Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 229/1989

Lög nr. 75/1981 —102. gr. —107. gr.   Lög nr. 73/1980 — 24. gr. 2. mgr.  

Skattsektir — Skattrannsókn — Skattrannsóknarstjóri — Skattrannsókn áfátt — Vanframtaldar tekjur — Rannsóknarskýrsla — Rannsóknargögn

Með bréfi, dags. 3. nóvember 1988, hefur skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar mál X. Er í því bréfi svofelld greinargerð:

„Málavextir eru þeir að rannsóknardeild ríkisskattstjóra framkvæmdi athugun á afsláttargreiðslum frá A. hf. til gjaldanda. Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. ágúst 1987, kemur fram að gjaldandi hafi móttekið greiðslur frá A. hf., samtals kr. 72.991, á árinu 1985. Greiðslur þessar voru ekki færðar til tekna á skattframtali hans fyrir gjaldárið 1986. Í bréfinu boðaði ríkisskattstjóri gjaldanda endurákvörðun skattstofna hans vegna framangreindra greiðslna og hækkun opinberra gjalda gjaldárið 1986 til samræmis við þá breytingu, sbr. 101. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, að teknu tilliti til 25% álags á vantalda skattstofna sbr. 106. gr. sömu laga, bærist eigi svar eða svar væri ófullnægjandi.

Gjaldandi svaraði með bréfi dags. 13. ágúst 1987. Kom þar fram að gjaldandi hefði haft með höndum rekstur meira og minna í 10 — 15 ár en verið hættur honum er umræddar greiðslur bárust þannig að um gleymsku eða mistök hafi verið að ræða. Jafnframt fór gjaldandi fram á að eigi yrði beitt 25% viðurlögum. Ekki var fallist á skýringar gjaldanda er málið var tekið til úrskurðar af hálfu ríkisskattstjóra þann 6. október 1987, mál merkt 2—1—3—1138. Í úrskurðinum var gjaldanda gert að sæta hækkun á tekjuskatti, sjúkratryggingagjaldi, útsvari og sóknargjaldi vegna gjaldársins 1986.

Hækkun ríkisskattstjóra skv. framangreindum úrskurði var sem hér segir:

Hækkun Hækkun Hækkun Hækkun
tekjusk. útsvars sjúkratr.gj. sóknargj.
Gjaldár kr. kr. kr. kr.
1986 39.689 8.760 1.825 358

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að tekjur gjaldanda eru vantaldar fyrir gjaldárið 1986.

Telja verður að framangreind brot gjaldanda varði hann sektum skv. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga.“

Með bréfi, dags. 8. nóvember 1988, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn af sinni hálfu í tilefni af framangreindu bréfi skattrannsóknarstjóra. Engar athugasemdir hafa borist ríkisskattanefnd.

Hvorki rannsóknarskýrsla né gögn liggja fyrir í máli þessu. Að því virtu og að öðru leyti því sem upplýst er í málinu verður gjaldanda ekki gerð sekt í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja