Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 311/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 2. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. B-liður og C-liður  

Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall — Reiknað endurgjald — Sjálfstæð starfsemi — Vanreifun

Málavextir eru þeir, að auk launatekna samtals að fjárhæð 1.694.971 kr. hafði kærandi skattskyldar eignatekjur að fjárhæð 140.320 kr. svo og hreinar tekjur af sjálfstæðri starfsemi 71.800 kr., sbr. reiti 59 og 62 í skattframtali árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 nam niðurfellingarhlutfall tekjuskatts og útsvars kæranda 88,88%, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með kæru, dags. 12. ágúst 1988, fór kærandi fram á breytingu á nefndu niðurfellingarhlutfalli sér til hagsbóta, þar sem hann teldi, að „vinnuhegðan“ sín hefði verið með sama hætti árið 1987 og árið 1986 og hlutfallsleg hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofna milli skattframtala 1987 og 1988 viki ekki í neinum teljandi atriðum frá almennri þróun milli tekjuáranna hjá þeim tekjuhópum, er hann tilheyrði. Með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með því að skattframtal árið 1988 væri afgreitt í samræmi við framtalsskil undanfarin ár.

Með kæru, dags. 16. desember 1988, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Telur kærandi, að skattstjóri hafi ekki tekið efnislega afstöðu til kæruefnisins. Fer hann fram á, að ríkisskattanefnd meti og úrskurði lagalegan rétt sinn í þessu efni.

Með bréfi, dags. 22. mars 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að niðurstöðu til, enda verður ekki annað séð en hann sé í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.“

Krafa kæranda sýnist vera sú, að niðurfellingahlutfalli, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1987, verði breytt honum til hags, en um það liggur engin kröfugerð fyrir af hans hendi í einstökum atriðum. Kærandi hefur með höndum sjálfstæða starfsemi, bókhaldsþjónustu. Hann hefur ekkert endurgjald reiknað sér vegna vinnu við þá starfsemi og víkur raunar ekki að þessum þætti í málatilbúnaði sínum. Að þessu athuguðu og þar sem álagning gjaldárið 1988 er í samræmi við lög og reist á skattframtalinu óbreyttu þykir bera að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja