Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 213/1989
Gjaldár 1987 og 1988
Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 5., 6. og 9. tl. — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 71. gr. 1. mgr. 3. tl. 1. mgr.
Takmörkuð skattskylda — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Fasteignaleiga — Lausafjárleiga — Búfé — Búfjárleiga — Álagning skattstjóra — Reiknað endurgjald
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem dvelst erlendis, skilaði skattframtölum árin 1987 og 1988. í framtölunum tilgreindi hann hreina eign skv. landbúnaðarskýrslu, íbúðareign, og hlutdeild í bifreið. Til tekna voru færðar 100.000 kr. hvort ár um sig sem reiknuð laun við landbúnað. Var álagning á kæranda byggð á þessum framtölum.
Með kæru, dags. 5. ágúst 1988, fór umboðsmaður kæranda, fram á niðurfellingu tekjuskatts gjaldáranna 1987 og 1988. Tilfærðar tekjur væru leiga fyrir afnot eigna, þ.e.a.s. búfjár og fasteigna. Með kæruúrskurðum, dags. 18. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri niðurfellingarkröfu kæranda, enda skorti lagaheimild til þess. Hins vegar væri álagningin leiðrétt til samræmis við úrskurð ríkisskattanefndar nr. 402/1988.
Kæruúrskurðum skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. desember 1988. Farið er fram á niðurfellingu tekjuskatts og útsvars gjaldárin 1987 og 1988. Þess er getið, að kærandi hafi dvalist erlendis síðan 1970.
Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra.
Mál þetta liggur þannig fyrir, að skattstjóri hefur grundvallað álagningu sína á því, að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna eigna sinna hérlendis, fasteigna, búfjár, er hann hefði leigutekjur af, sbr. 5., 6. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með því að eigi verður annað séð en álagning skattstjóra sé samkvæmt lögum miðað við fyrrgreindar forsendur hans, sem út af fyrir sig hefur eigi verið andmælt af hálfu kæranda, þykir bera að vísa kærunni frá sem tilefnislausri.