Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 202/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 1., 2., 3. og 5. mgr.  

Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Yfirfærðar launatekjur — Launatekjur, yfirfærðar — Reiknað endurgjald — Uppgjörsaðferð, breyting — Teknaviðmiðun — Eignaraðild — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Sönnun

Málavextir eru þeir, að skv. kaupuppgjöf námu launatekjur kæranda frá X. h.f. 1.200.000 kr. vegna ársvinnu. í bréfi, dags. 26. maí 1988, vísaði skattstjóri til þess, að skv. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, bæri að leggja á menn og innheimta tekjuskatt og útsvar vegna launa tekjuársins 1987 hefðu launin verið yfirfærð á það ár vegna breytinga á uppgjörsaðferð eða viðmiðun teknanna eða á annan hátt. Skv. skattframtölum kæranda árin 1987 og 1988 virtust 250.000 kr. af launum hans hjá X. h.f. falla undir nefnt ákvæði laga nr. 46/1987 og væri fyrirhugað að innheimta tekjuskatt og útsvar af þessum launum nema haldbær rök kæmu fram fyrir hinu gagnstæða af hálfu kæranda. Þá boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri á grundvelli nefndrar 4. gr. laga nr. 46/1987 að leggja á og innheimta tekjuskatt og útsvar af reiknuðu endurgjaldi kæranda við fiskverkun 150.000 kr. Í því efni væri höfð hliðsjón af því, að ekkert slíkt reiknað endurgjald hefði verið fært á framtöl kæranda undanfarin ár og ekki hefði verið tilkynnt um slíkt endurgjald til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra vegna staðgreiðslu 1988.

Í svarbréfi sínu, dags. 9. júní 1988, mótmælti kærandi hinum fyrirhuguðu breytingum skattstjóra. Kvað hann skorta röksemdir fyrir því, að um yfirfærðar tekjur hafi verið að ræða vegna breytinga á uppgjörsaðferð. Atvik væru þau, að breytingar hefðu orðið á högum fjölskyldunnar á árinu 1987. Hann hefði látið af störfum hjá A-bæ á því ári eftir 20 ára starf og hafið störf hjá X. h.f., jafnframt því, að útgerð fjölskyldunnar og fiskvinnsla hefði aukist að umsvifum. Að því hefði leitt auknar tekjur með mun meira vinnuframlagi en áður, enda bæri sjávarútvegsskýrsla þá aukningu með sér. Engin rök væru því til þess að telja hluta af launum hjá X. h.f. til yfirfærðra launatekna. Hér hefði aðeins verið um að ræða breytingu á vinnustað. Þá hefði fjölskyldan verið að byggja upp aðstöðu fyrir fiskverkun að undanförnu og hefði vinnuframlag hans verið verulega meira á árinu 1987 en áður. Þá vék kærandi að því að umrædd ákvæði 4. gr. laga nr. 46/1987 byggðu að sjálfsögðu á hliðstæðu vinnuframlagi og vinnuaðstæðum og árið áður. Í því sambandi benti hann á það, hversu fara skyldi með framteljanda, sem hæfi eigin atvinnurekstur á árinu 1987 og hefði ekkert reiknað endurgjald áður.

Með bréfi, dags. 13. júní 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga. Segir svo í bréfi þessu:

„1. Bent er á 5. málsgr. tilvitnaðrar lagagreinar, stjórnarþátttöku yðar í X. h.f. og umtalsverða hlutafjáreign í fyrirtækinu sem nægileg rök fyrir breytingu skattstjóra.

2. Sú staðreynd að tekjuárin fyrir 1987 hafið þér ekki talið slík reiknuð laun og gerið ekki ráð fyrir þeim árið 1988 er ein út af fyrir sig næg ástæða fyrir breytingu skattstjóra.

