Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 454/1989

Söluskattur, júlí 1988

Söluskattur — Söluskattstímabil — Söluskattsskýrsla — Söluskattsálag — Greiðsla söluskatts — Póstlagning greiðslu söluskatts — Eindagi söluskatts

Kærð er ákvörðun álags skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, á söluskatt fyrir söluskattstímabilið júlí 1988.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði söluskattsskýrslu til innheimtumanns, Tollstjórans í Reykjavík, fyrir júlímánuð 1988. Er skýrslan dagsett 25. ágúst 1988 og móttökustimpluð 30. s.m. Á skýrsluna er stimplað, að álag sé ógreitt. Skattstjóri tilkynnti kæranda þann 13. september 1988, að honum væri gert að sæta álagi kr. 110.541,- skv. 1. tl. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, til viðbótar söluskatti fyrir júlímánuð 1988. Miðaði skattstjóri við það, að söluskattsgreiðslan hefði dregist tvo virka daga fram yfir eindaga skattsins og ákvað álagið 8 %.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari álagsbeitingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 21. október 1988. Vísaði umboðsmaðurinn til þess, að skv. póstkvittun fyrir ábyrgðarsendingu hefði söluskattsgreiðslan verið póstlögð 25. ágúst 1988. Lagði umboðsmaður fram ljósrit póstkvittunar. Gerð var grein fyrir því, að á þessum tíma hafi framkvæmdastjóri kæranda verið staddur erlendis. Forstjóri þess og eini ábyrgi aðilinn, sem þá hefði getað undirritað söluskattsskýrslur, hefði verið staddur á Akureyri, en þar hefði greiðslan verið póstlögð. Forstjóri hefði og haft með höndum allar stærri greiðslur, þ.á m. greiðslu á söluskatti. Þá fylgdi kærunni ljósrit staðfestingar viðskipabanka kæranda, Búnaðarbanka Íslands, dags. 20. okt. 1988, um að greiðslumöguleikar hafi verið fyrir hendi 25. ágúst 1988.

Með kæruúrskurði, dags. 2. nóv. 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Úrskurðurinn er svohljóðandi:

„Söluskattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir greiða mánaðarlega söluskatt til innheimtumanns ríkissjóðs í því umdæmi, þar sem þeir eru heimilisfastir, skv. 1. mgr. 12. gr. 1. nr. 10/1960 með síðari breytingum. Gjalddagi söluskatts er 15. dagur næsta mánaðar eftir uppgjörsmánuð og eindagi 10 dögum síðar, sbr. 4. mgr. áður tilvitnaðra lagagreinar. Greiðsla söluskatts fyrir umrætt tímabil berst innheimtumanni ríkissjóðs í Reykjavík ekki fyrr en á öðrum virkum degi eftir eindaga, því sætti félagið 8% álagi skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. áðurnefndra laga. í 17. tl. leiðbeininga og fyrirmæla frá ríkisskattstjóra og fjármálaráðuneyti um útfyllingu og skil á söluskattsskýrslu sem prentaðar eru á bakhlið 2. samrits sérhvers söluskattsskýrslueyðublaðs, eru skýr ákvæði um póstlagningu greiðslu.

Þar segir:

„Póstlögð greiðsla er fullnægjandi, enda sé póstlagt í ábyrgð í síðasta lagi á eindaga innan þess lögsagnarumdæmis, þar sem greiðandi á lögheimili eða hefur starfsstöð.“

Umrædd greiðsla félagsins var póstlögð á Akureyri á eindaga. Þar sem félagið hefur hvorki lögheimili né starfsstöð á Akureyri, var umrædd greiðsla ekki fullnægjandi. Hin kærða álagning álags skal því standa óbreytt.“

Með kæru, dags. 21. desember 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Segir svo í kærunni:

„Til viðbótar rökstuðningi okkar í bréfi til skattstjóra dags. 21. okt. 1988, og hér fylgir afrit af, viljum við taka fram eftirfarandi:

Því er haldið fram af hálfu skattstjóra að félagið hafi hvorki lögheimili né starfsstöð á Akureyri. Það er rétt, en fyrirtækið er að öllu leyti í eigu sama aðila og rekur A. á Akureyri og því um mjög tengd félög að ræða.

Að okkar mati er það rangt hjá skattstjóra að félagið hafi brotið ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum þar sem greiðslan barst tollstjóranum í Reykjavík.

Varðandi leiðbeiningar ríkisskattstjóra og fyrirmæli fjármálaráðuneytis látum við yður það eftir að ákvarða lagagildi þeirra.

Við teljum okkur hafa rökstudda vitneskju um það, þó svo ekki hafi reynst mögulegt að fá það staðfest hjá tollstjóra, að töluverð brögð séu að því að fyrirtæki í Reykjavík greiði söluskatt t.d. í Kópavogi eða Hafnarfirði og sæti ekki viðurlögum fyrir það.

Að lokum viljum við benda á það, að félagið hefur ekki stundað það að greiða söluskatt frá Akureyri, heldur er hér um einstakt tilfelli að ræða.“

Með bréfi, dags. 14. júní 1989, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjanda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja