Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 415/1989

Söluskattur, september 1987

Lög nr. 1/1988 — III. kafli   Lög nr. 10/1960 - Brl. nr. 68/1987 — II. kafli  

Söluskattur — Sérstakur söluskattur — Tekjutímabil — Verkfræðiþjónusta — Söluskattsskil — Söluskattsálag — Söluskattstímabil — Söluskattsskil, frestun milli tímabila — Reikningsútskrift

I

Í kæru umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar, dags. 16. nóvember 1988, er svofelld kröfugerð:

„Málsatvik eru þau að X. hf. sendi ekki inn söluskattskýrslu fyrir septembermánuð 1987 og var ástæðan sú að félagið hafði engan krafið um greiðslu sérstaks söluskatts á því tímabili. Af ókunnugleika töldu forráðamenn félagsins ekki þörf á að senda inn söluskattskýrslu í tilvikum sem þessum, en þess ber að geta að ákvæði um innheimtu sérstaks söluskatts tóku fyrst gildi í þessum sama septembermánuði. Áætlun barst frá skattstjóra dags. 16. nóvember 1987 vegna sérstaks söluskatts í september 1987 kr. 72.728 að viðbættu álagi kr. 14.546 alls kr. 87.274. Með bréfum dags. 17. nóv. 1987, 23. des. 1987 og 11. ágúst 1988 er álagningu mótmælt, færð fram rök í málinu og þess freistað að fá fram viðbrögð frá skattyfirvöldum í málinu. Úrskurður skattstjóra barst 8. nóv. 1988 og þar er áætlun frá 16. nóv. 1987 staðfest.

Við leyfum okkur að kæra úrskurð skattstjóra og förum fram á að áætlaður sérstakur söluskattur að viðbættu álagi verði felldur niður. Leyfum við okkur að færa fram eftirtalin rök máli okkar til stuðnings:

Eins og rakið er í bréfaskiptum við skattstjóra byggist tekjuskráning félagsins að grunni til á tímaskráningu starfsmanna. Meginreglan er sú að í lok hvers mánaðar skila starfsmenn inn tímaskýrslum, síðan er unnið úr skýrslunum, ýmsum útlögðum kostnaði bætt við og síðan er metið hvort framgangur viðkomandi starfsmanns og félagsins í heild sé með þeim hætti gagnvart þjónustukaupa að réttlæti gerð reiknings. Þegar reikningsupphæð liggur ljós fyrir, er innheimtuskyldum söluskatti bætt við reikningsupphæðina. Samkvæmt tekjuskráningarkerfi félagsins eru tekjur skráðar á grundvelli útskrifaðra reikninga og sérstökum söluskatti skilað miðað við dagsetningu reikninga. Ástæðan fyrir því að þessi háttur er á hafður er sú, að félagið skráir ekki tekjur fyrr en þær eru vissar orðnar sbr. ákvæði skattalaga. Fram að þeim tíma er uppsafnaður tilkostnaður eignfærður sem verk í vinnslu sbr. skattframtöl félagsins 1987 og 1988. Fyrr en tekjur og kröfur á þjónustukaupa eru til orðnar er ekki unnt að ákvarða fjárhæð sérstaks söluskatts og er því tekjuskráningarmánuður lagður til grundvallar þegar skil eru gerð á sérstökum söluskatti.

Athygli vekur í úrskurði skattstjóra að hann skuli láta fjárhæð áætlunar standa óbreytta, þrátt fyrir það að hafa fengið upplýsingar um tekjuskráningarmáta félagsins og skattframtal 1988 með sundurliðaðri sölu skattskyldrar þjónustu eftir mánuðum, en engin athugasemd hefur verið gerð vegna þessarar sundurliðunar. Sú spurning vaknar, hvaða upplýsingar hefðu þurft til að koma, til þess að skattstjóri hafði breytt áætlun sinni frá 16. nóv. 1987 ef áðurgreindar upplýsingar eru ónógar.“

II

Með bréfi, dags. 16. febrúar 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu f.h. gjaldkrefjenda:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, þó þannig að fallist er á að hinn áætlaði sérstaki söluskattur vegna september 1987 lækki úr kr. 72.728 í kr. 26.737.

Ljóst er að ekki fær staðist að engin skattskyld sala á þjónustu hafi átt sér stað í september 1987, en af kærunni og öðrum gögnum málsins má ráða að seld þjónusta í september hafi í raun verið talin fram til sérstaks söluskatts í október 1987. A þennan hátt hefur átt sér stað frestun á söluskattsskilum milli mánuða. Með vísan til þessa telur ríkisskattstjóri rétt að taka mið af fram talinni veltu í október við áætlun fyrir september. Álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 21. gr. söluskattslaga lækki samsvarandi, eða úr kr. 14.546 í kr. 5.347, en ekki eru af hálfu ríkisskattstjóra talin efni til niðurfellingar álags.

Vegna tilvísunar kæranda í upplýsingar frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, sbr. bréf til skattstjóra, dags. 17. nóv. 1987, skal tekið fram að í bréfi fjármálaráðuneytisins til félags þessa, dags. 7. okt. 1987, eru að beiðni félagsins skýrðar gildandi reglur um hvenær telja beri veitta þjónustu fram til skattskyldrar veltu (sjá meðf. ljósrit, bls. 2, 3. liður).“

III

Svo sem kærandi lýsir sjálfur útskrift reikninga og innheimtu þykir rétt að fallast á það með ríkisskattstjóra, að fjárhæð sérstaks söluskatts fyrir september árið 1987 ákveðist 26.737 kr. Eins og atvikum er háttað í máli þessu þykir rétt að fella niður álagsbeitingu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja