Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 458/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 53. gr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Fyrirframgreiðsla — Fyrirframgreiddir vextir — Málsmeðferð — Fyrirspurnarskylda

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Þann 28. ágúst 1987 móttók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1987. Tók hann það sem skattkæru og kvað þann 29. febrúar 1988 upp hinn kærða úrskurð. Féllst hann á að leggja framtalið til grundvallar nýrri álagningu gjalda með svofelldri breytingu: „Úr stofni til verðbreytingarfærslu er felldur niður liðurinn fyrirframgreiðslur kr. 845.055,-, þar eð um er að ræða afföll sem eigi falla undir eignir þær, er teljast til stofns til verðbreytingarfærslu. Stofn til verðbreytingarfærslu ber að miða við nafnverð eigna og skulda að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól. Kærandi vill ekki una þessari breytingu skattstjóra og hefur því skotið úrskurði hans til ríkisskattanefndar með kæru dags. 3. mars 1988. Krefst hann þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun skattstjóra „að fella niður úr stofni til verðbreytingarfærslu afföll af langtímaskuldum, sem eru eignfærð og síðan gjaldfærð eftir afborgunartíma“. Jafnframt bendir hann á að skattstjóri hafi ekki gefið kæranda kost á að svara áður en breytingin var framkvæmd.

Með bréfi dags. 5. júlí 1989 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra um að fella niður úr stofni til verðbreytingarfærslu afföll af langtímaskuldum verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þá skal það tekið fram, að skattframtal kæranda var móttekið hjá skattstjóra í kærufresti og því tekið til meðferðar sem kæra skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt en við þá meðferð komu ákvæði 1. mgr. 96. gr. sömu laga ekki til skoðunar. Skattstjóra bar því eigi að gera kæranda viðvart áður en hann gerði þær breytingar á stofni til útreiknings verðbreytingarfærslu kæranda, sem um er deilt í máli þessu.“

Eigi eru annmarkar á málsmeðferð skattstjóra, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra.

Svo sem gögn málsins liggi fyrir þykir rétt að líta svo á að umrædd fjárhæð sé fyrirframgreiddir vextir af skuldum kæranda og kemur sú fjárhæð því til útreiknings á verðbreytingarfærslu, sbr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Er því fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja