sölu eigna er fylgdi skattframtali kærenda 1998 seldu þau umrædda fasteign 17. febrúar 1997. Nam söluverð eignarinnar 11.800.000 kr. Fram kemur í húsbyggingarskýrslum vegna X-götu sem fylgdu skattframtölum kærenda árin 1996 og 1997 að kostnaður þeirra vegna endurbóta á eigninni nam 341.915 kr. á árinu 1995 og 2.666.896 kr. á árinu 1996 að meðtalinni eigin vinnu þeirra.

Kærendur hafa gefið þá skýringu á kaupum á umræddu húsnæði að þau hafi keypt það í því skyni að leigja það út og því hafi ekki verið um atvinnustarfsemi að ræða. Vísa kærendur í því sambandi til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri féllst ekki á sjónarmið kærenda og taldi að tilgangur þeirra hafi verið sá að gera húsnæðið upp í því skyni að selja það með hagnaði og hafi það verið liður í atvinnustarfsemi kæranda, A. Taldi skattstjóri að kærendur hefðu ekki sýnt fram á að tilgangur með kaupunum hafi verið sá að leigja húsnæðið út og vísaði til þess í fyrsta lagi að kærendur hefðu ekki haft fjárhagslega burði til að standa fyrir þeirri fjárfestingu sem af kaupum og leigu á eigninni leiddi. Þá benti sá dráttur sem orðið hafi á því að setja eignina í útleigu til þess að tilgangurinn hafi verið annar og loks skírskotaði skattstjóri til þess að kærandi, A, hafi haft atvinnu af húsbyggingum og viðhaldi húseigna. Fallast ber á það með skattstjóra að af hálfu kærenda hafi ekki verið sýnt fram á að kaup á umræddu einbýlishúsi hafi verið gerð í því skyni að leigja húsið út. Þegar litið er til starfa og menntunar kæranda, A, skamms eignarhaldstíma á húsinu, umtalsverðra endurbóta á því og lítilla umsvifa kæranda, A, við rekstur hans að öðru leyti, þykir ekki varhugavert að telja að kaupin hafi verið gerð í því skyni að endurbæta húsið og selja aftur með hagnaði. Með hliðsjón af framangreindu og því sem fram hefur komið í málinu þykir verða að fallast á það með skattstjóra að líta beri á kaup kærenda á X-götu sem þátt í sjálfstæðri starfsemi kæranda, A. Aðalkröfu kærenda er því hafnað.

Af hálfu kærenda eru gerðar þær varakröfur að vinna kærenda við X-götu verði skattlögð í samræmi við þær reglur ríkisskattstjóra sem birtar séu á bakhlið húsbyggingarskýrslu RSK 3.03, og að meint mistök skattstjóra við útleiðslu skattstofna verði leiðrétt. Jafnframt kemur fram að ekki verði séð að það standist hjá skattstjóra að reikna kærendum endurgjald vegna umræddrar vinnu enda myndist þá tap af rekstri en slíkt sé óheimilt samkvæmt 59. gr. laga nr. 75/1981.

