Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 625/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 106. gr. 1. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Barnalífeyrir — Vistun barns — Greiðsla vegna vistunar barns — Fóstur — Fósturbarn — Ráðstöfun barns í fóstur — Fósturforeldri — Greiðsla sveitarfélags til fósturforeldris

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagningin kærð með kæru, dags. 27. ágúst 1987, og farið fram á, að henni yrði breytt til samræmis við skattframtal, er sent yrði innan fárra daga. Með bréfi, dags. 17. nóvember 1987, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1987 til skattstjóra. Með kæruúrskurðum, dags. 7. mars 1988, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1987 að viðbættu 25% álagi vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Þá færði skattstjóri kærendum til tekna greiðslu frá Borgarsjóði Reykjavíkur alls 152.712 kr. vegna vistunar barna 76.356 kr. hjá hvorum kæranda, sbr. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Tók skattstjóri fram, að kærendur fengju barnabætur og barnabótaauka með börnum þessum.

Með kæru, dags. 5. apríl 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst hann þess, að álag á skattstofna verði fellt niður „og meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun verði ekki taldar skattskyldar tekjur". Varðandi fyrra kæruefnið er þess getið, að bókhaldsgögn kærenda hafi verið í höndum 3ja aðila og ekki borist, fyrr en í kærufresti. Þá hefði og komið í ljós, þegar vinna við framtalsgerð hefði hafist, að ýmiss gögn vantaði. Söfnun gagna og yfirlita hefði reynst tímafrek og valdið því, að framtalsskil drógust. Varðandi síðara kæruefnið, greiðslur með fósturbörnum, er vísað til 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, þar sem fram komi, að barnalífeyrir af þessu tagi flokkist ekki undir skattskyldar tekjur.

Með bréfi, dags. 21. júní 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Greiðslur þær sem um er deilt í máli þessu eru dagpeningar frá Reykjavíkurborg vegna vistunar barnsins A. hjá kærendum. Ekki er annað leitt í ljós en að greiðslur þessar berist kæranda, X., og ber henni skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og verklagsreglur ríkisskattstjóra 3. útg. 02.86, að telja fram þessar greiðslur að því marki sem þær eru umfram tvöfaldan barnalífeyri fyrir það tímabil sem greitt er fyrir. Með vísan til framanritaðs er þess krafist að kröfu kærenda um skattleysi þessara greiðslna verði hafnað og að skattlagningu verði hagað eins og áður greindi. Þá er krafist staðfestingar á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að atvik þau er um ræðir í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 hafi átt við um tilvik kærenda og hamlað tímanlegum framtalsskilum.“

Eftir öllum atvikum og með hliðsjón af framkomnum skýringum er krafa kærenda um niðurfellingu álags tekin til greina. Sá misskilningur kemur fram í kæru, að um hafi verið að ræða skattlagningu greiðslna 87.262 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Svo var ekki heldur skattlagði skattstjóri greiðslu frá Reykjavíkurborg að fjárhæð 152.712 kr. vegna vistunar nefnds barns, A., að jöfnu hjá kærendum eða 76.356 kr. hjá hvorum um sig. Samkvæmt launauppgjöf var hér um að ræða greiðslu til kæranda, X. Með skírskotun til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra þykir bera að skattleggja nefnda greiðslu hjá henni með þeim hætti, sem þar kemur fram. Samkvæmt því koma 65.450 kr. til skattlagningar en skattlagning hjá kæranda, Y., fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja