Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 547/1989
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 60. gr. 2. mgr.
Tekjutímabil — Vanframtaldar tekjur — Orlofsfé — Áunnið orlofsfé — Fastur starfsmaður — Starfslok — Orlofsfé við starfslok — Orlofsfé áunnið
I.
Málavextir eru þeir, að skattstjóri ritaði kæranda bréf, dags. 24. nóvember 1987, með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Var farið fram á, að kærandi gerði grein fyrir misræmi milli launafjárhæðar frá X. hf. að fjárhæð 1.029.738 kr. og framtöldum launum að fjárhæð 852.340 kr. frá sama aðila í skattframtali kæranda árið 1987.
Svar barst skattstjóra frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 8. desember 1987. Þar segir m.a.:
„Meðf. sendist yður ljósrit af launaseðli umbjóðanda míns frá X. hf. vegna október 1986. Samkvæmt launaseðlinum fær hann reiknað orlof kr. 177.398 sem er síðan dregið frá aftur sem annar frádráttur. Umbjóðandi minn fékk þetta aldrei greitt og var launamiði 1987 leiðréttur sbr. meðf. ljósrit þar sem aðalbókari félagsins skrifar nafn sitt við hliðina á handfærðri breytingunni til staðfestingar á því að hún sé rétt.
Ljóst er að um mistök er að ræða af hálfu X. hf. þegar launaseðlar eru sendir til skattstofunnar. Ég vil benda á, að samkvæmt bókhalds- og uppgjörsvenjum er áunnið orlof fastra starfsmanna ekki fært á launaseðil fyrr en orlofið hefur verið greitt. Þessu hefur X. hf. greinilega ekki fylgt.
Það er von mín að framangreindar skýringar nægi til að framtal umbjóðanda míns standi óbreytt. Að lokum vil ég benda á, að forsvarsmenn X. hf. hafa samkvæmt samtali í dag lýst sig reiðubúna til að staðfesta framangreind atriði ef eftir því yrði óskað af yðar hálfu.“
Með bréfi, dags. 12. febrúar 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun opinberra gjalda hans árið 1987 með vísan til fyrrnefnds bréfs, dags. 24. nóvember 1987, og heimildar í áðurnefndri 96. gr. laga nr. 75/1981. Endurákvörðunin væri vegna vanframtalinna launa frá X. h/f, að fjárhæð 177.398 kr. Með hliðsjón af skýringum í bréfi frá umboðsmanni kæranda, dags. 8. desember 1987, taldi skattstjóri rétt að beita eigi álagsheimild 106. gr. nefndra laga.
Endurákvörðunin var kærð til skattstjóra með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. mars 1988. Í kærunni ítrekar umboðsmaðurinn það sem áður hafði komið fram í bréfi hans til skattstjóra, dags. 8. desember 1987, að ógreitt áunnið orlof fastra starfsmanna geti ekki talist sem laun hjá starfsmanni fyrr en það hafi verið greitt. Þetta sé viðurkennd bókhalds- og uppgjörsvenja á íslandi, enda sé ljóst, að ógreitt áunnið orlof sé frádráttarbært hjá launagreiðanda á þeim tíma sem það myndist, þó að launþegi telji það ekki til tekna fyrr en harm fái það greitt. Síðan segir í kærunni til skattstjóra:
„Meðfylgjandi er bréf frá X. h.f. þar sem fram kemur að um mistök er að ræða af þeirra hálfu við gerð launamiða fyrir árið 1986 og að umbjóðandi minn fékk þetta orlof greitt þann 1. september 1987.
Í ljósi framansagðs förum við fram á, að áður innsent framtal fyrir árið 1986 standi óbreytt og áður boðuð skatthækkun sbr. bréf yðar dags. 12. feb. 1988 verði felld niður.
Að lokum vil ég taka það fram, að umbjóðandi minn hefur talið þetta orlof fram á skattskýrslu fyrir árið 1987.“
Kærubréfinu til skattstjóra fylgdi yfirlýsing frá X. hf., dags. 11. mars 1988, þess efnis, að kærandi hefði fengið áunnið orlof 1985 og 1986 greitt 1. september 1987.
II
Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í máli þessu þann 6. júní 1988 og synjaði kröfu kæranda með svofelldum rökum:
„Með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 þess efnis, að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum nema um óvissar tekjur sé að ræða, er ekki fallist á niðurfellingu endurálagningar.“
III
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 1. júlí 1988. ítrekuð er krafan um niðurfellingu endurálagningar á kæranda og í því sambandi vísar umboðsmaðurinn til bréfa sinna til skattstjóra, dags. 8. desember 1987 og 11. mars 1988. Síðan segir í kærunni til ríkisskattanefndar:
„Að lokum vil ég ítreka það, að umbjóðandi minn hefur að öllu leyti fylgt framtals- og uppgjörsvenjum sem tíðkast á Íslandi við frágang á framtali sínu. Ef svo er ekki, er ljóst, að meiri hluti framtala og launamiða á Íslandi eru ranglega útfyllt.“
IV
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, gert þá kröfu fyrir gjaldkrefjenda hönd, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
V
Af gögnum málsins verður ráðið, að kærandi hafi látið af störfum hjá X. h.f. síðla árs 1986 og þá hafi farið fram lokauppgjör á launum hans þ.á m. á orlofsfé. Er kröfu kæranda því synjað.