Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 208/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 15. gr. 1. og 2. mgr. — 32. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 98. gr. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Bátur — Lausafé — Söluhagnaður — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Atvinnurekstrareign — Fyrning — Fyrnanleg eign — Málsmeðferð áfátt — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Álagningarlok — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Vítaleysisástæður — Andmælareglan — Ákvörðun söluhagnaðar

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1988 í framtalsfresti það ár. Í greinargerð um eignabreytingar í framtalinu gat hann þess, að hann hefði selt 1/3 hluta í bát fyrir 353.333 kr. Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að söluhagnaður vegna sölu á hlut hans í bátnum 80.663 kr. hefði verið færður honum til tekna í reit 76 í skattframtalinu. Með kæru, dags. 23. ágúst 1988, mótmælti umboðsmaður kæranda þessari breytingu skattstjóra. Gat hann þess, að bátur þessi hefði verið keyptur 8. mars 1985 og hefði hlutur kæranda í kaupverði numið 200.000 kr. Fyrirhugað hefði verið að byrja útgerð á bátnum, sem keyptur hefði verið hálfkláraður af framleiðanda (Sóma plastbátur). Þar sem ekki hefði orðið af því, að báturinn yrði gerður út, hefði skattstjóri bréflega hafnað því „að telja fram til skatts rekstrar- og efnahagsreikning af útgerðinni og var báturinn því talin fram sem eign í reit E8“, eins og segir í kærunni. Umboðsmaðurinn hélt því fram, þar sem þannig væri ekki um að ræða atvinnurekstrareign, að fella bæri tekjuviðbótina niður, sbr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá gat hann þess, að á árinu 1987 hefðu eigendur lagt fram bæði eigin vinnu og efni til verðmætisaukningar á bátnum, áður en hann hefði verið seldur. Væri hægt að gefa nánari upplýsingar um það, ef þess væri óskað.

Með kæruúrskurði, dags. 24. október 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing hefði birst í Lögbirtingablaði föstudaginn 29. júlí 1988. Síðasti dagur kærufrests hefði því verið laugardagurinn 27. ágúst 1988. Kæran, sem dagsett væri 23. ágúst 1988, hefði verið móttekin á skattstofu þann 29. s.m. Kæran væri samkvæmt þessu of seint fram komin og bæri því að vísa henni frá.

Með bréfi, dags. 11. október 1988, til ríkisskattstjóra fór umboðsmaður kæranda fram á, að það embætti tæki málið til afgreiðslu. Kæran hefði ekki borist skattstjóra innan kærufrests og ástæður fyrir því væri fjarvera kæranda vegna sjómennsku. Þetta erindi kæranda hefur ríkisskattstjóri framsent ríkisskattanefnd þann 24. október 1988 sem kæru til nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 2. janúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir atvikum og að virtum skýringum kæranda þykir rétt að taka erindi hans, dags. 11. október 1988, til efnismeðferðar sem kæru til ríkisskattanefndar. Er frávísunarúrskurði ríkisskattstjóra því hrundið. Kærandi hefur talið, að söluhagnaður af hinum selda eignarhluta hans í bátnum væri eigi skattskyldur, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og styður það m.a. þeim rökum, að skattstjóri hafi sjálfur talið, að eigi væri um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að ræða, sbr. bréf skattstjóra, dags. 25. júlí 1986, varðandi gjaldárið 1986. Telja verður eins og málsatvikum var háttað, að skattstjóra hefði borið að fara með hina kærðu breytingu eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. sömu laga eins og hann gerði, þ.e.a.s. gefa kæranda kost á að gæta hagsmuna sinna, áður en breytingin var ákveðin, og krefja hann um útreikning söluhagnaðar, en uppgjör hans af hendi kæranda lá eigi fyrir. í þessu sambandi er rétt að taka fram, að útreikningur skattstjóra á fjárhæð söluhagnaðarins er eigi réttur. Hefur skattstjóri byggt á stofnverði bátsins að frádreginni almennri fyrningu gjaldárið 1986, en þá fyrningu felldi skattstjóri niður jafnframt þeim breytingum, sem hann tilkynnti með bréfi sínu, dags. 25. júlí 1986. Að öllu framangreindu athuguðu er hin kærða breyting skattstjóra felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja