Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila
Úrskurður nr. 612/1999
Virðisaukaskattur 1997, 1998
Lög nr. 50/1988, 24. gr. 1. mgr. (brl. nr. 122/1993, 22. gr.), 42. gr. (brl. nr. 119/1989, 13. gr.) Reglugerð nr. 248/1990, 14. gr. 4. mgr. Reglugerð nr. 667/1995, 3. gr. 1. mgr.
Kærandi var opinber aðili sem átti rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við reglur þar um. Jafnframt var kærandi skráður á grunnskrá virðisaukaskatts vegna sölu á minjagripum og fleiri vörum í tengslum við starfsemi sína. Hafði kærandi heimild skattstjóra til skila á virðisaukaskatti einu sinni á ári, enda var skattskyld velta undir tilskildu marki. Talið var að reglugerðarákvæði, þess efnis að endurgreiðsla færi því aðeins fram að ákvörðun virðisaukaskatts lægi fyrir í tilviki viðkomandi opinbers aðila, gæti ekki átt við ef aðila væri ekki skylt að standa skil á virðisaukaskatti vegna þess tímabils sem endurgreiðslubeiðni lyti að.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi, sem er opinber aðili í skilningi reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila, er skráður á grunnskrá virðisaukaskatts vegna sölu á minjagripum, ljósmyndum og fleiri vörum í tengslum við starfsemi sína. Hinn 3. september 1998 lagði kærandi fram beiðnir til skattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli III. kafla reglugerðar nr. 248/1990 vegna áranna 1997 og 1998. Með bréfi, dags. 28. september 1998, féllst skattstjóri á endurgreiðslubeiðni vegna ársins 1997, þó með breytingum sem ekki er ágreiningur um í máli þessu. Hins vegar synjaði skattstjóri endurgreiðslu vegna ársins 1998 og staðfesti þá ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 10. nóvember 1998. Vísaði skattstjóri til þess að kærandi væri skráður aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og stæði skil á virðisaukaskatti einu sinni á ári, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990 kæmi fram að endurgreiðsla samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar mætti því aðeins fara fram að ákvörðun um virðisaukaskatt lægi fyrir.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. febrúar 1999, er þess krafist að endurgreiðslubeiðnir kæranda verði teknar til efnislegrar afgreiðslu óháð almennum virðisaukaskattsskilum kæranda, enda sé réttur kæranda til endurgreiðslu virðisaukaskatts eftir ákvæðum III. kafla reglugerðar nr. 248/1990 óviðkomandi skyldu kæranda til að standa skil á virðisaukaskatti af vörusölu sinni. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990 sé verið að tryggja að endurgreiðsla samkvæmt greininni fari ekki fram fyrr en ákvörðun um virðisaukaskatt liggi fyrir, þannig að kröfu um vangreiddan virðisaukaskatt ásamt álagi og dráttarvöxtum verði skuldajafnað á móti endurgreiðslu. Slík krafa liggi ekki fyrir í tilviki kæranda þar sem virðisaukaskattsskyld starfsemi hans sé í ársskilum.
Með bréfi, dags. 11. júní 1999, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Bendir ríkisskattstjóri á að kæranda beri að standa skil á virðisaukaskatti einu sinni á ári skv. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Skemmri uppgjörstímabil, sbr. 1. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar, geti ekki átt við í tilviki kæranda. Endurgreiðsla til kæranda skv. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, megi ekki fara fram nema einu sinni á ári, sbr. 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Ákvæðið í 4. mgr. 14. gr. hafi að geyma sérreglu sem gangi framar almennu reglunni í 1. mgr. greinarinnar. Tekur ríkisskattstjóri fram að sambærilega reglu um greiðslutímabil sé að finna í 5. gr. reglugerðar nr. 554/1993, um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis o.fl., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 274/1996.
II.
Í III. kafla reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, er kveðið á um rétt sveitarfélaga og ríkisstofnana til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt sem fallið hefur til vegna kaupa þeirra á tiltekinni vinnu og þjónustu, sbr. upptalningu í 12. gr. reglugerðarinnar. Um almenn atriði varðandi endurgreiðslur þessar og kæruheimild til yfirskattanefndar vísast m.a. til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 319/1997 sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum 1997:55.
Um framkvæmd endurgreiðslu virðisaukaskatts til opinberra aðila er fjallað í 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er uppgjörstímabil vegna endurgreiðslu til sveitarfélaga og ríkisstofnana tveir mánuðir, þ.e. janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október svo og nóvember og desember. Í 2. mgr. segir m.a. að sækja skuli um endurgreiðslu vegna hvers uppgjörstímabils til viðkomandi skattstjóra og sé skilafrestur 1. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabil. Þá segir í 4. mgr. greinarinnar að endurgreiðsla megi því aðeins fara fram að ákvörðun um virðisaukaskatt viðkomandi ríkisstofnunar eða sveitarfélags, þ.m.t. fyrirtækja, stofnana og þjónustudeilda þess, liggi fyrir. Kröfu um vangreiddan virðisaukaskatt þessara aðila ásamt álagi og dráttarvöxtum skuli skuldajafna á móti endurgreiðslu.
Fallast ber á það með kæranda að skilyrði í 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um að skattákvörðun liggi fyrir í tilviki aðila sem lagt hefur endurgreiðslubeiðni til skattstjóra, geti ekki átt við ef aðila er ekki skylt að standa skil á virðisaukaskatti vegna þess tímabils sem endurgreiðslubeiðni lýtur að. Fær þetta stuðning af 16. gr. reglugerðarinnar, sem heimilar skattstjóra að fallast á beiðni sveitarfélags um ársskil sé skattskyld velta undir ákveðnu marki, en þar kemur ekkert fram um að árleg skil raski almennu fyrirkomulagi varðandi endurgreiðslur eftir 14. gr. reglugerðarinnar. Ákvörðun skattstjóra verður því ekki talin fá staðist nema vegna síðasta endurgreiðslutímabils hvers árs. Því er lagt fyrir skattstjóra að taka endurgreiðslubeiðnir kæranda vegna ársins 1998, sem fram voru lagðar 3. september 1998, til efnislegrar meðferðar.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Lagt er fyrir skattstjóra að taka endurgreiðslubeiðnir kæranda vegna ársins 1998, sem fram voru lagðar 3. september 1998, til efnislegrar meðferðar.