Víkur fyrst að því hvort skattstjóra hafi yfir höfuð verið óheimilt að ákvarða kærendum reiknað endurgjald vegna vinnu við endurnýjun X-götu vegna ákvæða lokamálsliðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981. Reiknað endurgjald kæranda A vegna húsasmíði nam samkvæmt skattframtali hans 200.000 kr. Að fenginni þeirri niðurstöðu að endurnýjun X-götu hafi verið liður í sjálfstæðri starfsemi kæranda, A, hækkaði skattstjóri reiknað endurgjald hans í 700.000 kr. og færði kæranda, B, til tekna sem reiknað endurgjald 13.560 kr. Byggði skattstjóri niðurstöðu sína m.a. á því að ekki yrði annað ráðið en að um verulega eigin vinnu hefði verið að ræða vegna X-götu. Jafnframt hækkaði skattstjóri byggingarkostnað sem nam 549.150 kr. vegna reiknaðs endurgjalds og tryggingargjalds og færði til eignar í efnahagsreikningi. Svo hefur verið litið á að skattaðilar, sem stunda sams konar atvinnurekstur og kærandi, geti valið á milli tveggja aðferða við uppgjör tekna af óloknum verkum. Annars vegar að færa árlega til tekna reiknaðan ágóða af húsbyggingarframkvæmdum með hliðsjón af væntanlegum hagnaði af sölu húseignanna. Hins vegar að eignfæra áfallinn kostnað og skuldfæra innborganir vegna framkvæmdanna á byggingartíma, ef um slíkt er að ræða, og færa síðan til gjalda og tekna við verklok eða sölu eigna. Í tilviki kæranda var endurnýjun X-götu ólokið í árslok 1996 og sala hafði ekki farið fram. Samkvæmt því var rétt af skattstjóra að eignfæra byggingarkostnað vegna verksins. Eigin vinnu vegna verksins bar kæranda að færa til tekna og eignar samkvæmt þessu og reiknað endurgjald sitt til gjalda. Þótt úrskurður skattstjóra sé ekki svo skýr sem skyldi varðandi þessi atriði verður ekki annað séð en að niðurstaða hans sé í samræmi við þetta. Verður því ekki fallist á að lokamálsliður 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 hafi girt fyrir ákvörðun skattstjóra um reiknað endurgjald kæranda, og er kröfum þar að lútandi því hafnað.

Skilja verður kröfugerð umboðsmanns kærenda svo að hann krefjist þess að reiknað endurgjald kærenda vegna eigin vinnu verði ákvarðað með þeim viðmiðunum sem fram koma á bakhlið húsbyggingarskýrslu RSK 3.03. Á eyðublaðinu kemur fram að eigin vinnu við atvinnurekstrarhúsnæði skuli tilgreina í viðeigandi reit á eyðublaðinu og telja til tekna í rekstrarreikningi. Þá kemur fram sú krónutala sem miða beri við á hverja klukkustund í þessu sambandi. Er hér samkvæmt orðanna hljóðan um að ræða viðmiðanir við mat á eigin vinnu við húsnæði sem ætlað er til notkunar í viðkomandi rekstri en á ekki við þær aðstæður sem uppi eru í máli kæranda. Er kröfum þar að lútandi því hafnað. Þá verður að skilja kröfugerð umboðsmannsins á þann veg að hann telji að eigin vinna kærenda hafi einungis verið sem nam samtals 160 klukkustundum og við það beri að miða við ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda. Í þessu sambandi er til þess að líta að í bréfi, dags. 4. desember 1997, skoraði skattstjóri á kærendur að gera grein fyrir vinnuframlagi þeirra vegna vinnu við endurbætur á X-götu. Kærendur hafa ekki sinnt þeirri áskorun skattstjóra. Með hliðsjón af þeim umfangsmiklu endurbótum á húsnæðinu sem ráða má af framangreindum húsbyggingarskýrslum kærenda þykir það vinnuframlag sem þar er greint ekki fá staðist. Kröfu um lækkun reiknaðs endurgjalds er því hafnað, enda hefur ekkert fram komið af kærenda hálfu sem þykir eiga að leiða til annarrar niðurstöðu.

Umboðsmaður kærenda hefur einnig gert athugasemd varðandi útreikning skattstjóra á verðbreytingarfærslu að fjárhæð 21.823 kr. til tekna. Ekki verður ráðið af úrskurði skattstjóra á hvaða forsendum verðbreytingarfærsla þessi var ákveðin, en tekið skal fram að engar breytingar voru gerðar varðandi meðferð X-götu í skattframtali kærenda gjaldárið 1996. Að þessu virtu er ákvörðun um verðbreytingarfærslu þessa felld úr gildi. Eignfærður byggingarkostnaður hækkar um 21.823 kr. af þessum sökum. Þá hækka skuldir samkvæmt reit 168 í skattframtali um samtals 2.805.493 kr. vegna skulda við Íslandsbanka.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákvörðun um verðbreytingarfærslu að fjárhæð 21.823 kr. er felld úr gildi. Eignir samkvæmt efnahagsreikningi hækka samsvarandi. Skuldir samkvæmt reit 168 í skattframtali verða 2.805.493 kr. Öðrum kröfum kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja