Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 403/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 4. gr. 6. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Skattskylda — Skattfrelsi — Skattfrjáls aðili — Stéttarfélag — Atvinnurekstur — Vörubifreiðastjórafélag — Félagsgjald — Kæra síðbúin

Málavextir eru þeir, að við álagningu gjalda árið 1988 áætlaði skattstjóri kæranda eignarskattsstofn 1.250.000 kr. og gerði honum að greiða eignarskatt 11.875 kr. svo og sérstakan eignarskatt 3.125 kr. Þessari ákvörðun undi kærandi ekki og kærði hana til skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1988, en móttekinni af skattstjóra þann 4. október 1988, samkvæmt áritun hans á kærubréfið. Var þess krafist að skattstjóri felldi niður framangreinda skattálagningu. Því til stuðnings var tekið fram að kærandi væri stéttarfélag, sem stundaði ekki atvinnurekstur, og einu tekjur kæranda á árinu 1987 hefðu verið félagsgjöld frá níu félagsmönnum. Þær tekjur hefðu farið til greiðslu á árgjöldum til Landssambands vörubifreiðastjóra og stjórnunarkostnað. Með kæru sinni lét kærandi fylgja undirrituð óútfyllt framtalsgögn, er skattstjóri hafði sent honum.

Með kæruúrskurði, dags. 6. desember 1988, tók skattstjóri framangreinda kæru til meðferðar. Var niðurstaða hans sú að vísa kærunni frá, þar sem hún hefði borist honum eftir lok kærufrests, sem verið hefði 27. ágúst 1988, en kæran borist honum 4. október 1988. Vitnaði skattstjóri þeirri niðurstöðu til stuðnings í ákvæði 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 31. desember 1988. Er þar ítrekuð sú krafa, að umrædd álagning skattstjóra verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 31. maí 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Eftir atvikum er fallist á að kæran hljóti efnismeðferð. Með vísan til þess sem upplýst er í málinu um starfsemi kæranda er á það fallist að hann sé undanþeginn skattskyldu sbr. 6. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981.“

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja