Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 199/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 2. tl. — 91. gr. 1. og 3. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Hlutafélag — Stofnun hlutafélags — Skattskylda — Upphaf skattskyldu — Skattskylda, upphaf — Framtalsskylda — Stofndagur — Félagssamþykktir — Stofnsamningur — Áætlun

Málavextir eru þeir, að tilkynnt var um stofnun kæranda, sem er hlutafélag, með tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 2. desember 1987. Fram kom í tilkynningunni, að dagsetning samþykkta kæranda, væri 2. desember 1987. Skattframtal árið 1988 barst ekki frá kæranda. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 áætlaði skattstjóri kæranda skattstofna til álagningar opinberra gjalda að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 22. ágúst 1988, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni með þeim rökum, að hlutafélagið hefði verið stofnað um áramótin 1987/1988 og starfsemi þess hafist 1. janúar 1988. Því hefði ekki verið nauðsynlegt að skila skattframtali fyrir árið 1987.

Með kæruúrskurði, dags. 8. nóvember 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá sem vanreifaðri. Tilkynning um stofnun hlutafélagsins væri dagsett 2. desember 1987 og þar kæmi fram, að hlutaféð væri að fullu greitt. Engin gögn hefðu borist, er sýndu, að starfsemi félagsins hefði hafist síðar. Telja yrði, að hlutafélagið gæti ekki öðlast skattaðild síðar en þann dag, sem samþykktir væru dagsettar. Skv. 1. tl. 2. gr. og 1. og 3. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bæri að senda skattstjóra skattframtal ásamt rekstrar- og efnahagsreikningi um tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. desember 1988. Í kærunni segir:

„Upphaf þessa máls er það að hlutafélagið X. hf. var stofnað skv. samþykktum félagsins 02.12.1987 en hóf starfsemi með bátakaupum 01.01.1988. Ástæður þess að félagið var stofnað eins og áður segir í des. 1987 eru þær að nafnnúmer og kennitölu þurfti að fá í tíma svo að bátakaup þessi gætu farið fram á eðlilegan hátt. Taldi undirritaður sig einungis vera að gera rétt með því að hafa félagið rétt og löglega skráð áður en að regluleg starfsemi hófst og fór endanleg skráning fram hjá hlutafélagaskrá um miðjan desember.

Hlutafé félagsins hafði verið lagt fram eins og segir í samþykktum en hlutafé er ekki eignarskattskylt hjá félaginu og telur undirritaður því öll rök fyrir því að fella niður áætlun Skattstofu Vesturlands á opinberum gjöldum. í rökum skattstofu er þess getið að fyrirtæki geti ekki öðlast skattaðild né skattskyldu síðar en þann dag sem samþykktir eru dagsettar.

Til skattskyldu hlýtur að þurfa að hefjast einhver starfsemi. Eins og áður segir var þetta svona við haft einungis til þess að hafa hlutina löglega og rétta áður en að starfsemi hæfist því all nokkurn tíma tekur alltaf að fá slíkt félag skráð bæði hjá hlutafélagaskrá og Hagstofu Íslands.“

Með bréfi, dags. 16. febrúar 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Óumdeilt er í máli þessu, að hlutafélagið X., kærandi í máli þessu, hafi verið stofnaður 2. desember 1987. Við það tímamark miðast upphaf skattskyldu þess. Kærandi hefur eigi gegnt framtalsskyldu sinni. Að virtum öllum málavöxtum og skýringum kæranda, sem út af fyrir sig hefur eigi verið andæpt, þykja þó eigi efni til þess að gera kæranda að greiða hin kærðu gjöld.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja