Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 228/1989

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 —15. gr.  

Bifreiðaviðskipti — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Söluhagnaður — Ákvörðun söluhagnaðar — Skattskyldur söluhagnaður — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Gróðaskyn — HRD 1989:230

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1986. Var sú ákvörðun byggð á áætluðum viðbótartekjum auk 25% álags með því að kærandi hefði veitt skattstjóra ófullnægjandi upplýsingar og eigi lagt fram gögn um bifreiðaviðskipti á árinu 1985. Þá benti skattstjóri einnig á, að haldlítil væru rök kæranda fyrir því að þessi viðskipti teldust ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi hans í skilningi skattalaga. Kærandi mótmælir því að umrædd bifreiðaviðskipti sín teldust hafa verið atvinnurekstur hans í skilningi nefndra laga, enda eigi gerð í hagnaðarskyni heldur væri um tómstundastarf hans að ræða, sem birtist í formi „bíladellu". Þá tekur kærandi fram að í skattframtali sínu árið 1986 og í bréfi til skattstjóra, dags. 10. mars 1987, hafi hann gert ítarlega grein fyrir bifreiðaviðskiptum sínum á árinu 1985. Hann gerir þá kröfu að framangreind endurákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi enda væri ekki um hagnað að ræða af þessum viðskiptum.

Með bréfi, dags. 14. júlí 1988, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum gögnum málsins verður eigi talið að umrædd bifreiðaviðskipti kæranda á árinu 1985 hafi verið atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi hans, sbr. og dóm Hæstaréttar uppkveðinn 23. febrúar 1989, þar sem til úrlausnar var sambærilegt ágreiningsefni milli kæranda þessa máls og Gjaldheimtunnar í Reykjavík varðandi gjaldárin 1983 og 1984. Ber því við ákvörðun söluhagnaðar að fara eftir ákvæðum 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við þann útreikning kemur í ljós að eigi er um skattskyldan söluhagnað að ræða. Er því fallist á kröfur kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja