Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 29/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 73/1980 — 38. gr. c. og d. liðir — 41. gr.
Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstig — Iðnaður — Verktakastarfsemi — Aðstöðugjaldstilkynning — RIS 1988.74 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar
Kærð er álagning aðstöðugjalds til A-kaupstaðar gjaldárið 1988. Er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svohljóðandi:
„Í úrskurði Skattstjórans í X-umdæmi dags. 25. ágúst 1988 er notaður gjaldstigi aðstöðugjalds 1,3 fyrir starfsemi umbjóðanda okkar.
Þessum úrskurði mótmælum við og teljum að verktakastarfsemi umbjóðanda okkar falli undir iðnað og verði þá hámarksgjaldstig aðstöðugjalds 1%. Varðandi frekari rökstuðning vísum við til fyrri bréfa um sama efni og úrskurðar Ríkisskattanefndar nr. 74 dags. 3. mars 1988.
Krafa okkar er því að fallist verði á lækkun aðstöðugjaldstigs úr 1,3% í 1% og kirkjugarðsgjaldi breytt til samræmis, eða lækkun kr. 452.477.“
Með bréfi, dags. 5. júlí 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu á móti þessu fyrir hönd gjaldkrefjanda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að niðurstöðu til. Ekki liggur annað fyrir en að starfsemi kæranda falli undir d-lið 36. gr. laga nr. 73/1980, þ.e. annan atvinnurekstur með 1,3% aðstöðugjaldsstig, sbr. ákvörðun bæjarstjórnar A, dags. 29. júní 1988.
Vegna tilvitnunar umb. kæranda til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 74 frá 1988, skal það tekið fram að sá úrskurður hefur ekkert fordæmisgildi fyrir kærumál það sem hér er til umfjöllunar. Þar var aðstaðan sú að samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar var ekki heimild til álagningar hærra aðstöðugjalds en 1,0%, sem ríkisskattanefnd staðfesti þegar af þeirri ástæðu.“
Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta að vísan til forsendna hans.