Hlutfallsleg aukning umsvifa fiskverkunarinnar milli tekjuárarana 1987 og 1986 er miklu minni (66,4%) en milli áranna 1986 og 1985 (147,1%) og komu þá ekki til reiknuð laun yður til handa.“

Varðandi röksemdir kæranda um meðferð reiknaðra launa þeirra, er hæfu rekstur á árinu 1987, tók skattstjóri fram, að í þeim tilvikum væri við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra að styðjast.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 26. ágúst 1988, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Barst hann í bréfi, dags. 19. október 1988. Taldi umboðsmaðurinn skattlagningu tekna kæranda að hluta frá X. h.f. ekki byggjast á lögum. Kærandi hefði skipt um starf 1987, hætt störfum hjá A-bæ og hafið störf hjá X. h.f. Tekjur hans frá bænum hefðu lækkað en tekjur frá X. h.f. komið í staðinn. Þetta ætti ekkert skylt við yfirfærðar tekjur skv. 4. gr. laga nr. 46/1987. Varðandi reiknað endurgjald vegna vinnu við fiskverkun þá lagði umboðsmaðurinn áherslu á aukið vinnuframlag, enda umsvif aukist. Að mati kæranda væri vinnuframlagið ekki ofmetið á 150.000 kr. Þó að ekki hefði verið reiknað endurgjald áður, bæri ekki að líta á breytinguna milli ára eingöngu, sbr. 4. gr. laga nr. 46/1987, heldur bæri að líta til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra í þessu sambandi, sbr. lokamálsl. 3. mgr. 4. gr. laganna.

Með kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Varðandi ætlaðar yfirfærðar tekjur frá X. h.f. bæri á það að líta, að ekki væri eingöngu um breytingu á vinnustað að ræða. Jafnframt hefði verið um að ræða verulega launaaukningu. Þá segir svo: „Launaaukning, sem kærandi getur haft áhrif á sem stjórnarmaður í félaginu og sem ekki skilar sér á árinu 1988, en fyrstu mánuði þess árs eru launin kr. 120.000 á mánuði, en heildarlaun fyrstu átta mánuði ársins 1988 eru kr. 1.002.000 en heildarlaun og reiknað endurgjald 1987 voru kr. 1.746.851“. Varðandi reiknað endurgjald kæranda ítrekaði skattstjóri, að kærandi hefði hvorki reiknað sér endurgjald vegna vinnu við fiskverkun fyrir 1987 né á árinu 1988 heldur eingöngu á skattleysisárinu 1987 þannig að ekki yrði á það fallist, að um eðlilega ráðstöfun væri að ræða.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. desember 1988. Er þess krafist, að ákvörðunum skattstjóra um yfirfærðar tekjur kæranda verði hnekkt. ítrekaðar eru framkomnar skýringar og lagarök.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt málsgögnum, sbr. launauppgjöf, var starfstími kæranda hjá A-bæ 22 vikur á árinu 1987 og 52 vikur hjá X. h.f. Þá heldur kærandi því fram, að hann hafi starfað við fiskverkun þá, er í málinu greinir, og reiknar sér endurgjald 150.000 kr. vegna vinnu við hana. Staðhæfingum skattstjóra um áhrif kæranda í X. h.f. vegna eignaraðildar og hluttöku í stjórn hefur eigi verið mótmælt. Að þessu virtu svo og því, sem skattstjóri hefur fært fram breytingum sínum til stuðnings þ.á m. vinnuframlagi og tekjum kæranda fyrir og eftir tekjuárið 1987, þykir skattstjóri hafa sýnt nægilega fram á, að um yfirfærslu tekna hafi verið að ræða í tilviki kæranda í skilningi 4. gr. laga nr. 46/1987 bæði að því er varðar laun frá X. h.f. og reiknað endurgjald. Með því að fjárhæðir þær, sem skattstjóri taldi til yfirfærðra tekna, hafa út af fyrir sig eigi sætt sérstökum athugasemdum af hálfu kæranda verða þær látnar óhreyfðar standa, enda verður eigi séð, að þær séu bersýnilega um skör fram.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja