Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 35/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 32/1978 — 3. gr. — 9. gr. — 11. gr. 1. og 3. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. og 3. tl. — 57. gr. — 91. gr. 1. og 3. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Hlutafélag — Sameignarfélag — Skattskylda — Skattskylda hlutafélags — Skattskylda sameignarfélags — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Stofnun hlutafélags — Stofndagur hlutafélags — Stofnfundur — Upphaf skattskyldu — Upphaf skattskyldu hlutafélags — Félagssamþykktir — Lögaðili — Skráning í hlutafélagaskrá — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu sameignarfélags — Sameining félaga — Sameignarfélag, breyting í hlutafélag — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Breyting rekstrarforms — Framtalsskylda — Ársreikningur — Undirritun ársreiknings — Skattframtal, vefenging — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag á áætlaða skattstofna — Álagningarmeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Frávísun — Launatengd gjöld — Stofnsamningur — Launaframtal

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er hlutafélag, skilaði skattframtali árið 1988 innan tilskilins framtalsfrests það ár. Er framtalið dagsett 9. maí 1988 og barst skattstjóra 16. maí 1988 skv. áritun hans um móttöku þess. Var skattframtalið lagt til grundvallar frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988.

Af hálfu kæranda var álagningin kærð með bréfi, dags. 23. ágúst 1988. Kom fram í kærunni, að kærandi hefði yfirtekið rekstur X sf. 1. janúar 1987 svo sem fram kæmi í stofnsamningi, er kærunni fylgdi. Þetta hefði einnig komið fram í tilkynningu til hlutafélagaskrár frá 13. október 1987. Fyrir mistök hjá kæranda hefðu launaframtöl verið send í nafni X sf. í janúar 1988, en engar launagreiðslur hefðu verið inntar af hendi af hálfu X sf. á árinu 1987. Á kæranda hefðu verið lögð opinber gjöld gjaldárið 1988 samkvæmt skattframtali árið 1988. Á X sf. hefðu verið áætluð opinber gjöld gjaldárið 1988, þar sem skattframtal hefði ekki borist frá félaginu. Þá hefðu launatengd gjöld verið lögð á X sf. samkvæmt launaframtali þess, sem raunverulega hefðu tilheyrt kæranda. Krafa kæranda var sú, að þessi launatengdu gjöld yrðu lögð á hann skv. umræddu launaframtali, er borist hefði í nafni X sf. Að því er varðar X sf. var krafist niðurfellingar allra gjalda félagsins, þar sem það hefði hætt starfsemi 31. desember 1986 við yfirtöku kæranda á rekstrinum.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 8. nóvember 1988. Hann vísaði til þess, að stofndagur kæranda væri 20. september 1987, sbr. stofnsamning, og hæfist skattaðild hlutafélagsins á því tímamarki. Með skírskotun til úrskurðar, dags. 8. nóvember 1988, í máli X sf. og þess að umrætt launaframtal væri vegna launagreiðslna allt árið 1987 yrði að hafna kröfu kæranda varðandi hin launatengdu gjöld. Þá vék skattstjóri að skattframtali kæranda árið 1988. Það hefði borist í framtalsfresti og verið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Hins vegar tæki framtalið til reksturs alls ársins 1987 en ekki tímabilsins 20. september til 31. desember 1987, sem hefði verið í samræmi við stofndag. Þá væri ársreikningur kæranda ekki áritaður af stjórn hans samkvæmt 3. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í ljósi þessa yrði að telja, að skattuppgjör kæranda væri ekki viðunandi heimild álagningar. Væri skattframtalinu því hafnað og ný álagning reist á áætluðum skattstofnum að teknu tilliti til 106. gr. laga nr. 75/1981. Tiltók skattstjóri hina nýju stofna og ákvarðaði opinber gjöld kæranda í samræmi við þá.

II.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. desember 1988, krefst umboðsmaður kæranda þess, að opinber gjöld gjaldárið 1988 verði lögð á í samræmi við skattframtal hans árið 1988. Kærandi hefði verið stofnaður 6. nóvember 1982, en af óviðráðanlegum ástæðum hefði láðst að skrá hlutafélagið hjá hlutafélagaskrá, fyrr en 20. september 1987. Kærandi hefði yfirtekið rekstur, eignir og skuldir X sf. árið 1982. Fylgdi afrit af ársreikningi árið 1982 skattframtali árið 1983 ásamt stofnsamningi kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram, að hlutafélagið hafi verið stofnað á árinu 1982, en láðst að skrá það í hlutafélagaskrá fyrr en 20. september 1987. Í málinu liggur fyrir ljósrit fundargerðar stofnfundar, sem haldinn var 6. nóvember 1982, og ljósrit útfylltrar tilkynningar um stofnun félagsins til hlutafélagaskrár, dags. 19. ágúst 1983. Þegar hlutafélagið var skráð, var sá frestur löngu liðinn, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, sé miðað við dagsetningu nefnds stofnfundar. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun kæranda, dags. 6. október 1987, sbr. 6. tbl. Lögbirtingablaðs, útg. 20. janúar 1988, kemur fram, að samþykktir kæranda séu dagsettar 29. september 1987. Stofnsamningur, er fylgdi kæru til skattstjóra, er dagsettur 20. september 1987. Upphaf skattskyldu kæranda þykir bera að miða við félagsstofnunina sjálfa, þ.e. stofnfundardag. Af umræddri tilkynningu verður eigi annað ráðið en hann teljist 29. september 1987, en samþykktir eru hluti stofnsamnings. Bar kæranda að haga skattskilum sínum í samræmi við þetta og skattstjóra að ganga eftir því væri það eigi gert. Yfirtaka kæranda á sameignarfélaginu X var hins vegar miðuð við 1. janúar 1987, og skattskil kæranda fyrir árið 1987 sniðin eftir því, er eigi fékk staðist í ljósi framanritaðs, en um var að ræða breytingu sameignarfélagsins í hlutafélag að því er best verður séð, sbr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 75/1981 varðandi skilyrði fyrir yfirfærslu skattaréttarlegra skyldna og réttinda, þegar svo stendur á. Þrátt fyrir framangreinda annmarka á skattskilum kæranda gjaldárið 1988 lagði skattstjóri þau óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda við frumálagningu gjaldárið 1988. Í tilefni af kæru kæranda, dags. 23. ágúst 1988, hafnaði skattstjóri hinsvegar framtalinu og áætlaði skattstofna. Þessi málsmeðferð fær engan veginn staðist og bar skattstjóra að fara eftir ákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, er hann hlutaðist til um nýja skattákvörðun. Af þessum sökum verður að ómerkja hina kærðu álagningu og, eins og málið liggur fyrir, byggja á upphaflegri álagningu að svo stöddu. Kröfu kæranda um álagningu launatengdra gjalda vegna rekstrarársins 1987 á hann er vísað frá með skírskotun til þess, sem fram hefur komið, en gjöld þessi voru lögð á X sf. við frumálagningu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja