Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 34/1990

Gjaldár 1987

Lög nr. 32/1978 — 11. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. og 3. tl. — 57. gr. — 91. gr. 1. mgr.  

Hlutafélag — Sameignarfélag — Lögaðili — Skattskylda — Skattskylda hlutafélags — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Stofndagur hlutafélags — Upphaf skattskyldu — Upphaf skattskyldu hlutafélags — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu sameignarfélags — Sameining félaga — Sameignarfélag, breyting í hlutafélag — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Breyting rekstrarforms — Framtalsskylda — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptaka máls

Með bréfi, dags. 18. október 1988, fer umboðsmaður A hf. fram á, að ríkisskattanefnd endurupptaki frávísunarúrskurð sinn dags. 1. júní 1988 og kveði upp nýjan úrskurð, þar sem kærumálið verði tekið til efnislegrar umfjöllunar. Er í því sambandi höfð uppi svofelld kröfugerð:

„Fyrir gjaldárið 1987 var sent inn eitt framtal fyrir A hf., sem þá hafði í ársbyrjun 1986 verið sameinað A sf. Þau tímamörk sem skattstjóri tilgreinir í úrskurði sínum eru af völdum umbjóðanda míns og lögfræðings hans og er um mistök að ræða. Mistökin eru fólgin í því að félagið þ.e. hlutafélagið var stofnað 1.1.1986 í stað 3.2.1986 en tilkynning til hlutafélagaskrár var send þann 26. apríl 1986. Þarna er um mistök af hálfu lögfræðings umbjóðanda míns að ræða.

Hins vegar eru það líka mistök að dagsetning sem A sf. hætti starfsemi sé 1. júní 1986. Sú dagsetning á að vera 1. janúar 1986.

Sú fullyrðing skattstjóra að söluskattsskýrslur séu í nafni A sf. fram í ágúst 1986 er að því leyti rétt að ekki reyndist unnt af hálfu innheimtuaðila að breyta þessu fyrr og var umbjóðanda mínum sagt að nota áður innsendar söluskattsskýrslur þar til réttar bærust.

Nú er hér um að ræða sömu aðila sem að báðum félögunum standa, sömu starfsstöð og sama rekstur.

Í máli þessu er deilt um hvort hið eina innsenda framtal geti staðist og þá eingöngu hvað áðurnefndar tímasetningar varðar.

Hér eru ekki í húfi neinar skattaálögur sem raskast vegna breytinga úr sameignarfélagi í hlutafélag. Hér er heldur ekki um að ræða nein undanskot eigna, söluágóða né nein önnur atriði sem ekki stæðu hin sömu eftir, enda þótt gerð væru tvö skattframtöl.

Á hitt skal litið að mjög mikið hagræði er í því að hlutafélag yfirtaki sameignarfélag um áramót og eða að breytt sé um rekstrarform og því er málið sem nú er.

Mér er ljóst og vona að skattayfirvöldum sé það líka, að verulega örðugt getur verið að skipta þessu reikningsuppgjöri upp í tvö og gera tvö skattframtöl. Slíkt hlýtur ávallt að verða handahófskennt úr þessu sem komið er og varla getur það talist traustari álagningaflötur en nú er.

Af þeim ástæðum sem að ég hefi að framan rakið, er það krafa mín að ríkisskattanefnd taki mál þetta til endurúrskurðar og fallist á þau rök að ekki séu í húfi neinir þeir skattalegu hagsmunir sem hindra ætti mál þetta.“

Í tilefni af framangreindri beiðni gerir ríkisskattstjóri svofellda athugasemd í bréfi dags. 9. nóvember 1989:

„Framkominn rökstuðningur þykir ekki gefa tilefni til endurupptöku áðurnefnds úrskurðar og er þess krafist að beiðni þar um verði synjað.“

Af hálfu kæranda þykir hafa verið bætt úr ástæðum frávísunarinnar í úrskurði ríkisskattanefndar frá árinu 1988 og er hann endurupptekinn. Eftir öllum atvikum er fallist á að leggja hið innsenda skattframtal kæranda árið 1987 til grundvallar nýrri álagningu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja