Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 618/1989
Gjaldár 1986 og 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr.
Bifreiðahlunnindi — Bifreiðahlunnindamiði — Eigin notkun — Skattmat ríkisskattstjóra — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Starfsreglur ríkisskattstjóra — Akstur — Sönnun — Frávísun vegna vanreifunar — Sönnunarbyrði — Einkanot — Umfang einkanota — Vanreifun
Málavextir eru þeir, að kærandi hafði endurgjaldslaus afnot af bifreið í eigu vinnuveitanda síns, X. h.f. í Reykjavík, þar sem kærandi gegnir starfi verksmiðjustjóra. Um var að ræða bifreið af tegundinni Lada árgerð 1983. Á bifreiðahlunnindamiða fyrirtækisins, er liggur fyrir í málinu, er tekið fram, að kærandi sé notandi bifreiðarinnar, en hún sé aðallega notuð í þágu fyrirtækisins. Í skattframtölum sínum árin 1986 og 1987 færði kærandi sér til tekna hlunnindi vegna afnota sinna af bifreið þessari. Hlunnindi þessi mat hann svo, að hann taldi akstur í einkaþarfir nema 2.500 km hvort árið, er reiknaðist við skattmati ríkisskattstjóra skv. lið 2.2.4. í mötum þessum eða 11,44 kr. pr. km gjaldárið 1986 og 12,16 kr. pr. km gjaldárið 1987. Samkvæmt þessu námu tekjufærðar hlunnindafjárhæðir af hálfu kæranda 28.600 kr. gjaldárið 1986 og 30.400 kr. gjaldárið 1987.
Skattstjóri taldi, að kærandi hefði vanmetið þessi hlunnindi sín. Af þeim sökum endurákvarðaði hann áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1986 og 1987 þann 8. apríl 1988 að undangengnum bréfaskriftum, sbr. bréf skattstjóra, dags. 9. desember 1987 og 5. febrúar 1988 og bréf kæranda, dags. 19. desember 1987 og 20. febrúar 1988. Taldi skattstjóri, að fjárhæð hinna skattskyldu bifreiðahlunninda bæri að miða við 7.000 km akstur í einkaþágu hvort ár og hækkaði því hlunnindafjárhæðir um 51.480 kr. á framtali árið 1986 og 54.720 kr. á framtali árið 1987. Þessa ákvörðun sína staðfesti skattstjóri með kæruúrskurði, dags. 19. ágúst 1988, að undangenginni kæru kæranda, dags. 4. maí 1988. Skattstjóri byggði á því, að kærandi hefði haft til afnota að eigin vild bifreið í eigu vinnuveitanda á árunum 1985 og 1986. Hann hefði ekki gert neina sérstaka grein fyrir litlum einkaakstri. Með hliðsjón af þörf manna almennt fyrir bifreiðanotkun væri akstur ákvarðaður 7.000 km á ári, er ríkisskattstjóri hefði til viðmiðunar sem lágmarksakstur, þegar metinn væri frádráttur á móti ökutækjastyrk.
Kærandi mótmælti tekjuviðbótum skattstjóra og taldi sig fremur hafa ofmetið hlunnindin en vanmetið, enda væri bifreiðin ekki til lystiferða fallin. Hann vísaði til meðferðar samskonar ágreiningsefnis fyrri gjaldár. Kærandi taldi sig hafa notað bifreiðina utan vinnutíma, sem svaraði 28 km akstri á viku eða um 1.456 km á ári og færi það minnkandi. Þessi vegalengd væru 2 ferðir frá heimili hans til miðborgar Reykjavíkur. Kærandi taldi viðmiðun skattstjóra til mats á hlunnindunum, þ.e. 7.000 km akstur, með öllu fráleita.
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. september 1988. Krefst hann þess, að hækkun skattstjóra á fjárhæð tekjufærðra bifreiðahlunninda verði hnekkt og tilfærðar fjárhæðir látnar óbreyttar standa eins og þær voru af hendi kæranda í framtölum árin 1986 og 1987. Telur kærandi, að skattstjóri hafi ekki sýnt fram á það efnislega, að einkaakstur kæranda hafi verið svo hár, sem ákveðið hafi verið.
Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eigi er deilt um það í máli þessu, að kærandi hafi haft einkanot af bifreið í eigu vinnuveitanda síns, er honum beri að meta til skattskyldra tekna. Ágreiningurinn varðar hinsvegar umfang þessara einkanota og þar með fjárhæð þeirra. Í málinu eru ófullnægjandi upplýsingar um þetta, m.a. liggur ekkert fyrir um heildarakstur nefndrar bifreiðar og hversu notkun hennar sé háttað í þágu eiganda, þ.e. vinnuveitanda kæranda. Telja verður, að það hafi fyrst og fremst borið undir kæranda að gera skilmerkilega grein fyrir þessum atriðum og öðru því er til þess væri fallið að upplýsa málið. Kærandi hefur hvorki gert það né fært viðhlítandi rök fyrir lágum akstri í einkaþágu en sjálfur á hann enga bifreið. Að svo vöxnu og þar sem mat skattstjóra er eigi bersýnilega um skör fram þykir rétt að vísa kærunni frá að svo stöddu vegna vanreifunar.