Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 342/1989

Söluskattur 1987

Lög nr. 24/1983   Reglugerð nr. 486/1982   Lög nr. 10/1960 — 2. gr. 2. mgr. — 21. gr. 2. mgr. 1. tl.  

Söluskattsskylda — Snjómokstur — Söluskattsálag — Söluskattsskyld starfsemi — RIS 1980.269 — Söluskattur

Málavextir eru þeir að kærandi sem á snjóblásara í félagi við föður sinn vann að snjómokstri fyrir X-Hrepp árið 1987 og fékk greiddar fyrir þá starfsemi samkvæmt gögnum málsins 13.218 kr. Fjárhæð þessa taldi hann sem tekjur af snjómokstri á landbúnaðarskýrslu sinni fyrir umrætt ár. Jafnframt er að finna í framtalsgögnum útfyllta söluskattsskýrslu af kæranda sjálfum, dags. 15. janúar 1988, þar eru fyrrgreind fjárhæð er talin undanþegin söluskatti þar sem eingöngu sé um að ræða vinnu við snjómokstur.

Næst gerðist það í málinu að skattstjóri sendi kæranda tilkynningu um sölugjald, dags. 23. febrúar 1988, en samkvæmt þeirri tilkynningu bar kæranda að greiða sölugjald af fyrrgreindri fjárhæð auk álags skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með áorðnum breytingum.

Í kæru umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 11. mars 1988, var álagningu sölugjaldsins auk álags mótmælt. Eins og fram hefði komið á söluskattsskýrslu hefði framtalin vinna eingöngu verið vegna snjómoksturs og því undanþegin söluskatti sbr. úrskurð ríkisskattanefndar.

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu 26. apríl 1988, og komst að þeirri niðurstöðu að álagt sölugjald auk álags skyldi standa óbreytt. Ekki væri að finna í lögum nr. 10/1960 eða reglugerð nr. 486/1982 með síðari breytingum neina heimild um að snjómokstur væri undanþeginn sölugjaldi, aftur á móti væri fjármálaráðherra heimilt að endurgreiða sveitarfélögum sölugjald af kostnaði þeirra við snjómokstur (sbr. lög nr. 24/1983). Samkvæmt úrskurði ríkisskattanefndar nr. 269/1980 hefði ekki verið talin nægilega örugg lagaheimild til álagningar söluskatts á snjómokstur sem framkvæmdur var með vörubifreið á taxta þeirra, en úrskurður þessi hefði ekkert fordæmisgildi varðandi snjómokstur almennt.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. maí 1988. Um kröfur og rökstuðning vísar kærandi til kæru sinnar til skattstjóra frá 11. mars 1988.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 17. mars 1989, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda sé snjómokstur söluskattsskyld starfsemi, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja