Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 188/1989
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl. — 100. gr. 1. mgr.
Starfslok — Starfslokafrádráttur — Tekjutímabil — Frádráttarheimild — Kæranleg skattákvörðun — Kröfugerð
Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reit 36 í skattframtali sínu árið 1987 frádrátt samkvæmt 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. Frádráttarfjárhæð nam 1.043.098 kr. Umræddur frádráttur var tekjur kæranda samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 fyrir tímabilið 1. janúar 1986 til 31. desember 1986. Var byggt á frádrætti þessum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987.
Með bréfi, dags. 13. maí 1988 tilkynngi skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að fella fyrrnefndan frádráttarlið niður og endurákvarða áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1987 í samræmi við þá breytingu, þar sem ekki yrði séð af framtalsgögnum gjaldárið 1988, að kærandi hefði látið af störfum vegna aldurs á árinu 1986. Gefinn var 10 daga frestur til andsvara. Í bréfi vinnuveitanda kæranda, X., til skattstjóra, dags. 19. maí 1988, kom fram, að með bréfi, dags. 7. nóvember 1985, hefði A. veitt kæranda leyfi á fullum launum til 1. september 1987 frá starfi forstöðumanns D.X. til þess að ritstýra útgáfu ritsins „B“. Fylgdi ljósrit af nefndu bréfi A. Þá kom fram, að í ársbyrjun 1987 hefði verkið verið vel á veg komið og fyrirhugað, að því lyki á fyrsta fjórðungi þess árs. Hefði þá talast svo til milli kæranda og C, að kærandi myndi láta af störfum vegna aldurs við þessi verklok, ef ekkert kæmi upp á. Í marsbyrjun 1987 hefði sú hugmynd komið upp að halda hátíðlegt, að 50 ár voru liðin frá byrjun skipulegra með ráðstefnu, er bæri heitið „B.“. Ákveðið hefði verið, að slík ráðstefna yrði haldin í október 1987 og hefði það verið gert. Þessi ákvörðun hefði breytt áformum kæranda töluvert, því að hann hefði þurft að aðlaga skrif sín að því, sem fjallað hefði verið um á ráðstefnunni. Því hefðu starfslok hans dregist sífellt lengra fram á árið 1987. Þar að auki hefði hann veikst og verið frá vinnu frá miðjum nóvember og út árið. Heildarlaun kæranda árið 1987 hefðu verið 1.708.340 kr.
Með bréfi, dags. 6. júní 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hinni boðuðu breytingu væri hrundið í framkvæmd, en eftir atvikum væri álagi skv. 106. gr. laga nr. 75/1981 ekki beitt. Með skattbreytingaseðli tilkynnti skattstjóri kæranda um þá hækkun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1987, sem leiddi af þessari breytingu.
Breytingu skattstjóra var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda í kæru, dags. 5. júlí 1988. Umboðsmaðurinn rökstuddi kröfu sína svo, að kærandi hefði undir lok ársins 1985 hætt starfi sínu sem forstöðumaður D., þar sem hann hefði starfað um áraraðir. Við þetta tímamark hefði hann hætt eiginlegu starfi sínu, en jafnframt fengið sérverkefni við ritstjórn ritsins „B." samkvæmt sérstöku samkomulagi við A. Því verki hefði átt að ljúka að mestu fyrir lok ársins 1986, en það hefði dregist á langinn og ekki lokið, fyrr en seint á árinu 1987. Þá færði umboðsmaðurinn fram máli sínu til stuðnings, að kærandi hefði leitað aðstoðar starfsmanna skattstofunnar í Reykjavík við framtalsgerð fyrir árið 1986. Honum hefði verið ráðlagt að sækja um starfslokafrádrátt. Kærandi hefði því verið í góðri trú um að erindi hans um starfslokafrádráttinn yrði vel tekið, enda hefði komið á daginn, að frádrátturinn hefði verið viðurkenndur að fullu við álagningu. Því hefði tilkynning um niðurfellingu frádráttarins komið mjög á óvart og þar með ráðleggingar starfsmanna skattstofunnar að engu hafðar. Krafðist umboðsmaðurinn þess, að upphafleg álagning gjaldárið 1986 stæði óbreytt.
Með kæruúrskurði, dags. 31. október 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Segir svo í úrskurðinum:
„Í 9. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sbr. lög nr. 8/1984 er heimild til frádráttar á nánar tilgreindum tekjum, „sem maður hefur aflað á síðustu tólf starfsmánuðum sínum áður en hann lætur af störfum vegna aldurs“. í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 8/1984 segir:
„Með frumvarpi þessu er lagt til að menn sem láta af störfum fyrir aldurs sakir geti dregið að fullu frá skattskyldum tekjum sínum hreinar launatekjur sínar síðustu tólf starfsmánuðina. Það greiðslukerfi beinna skatta sem ríkir hér á landi skapar mönnum ætíð erfiðleika þegar tekjur minnka snögglega enda eru skattar greiddir ári eftir að þeirra tekna var aflað sem skattlagðar eru“.
Tilgangurinn með setningu umrædds lagaákvæðis var því að gera mönnum kleift að láta af störfum sínum þegar þeir kysu — eftir að 55 ára aldri var náð.
Kærandi dró frá tekjum sínum á skattframtali 1987 tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, er hann hafði aflað á tímabilinu 01.01 — 31.12. 1986, og byggði frádrátt þennan á 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga. Skv. gögnum málsins var hér eigi um að ræða tekjur er kærandi aflaði á síðustu tólf starfsmánuðum sínum, áður en hann lét af störfum vegna aldurs og er það viðurkennt af kæranda hálfu. í athugasemdadálki framtals 1988 kemur fram að kærandi lét af störfum hjá X. um áramótin 1987/1988. Við álagningu 1988 fékk kærandi frádrátt skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 vegna tekna á árinu 1987. Samkvæmt framansögðu er kærunni synjað.
Varðandi lið 2. í kærubréfi skal tekið fram að í yfirlýsingu og greinargerð vegna frádráttar skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sem fylgdi framtali kæranda 1987 staðhæfði kærandi að hann hafi látið af störfum þann 31.12.1986. Við álagningu opinberra gjalda 1987 lágu því ekki fyrir upplýsingar um áframhaldandi starf kæranda, og var honum því heimilaður umræddur frádráttur vegna starfsloka. Frádráttur þessi hefur nú verið felldur niður.“
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. nóvember 1988. Krefst umboðsmaður kæranda þess í kærunni, að hinn tilfærði starfslokafrádráttur verði látinn óbreyttur standa svo og upphafleg álagning á kæranda. ítrekar umboðsmaðurinn það sjónarmið sitt, að eiginleg starfslok hafi farið fram í árslok 1985. Hann ítrekar þau rök og málsástæður, sem fram voru færðar í kæru til skattstjóra, dags. 5. júlí 1988.
Með kæru, dags. 13. janúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum, er manni heimilt að draga frá tekjum utan atvinnurekstrar tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 með tilgreindum liðum til frádráttar, sem hann hefur aflað á síðustu tólf starfsmánuðum sínum, áður en hann lætur af störfum vegna aldurs. Nánari skilyrði eru greind fyrir frádrætti þessum í lagaákvæðinu. Kærandi færði umræddan frádrátt í skattframtal sitt árið 1987 og var um að ræða tekjur tekjuársins 1986. Af hálfu kæranda er einkum á því byggt, að eiginleg starfslok hafi verið í árslok 1985. Af hálfu umboðsmanns kæranda er þess og reyndar krafist bæði í kærunni til skattstjóra og ríkisskattanefndar, að álagning gjaldárið 1986 verði látin óhreyfð standa. Engin kæranlegur úrskurður liggur fyrir varðandi það gjaldár, enda enginn starfslokafrádráttur færður í framtali árið 1986, sem þó hefði verið í samræmi við málatilbúnað kæranda í þessu máli. Verður eigi annað séð en kæran sé á misskilningi byggð. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kærunni frá.