Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 634/1989

Gjaldár 1986 og 1987

Lög nr. 75/1981 —15. gr. — 23. gr. 1. mgr.  

Bifreiðaviðskipti — Söluhagnaður — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Sölutap — Útreikningur söluhagnaðar — Frádráttur sölutaps frá söluhagnaði — Flugvél — Sala eignarhluta í flugvél — Samskonar eignir — Endurbætur — Sölulaun — Sönnun — Tap af sölu eigna utan atvinnurekstrar — Skattfrelsi söluhagnaðar

Málavextir eru þeir, að með skattframtölum kæranda árin 1986 og 1987 fylgdu sérstök yfirlit yfir kaup og sölu bifreiða. Á árinu 1985 keypti kærandi 5 bifreiðar og seldi jafnmargar. Á árinu 1986 keypti kærandi 5 bifreiðar, þar af eina í Vestur-Þýskalandi, og seldi 3. Þá keypti hann sjöttung í flugvél á árinu 1985 og seldi árið 1986. Ekki færði kærandi sér til tekna neinn söluhagnað vegna þessara viðskipta og slíkan hagnað gerði hann ekki upp.

Með bréfi, dags. 26. janúar 1988, krafði skattstjóri kæranda skýringa á því, hvers vegna hann teldi sér ekki til tekna hagnað vegna tilgreindra 4 bifreiða, er hann hefði keypt og selt á árinu 1985, og á hverju hann byggði það, að söluhagnaður félli undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sömu skýringa krafði skattstjóri kæranda varðandi sölu tveggja bifreiða á árinu 1986, er keyptar höfðu verið á því ári. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. febrúar 1988, kom fram, að hagnaður af sölu bifreiðanna teldist ekki til tekna, þar sem þær væru ekki notaðar í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, salan félli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og bifreiðarnar hefðu ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði. Ljóst mætti vera, að söluhagnaður kæranda félli undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá hélt umboðsmaðurinn því fram, að undanfarin ár hefði verið ókleift að „græða“ á kaupum og sölum bifreiða, enda framboð meira en eftirspurn. Menn hefðu einfaldlega ekki getað keypt bifreiðar með það fyrir augum að selja þær aftur með hagnaði. Þá vakti umboðsmaðurinn athygli á keðjuverkun vegna töku bifreiða frá kaupendum sem greiðslu upp í söluverð. Þannig hefðu þrenn bifreiðaviðskipti orðið að fimm hjá kæranda á árinu 1985. Umboðsmaðurinn staðhæfði, að bifreiðarnar hefðu ekki verið keyptar í því skyni að selja þær aftur með hagnaði. Aðeins bifreiðaáhugi kæranda hefði verið þess valdandi að bifreiðaviðskiptin hefðu átt sér stað. Bent var á, að eignarhaldstími hefði verið allt upp í 5 1/2 mánuð og einhver verðhækkun bifreiða í verðbólgu. Þá yrði að líta til mismunandi greiðslukjara svo og sölulauna og ýmislegs kostnaðar við að gera bifreiðarnar seljanlegri.

Með bréfi, dags. 2. mars 1988, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1986 og 1987 vegna tekjufærslu söluhagnaðar bifreiða 257.735 kr. í reit 76 í framtali 1986 og 52.097 kr. í framtali 1987, enda teldist kærandi ekki hafa sýnt fram á, að söluhagnaðurinn félli undir undanþáguákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, en sönnun fyrir því hvíldi á honum. Af hálfu kæranda var hinum fyrirhuguðu endurákvörðunum skattstjóra mótmælt í bréfi, dags. 18. mars 1988, og því haldið fram, að kærandi hafi gert það líklegt með bréfi, dags. 15. febrúar 1988, að bifreiðirnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði, sbr. orðalag 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Fullar sönnur eins og skattstjóri virtist krefjast væru ógerlegar í slíkum tilvikum, enda krefðust lög ekki slíks. Þá var lögð áhersla á lítið umfang bifreiðaviðskiptanna, verðhækkanir vegna verðbólgu og að viðskiptin stöfuðu af áhuga kæranda á bifreiðum. Með bréfi, dags. 29. apríl 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu endurákvörðunar, sbr. og skattbreytingaseðla, dags. sama dag. Af hálfu kæranda mótmælti umboðsmaður hans breytingunum í kæru, dags. 20. maí 1988, og dró saman helstu rök sín, er fram höfðu komið á fyrri stigum málsins. Með kæruúrskurði, dags. 3. ágúst 1988, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmi ekkert það fram í kæru, sem ekki hefði legið fyrir við hina kærðu endurákvörðun.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. ágúst 1988, og gerir þær kröfur, að tekjufærslu skattstjóra á söluhagnaði vegna sölu bifreiða gjaldárin 1986 og 1987 verði hrundið, enda falli þessi söluhagnaður undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Hann ítrekar áður framkomnar röksemdir og skýringar og skírskotar til framlagðra bréfa við meðferð málsins á skattstjórastigi.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum öllum málavöxtum verður eigi talið, að kæranda hafi tekist að gera líklegt, að umrædd bifreiðaviðskipti hafi ekki farið fram í hagnaðarskyni, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og málinu er háttað verður að telja, að skattstjóri hafi réttilega farið með söluhagnað kæranda eftir 1. mgr. 15. gr. nefndra laga. Út af fyrir sig er eigi ágreiningur um fjárhæðir í máli þessu. Rétt er þó, að fram komi, að frá söluhagnaði af fjórum hinna seldu bifreiða á árinu 1985 alls 292.735 kr. dró skattstjóri sölutap 35.000 kr. af fimmtu bifreiðinni Fiat Uno árg. 1984. Vegna málatilbúnaðar kæranda skal og tekið fram, að skattstjóri tók fullt tillit til tilfærðs viðgerðarkostnaðar 98.736 kr. við ákvörðun söluhagnaðar af jeppabifreið af gerðinni Dodge Ramcharger. Að öðru leyti hefur kærandi enga grein gert fyrir kostnaði, er kynni að koma til álita við ákvörðun söluhagnaðar. Þá kemur eigi fram hjá skattstjóra, að við ákvörðun söluhagnaðar bifreiða seldra á árinu 1986, er nam alls 89.056 kr. dró harm frá fjárhæð þessari sölutap að fjárhæð 36.959 kr. af 1/6 í flugvél, er kærandi seldi á þessu ári. Hefur skattstjóri talið, að sala þessarar eignar lyti sömu skattmeðferð og sala bifreiðanna og að frádráttur sölutaps af eignarhluta í flugvélinni frá söluhagnaði bifreiðanna væri heimill. Eins og mál þetta liggur fyrir þykja hvorki efni til þess að ómerkja breytingu skattstjóra gjaldárið 1987 út af þessu né hagga við fjárhæð söluhagnaðar. Skv. framansögðu verður eigi fallist á þá kröfu kæranda, að skattlagning söluhagnaðar verði felld niður skv. 2. mgr. 15. gr, laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda hefur ekkert uppgjór söluhagnaðar verið lagt fram hvorki með framtölum né við meðferð máls þessa og enga varakröfu hefur hann gert varðandi fjárhæð söluhagnaðar þrátt fyrir það, að af hans hálfu hafi komið fram, að hann hafi lagt í kostnað vegna endurbóta á seldum bifreiðum og greitt sölulaun. Að svo vöxnu og með vísan til þess, sem fyrr greinir, verður látið við þær fjárhæðir söluhagnaðar sitja, sem skattstjóri byggði á.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja