Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 369/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 6. gr. — 65. gr. — 69. gr. — 82. gr.  

Barn — Sköttun barns — Munaðarleysingi — Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Hagstofa Íslands — Barnabætur — Skattaðili — Framfærandi — Forsjá barns — Lögráðamaður — Fósturbarn

Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að þær breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans, að eignir og tekjur fósturdóttur hans, X., hefðu verið færðar á framtalið. Vitnaði skattstjóri í því sambandi til ákvæða 6., 65. og 82. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Voru opinber gjöld lögð á kæranda í samræmi við framtal hans að teknu tilliti til þessara breytinga.

Með bréfi kæranda, dags. 2. ágúst 1988, og bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 19. ágúst 1988, var framangreind breyting kærð til skattstjóra og þess krafist, að hún yrði felld úr gildi. Í síðarnefnda bréfinu er sú krafa studd svofelldum rökum.

„Barnið X. er ekki undir forræði eða dvelur það hjá umbjóðanda okkar sem fósturbarn, kjörbarn eða stjúpbarn og því er ekki um það að ræða að ákvæði 7. gr. eða 82. gr. laga 75/1981 eigi við varðandi skattlagningu þess. Barnið missti seint á árinu 1987 móður sína og árið 1983 lést faðir þess og því var það foreldralaust. Frá forræði barnsins hefur ekki verið gengið og það fær að dveljast hjá umbjóðanda okkar sem er ættingi þess. Par hefur það notið húsaskjóls og umönnunar en allar eignir þess og tekjur eru umbjóðanda okkar algerlega óviðkomandi og í umsjá fjárhaldsmanns barnsins. Dvöl barnsins á heimili umbjóðanda okkar er algerlega án skuldbindinga og um óákveðinn tíma.

Umbjóðandi okkar á því ekki rétt til barnabóta vegna barnsins og á alls ekki að vera skattlagður vegna eigna þess og tekna. Svo virðist sem mistök hafi orðið hjá Hagstofu Íslands við skráningu á framtalseyðublaði umbjóðanda okkar þar sem barnið er skráð sem barn hans en eins og kom fram hér að ofan er alls ekki um það að ræða.“

Með úrskurði, dags. 13. desember 1988, tók skattstjóri framangreinda kæru til meðferðar og synjaði kröfunni á svofelldum forsendum:

„Í 6. gr. laga nr. 75/1981 kemur fram sú meginregla að börn innan 16 ára aldurs á viðkomandi tekjuári séu eigi sjálfstæðir skattaðilar. Á því er þar gerð sú eina undantekning að ákveðnar tekjur megi skattleggja sérstaklega hjá þeim. Í 82. gr. sömu laga er kveðið á um að eignir barna innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., teljist með eignum foreldra (þ.m.t. kjörforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra) eða hjá þeim sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. 69. gr. en varðandi þann rétt liggur það fyrir að barnið dvaldi hjá framteljanda árið 1987 og dvelur þar enn, enda verður að líta svo á að barnið sé á framfæri hans.“

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 2. janúar 1989. ítrekar hann því áður framkomna kröfu sína í máli þessu.

Með bréfi, dags. 31. maí 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda liggur fyrir að kærandi hefur notið barnabóta vegna barnsins frá fyrsta ársfjórðungi 1988, sbr. meðfylgjandi útskrift úr barnabótaskrá.“

Að virtum gögnum þeim sem fyrir liggja í máli þessu og fullyrðingum kæranda er krafa hans tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja