Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 601/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður —10. gr. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl.  

Skattskyldar tekjur — Styrkur — Girðingarstyrkur — Eignfærsla — Gjaldfærsla — Girðingarkostnaður — Sönnun — Vegagerð ríkisins — Bújörð — Búrekstur — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Stofnverð

Málavextir eru þeir, að skattstjóri krafði kæranda skýringa með bréfi, dags. 14. október 1987, á því að svo virtist sem greiðsla 47.500 kr. frá Vegagerð ríkisins tilgreind sem girðingarstyrkur skv. launamiða kæmi ekki fram í skattframtali hans árið 1987. Gefinn var 30 daga svarfrestur. Í svarbréfi kæranda, dags. 16. október 1987, kom fram, að hann hefði fyrir tæpum áratug lánað Vegagerðinni efni í girðingarspotta líklega u.þ.b. 600 m að lengd. Honum hefði verið tjáð, að svo gæti farið, að dráttur yrði á greiðslu vegna þess að Vegagerðin hefði lítið fé til þess að girða meðfram vegum. Sú hefði orðið raunin á og loks á árinu 1986 hefði hann fengið greiðslu og hún þá kölluð girðingarstyrkur. Kærandi kvaðst ekki hafa litið á greiðslu þessa sem tekjur, enda hafði hann aldrei gjaldfært girðingarefnið. Þarna hefði aðeins verið um lán að ræða, sem verið væri að endurgreiða en ekki styrk og sýndist því ljóst vera, að ekki bæri að tekjufæra greiðsluna. Með bréfi, dags. 4. maí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umrædd greiðsla frá Vegagerðinni hefði verið færð honum til tekna og áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1987 endurákvörðuð í samræmi við þá breytingu. Skattstjóri tók fram, að samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni væri þetta venjulegur háttur á greiðslum þeirra fyrir efni og vinnu við girðingar, þar sem greiðslur færu eftir fjárveitingum.

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 11. maí 1988. Kærandi gat þess, að launamiði vegna greiðslunnar hefði ekki borist honum, fyrr en í október 1987. Hann hefði lent í óskilum, enda sendur öðrum manni. Af þessum sökum hefði ekki verið gerð grein fyrir greiðslunni í skattframtali. Krafa kæranda í kærunni var sú, að kostnaður vegna girðingarinnar kæmi á móti greiðslunni. Hins vegar væru liðin 10 ár frá framkvæmdinni og hann hefði engar efnisnótur handbærar. Hann hefði því brugðið á það ráð að leita til Búnaðarsambands Suðurlands um upplýsingar um girðingarkostnað árið 1986 sama árið og greiðslan hefði verið innt af hendi. Lét kærandi fylgja kærunni gögn um þann kostnað, þ.e. girðingarkostnað í júlí 1986. Umrædd girðing teldist til flokks C, er reiknaðist 106.240 kr. á km. Umrædd girðing hefði verið rúmlega 500 m. löng og kostnaður því verið sem næst 53.120 kr., en Vegagerðin meti girðingarkostnað eftir verðlagi greiðsluárs. Með kæruúrskurði, dags. 13. júní 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum: „Samkvæmt upplýsingum í kæru yðar eru um 10 ár síðan umrædd girðing var gerð, ekkert kemur fram í framtalsskilum yðar 1976 (v/1975) — 1981 um sérgreindan kostnað vegna girðingar þessarar, en þér gjaldfærið árlega v/girðingar 10.000 kr. 36.000 kr. (framreiknað til verðlags 1986). Ekki verður séð að útreiknaður kostnaður vegna 1986 geti komið til frádráttar, enda eru og í honum ýmsir liðir sem ættu að tekjufærast.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. í júnímánuði 1988, móttekinni 23. júní 1988. Greinargerð kæranda er svohljóðandi í kærunni:

„Vegagerð ríkisins telur sér skylt að setja upp fjárheldar girðingar meðfram ríkisvegum. Þar sem slíkar girðingar eru settar upp meðfram vegum á bújörðum er slík framkvæmd aldrei talin ábúandanum til tekna, en viðhald girðingarinnar mun hann í flestum tilfellum annast.

Árið 1978 fór undirritaður þess á leit við umdæmisverkfræðing vegagerðar á Suðurlandi að sett yrði upp girðing í landi hans meðfram vegi sem er rúmlega 500 m að lengd. Umdæmisverkfræðingur tjáði mér að fé lægi ekki fyrir til slíkra framkvæmda þó að þarfar væru. Ráðlagði hann mér að reisa girðinguna á eigin reikning í von um endurgreiðslu síðar sem vissulega gæti dregist mörg ár og engan veginn alveg örugg. Það varð svo úr að ég setti upp girðinguna. En kostnaður, efni og vinna, er ekki fyrir hendi. Þann kostnað færði ég að sjálfsögðu aldrei á skattframtal. Ég gat heldur ekki talið mig eiga fé hjá Vegagerðinni, sem þessu nam, því að endurgr. var ekki örugg og allir samningar í lausu lofti, ef svo má segja.

Nú liðu átta ár. Þá kemur greiðsla frá Vegagerðinni kr. 47.500.- framreiknað til ársins 1986. Greiðslan var nefnd girðingastyrkur. en ég leit svo á að þetta væri greiðsla á gamalli skuld og taldi það ekki til tekna á skattframtali. í október 1987 berst mér svo í hendur launamiði og fyrirspurn frá Skattstofu Suðurlands varðandi þessa upphæð. Ég svaraði Skattstofunni bréflega og gerði grein fyrir þessari greiðslu frá Vegagerðinni. — Nú í vor fékk ég bréf frá skattyfirvöldum þar sem mér er endurákvarðaður skattur m.a. vegna téðrar greiðslu frá Vegagerðinni. Ég skrifaði skattstofunni um hæl og taldi, samkvæmt ábendingu frá Vegagerðinni, að kostnaður við girðinguna, stofnkostnaður, ætti að koma til frádráttar. Nótur yfir kostnað eru nú glataðar, enda tíu ár síðan verkið var unnið. Ég fékk því kostnaðaráætlun hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, samantekna af manni með sérþekkingu á þessu verksviði og fylgir hún hér með í ljósriti. Sú áætlun er frá árinu 1986, þegar umrædd greiðsla fór fram hjá Vegag. Samkvæmt henni hefur girðingin kostað kr. 53.120.- Þetta sendi ég skattstofunni en með bréfi dags. 13/5 “88 er mér synjað um leiðréttingu. — Vænti yðar liðsinnis.“

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi staðhæfir að hann hafi á sínum tíma eigi gjaldfært umræddan girðingarkostnað, er hann fékk loks greiddan úr hendi Vegagerðar ríkisins á árinu 1986 og að kostnaður þessi hafi eigi verið færður í framtalsskil hans á framkvæmdaári. Verður að skilja þetta svo, að girðingarkostnaðurinn hafi hvorki verið eignfærður né gjaldfærður á sínum tíma. Eigi verður talið að neitt það sé fram komið af hálfu skattstjóra í málinu, er hnekkt hafi þessari staðhæfingu. Að svo vöxnu og að virtum málavöxtum að öðru leyti þykir rétt að fella hina kærðu tekjuhækkun niður. Skv. þessu er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja