Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 36/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 32/1978 — 11. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. og 3. tl. — 57. gr. — 91. gr. 1. og 3. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Sameignarfélag — Skattskylda — Skattskylda sameignarfélags — Skattskylda hlutafélags — Sjálfstæður skattaðili — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu sameignarfélags — Sameignarfélag, breyting í hlutafélag — Hlutafélag — Lögaðili — Sameining félaga — Félagsslit — Framtalsskylda — Áætlun — Áætlun skattstofna — Stofndagur hlutafélags — Upphaf skattskyldu — Upphaf skattskyldu hlutafélags — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Stofnsamningur — Félagssamþykktir — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Launatengd gjöld — Launaframtal — Álag — Álag á áætlaða skattstofna

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, var ekki talið fram til skatts árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 áætlaði skattstjóri kæranda skattstofna til álagningar opinberra gjalda að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í nafni kæranda hafði verið skilað launaframtali árið 1988.

Í kæru til skattstjóra, dags. 23. ágúst 1988, krafðist umboðsmaður kæranda þess, að hin áætluðu gjöld á kæranda yrðu með öllu felld niður, en launatengd gjöld skv. launaframtali yrðu lögð á A hf. sem yfirtekið hefði rekstur kæranda frá og með 1. janúar 1987. Launaframtal hefði fyrir mistök verið sent inn í nafni kæranda en engar launagreiðslur hefðu verið inntar af höndum af félagsins hálfu árið 1987. Kærandi hefði hætt starfsemi 31. desember 1986 og hún yfirtekin af A hf. og kæmi fram í framtalsskilum þess félags fyrir rekstrarárið 1987.

Skattstjóri synjaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 8. nóvember 1988. Segir svo í úrskurðinum:

„Kærandi skilaði ekki skattframtali 1988 og voru því honum áætlaðir gjaldstofnar sbr. 95. gr. laga nr. 75/1981. Í kærunni er þess farið á leit að greind álagning verði felld niður, enda hafi skattuppgjör vegna reksturs kæranda á árinu 1987 verið skilað með skattframtali A hf.

Með tilkynningu dags. 06.10.1987 er hlutafélagið A hf. tilkynnt til skráningar hjá hlutafélagaskrá. Stofnsamningur hlutafélagsins sem vísað er til í kærunni hér að ofan, er dags. 20.09.1987. Skv. framansögðu verður að líta svo á, að greint hlutafélag hafi ekki öðlast skattaðild fyrr en frá síðast nefndu tímamarki.

Kæranda hafði ekki verið slitið í árslok 1987, og ekkert skattuppgjör hefur verið lagt fram fyrir sameignarfélagið.“

Með kæru, dags. 4. desember, til ríkisskattanefndar mótmælir umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda á sameignarfélagið, þar sem því hafi verið slitið 1982. Muni verða séð um að tilkynna þau slit til bæjarfógetans í A.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með skírskotun til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 35/1990 í kærumáli A hf., er leiðir til þess að álagning vegna rekstrar kæranda á rekstrarárinu 1987 leiðir að svo stöddu af skattskilum þess hlutafélags, þykir rétt að fella álagningu á kæranda niður að undanskildum launatengdum gjöldum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja