Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Styrkur
  • Álag

Úrskurður nr. 591/1999

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 28. gr. 2. tölul., 30. gr. 2. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

Talið var að styrkur, sem kæranda var veittur vegna þátttöku í tilraun á virkni gigtarlyfja og ætlað var að mæta kostnaði m.a. vegna vinnutaps, áhættu og óþæginda, fæli ekki í sér miskabætur samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981, heldur væri um að ræða styrk í merkingu 2. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Þar sem kærandi hafði enga grein gert fyrir kostnaði sínum á móti greiðslunni var kröfu hans um niðurfellingu skattlagningar vísað frá vegna vanreifunar. Hins vegar var álagsbeiting skattstjóra felld niður.

I.

Með kæru, dags. 7. maí 1999, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 2. mars 1999, um endurákvörðun álagðra opinberra gjalda kæranda árið 1998. Með hinum kærða úrskurði var kæranda færður til tekna styrkur frá Vísindasjóði Landspítalans að fjárhæð 130.000 kr. og 25% álagi, 32.500 kr., bætt við þá fjárhæð. Hafði kæranda verið veittur styrkurinn fyrir þátttöku í tilraun á virkni gigtarlyfja. Niðurstaða skattstjóra var rökstudd með skírskotun til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 12. maí 1998, þar sem kom fram að styrkir af umræddu tagi teldust til skattskyldra tekna skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en væru ekki miskabætur í merkingu 2. tölul. 28. gr. laganna. Til stuðnings þeirri ákvörðun að bæta 25% álagi við fjárhæðina vísaði skattstjóri til 106. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að 25% álag verði fellt niður. Aðalkröfu sína styður kærandi þeim rökum að um sé að ræða miskabætur samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981, en ekki styrk í merkingu 2. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga eins og byggt sé á af hálfu skattstjóra.

Með bréfi, dags. 8. október 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda gert kröfu um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra á þeim grundvelli að ekki hafi verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 geti átt við.

II.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veittur umræddur styrkur gegn þátttöku í tilraun á virkni gigtarlyfja. Í bréfi A, yfirlæknis, dags. 4. maí 1998, er meðal annars gerð grein fyrir skyldum þátttakenda í tilrauninni og afleiðingum hennar, þar á meðal aukaverkunum, á þá. Segir að fyrirfram hafi verið áætlað að hver einstaklingur fengi greiddar 130.000 kr. vegna kostnaðar, vinnutaps, áhættu og óþæginda. Þeir sem hafi þurft að hætta þátttöku vegna aukaverkana hafi fengið lægri styrk, en þeir sem hafi þurft að fara í aukaskoðanir fengið hærri styrk.

Eins og umræddri greiðslu til kæranda er lýst í gögnum málsins verður að telja að um sé að ræða styrk, er telja ber til tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda getur samningsbundinn greiðsla af því tagi, sem hér um ræðir, engan veginn fallið undir miskabætur, svo sem kærandi heldur fram, þannig að um skattfrjálsa greiðslu sé að ræða samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laganna. Samkvæmt þessu fer um frádrátt frá greiðslu þessari eftir 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Fram kemur í gögnum málsins að greiðslunni var ætlað að mæta kostnaði kæranda vegna „vinnutaps, áhættu og óþæginda“. Kærandi hefur hins vegar enga nánari grein gert fyrir kostnaði sínum á móti greiðslunni. Þykir því verða að vísa frá vegna vanreifunar aðalkröfu hans um niðurfellingu skattlagningar á umrædda greiðslu. Hins vegar þykir mega fella úr gildi ákvörðun skattstjóra um að bæta 25% álagi við fjárhæð umræddrar greiðslu og taka þannig varakröfu kæranda til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda er vísað frá. Fallist er á varakröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja