Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 635/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 18. gr. — 57. gr. — 91. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.   Lög nr. 73/1980 — 37. gr.  

Sjálfstæður skattaðili — Sameignarfélag — Lögaðili — Yfirfæranleiki rekstrartaps milli skattaðila — Rekstrartap — Slit sameignarfélags — Lok skattskyldu — Firmaskrá — Tilkynning til firmaskrár — Tímamark slita sameignarfélags — Skattskylda — Framtalsskylda — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Hjón — RIS. 1986.111 — Sameining félaga — Eignarhlutur í sameignarfélagi — Sala eignarhluta í sameignarfélagi

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda, sem er sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, var ekki talið fram til skatts árið 1987. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 var kæranda þó ekki gert að greiða nein opinber gjöld. Með bréfi, dags. 8. febrúar 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju að ákvarða honum opinber gjöld gjaldárið 1987. Kærandi væri sjálfstæður skattaðili, sbr. tilkynningu til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 18. júní 1986. Þann 30. júní 1986 hefði sameignarfélagið og vörubirgðir þess verið seldar. Bæri félaginu því að gera grein fyrir rekstri tímabilsins 1. janúar 1986 til 30. júní 1986 á tilskilinn hátt, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, með framlagningu skattframtals ásamt ársreikningi. Ekki væri að finna heimildir í skattalögum til þess að færa skattaréttarlegar skyldur og réttindi frá félagi, sem væri sjálfstæður skattaðili, til eigenda þess. Ekki hefði verið lagt fram skattframtal X. s.f. árið 1987, en í framtali eins eigenda félagsins, A., væri þó að finna uppgjör v/reksturs X. s.f. 1/1 — 30/6 1986. Það uppgjör hefði skattstjóri í hyggju að leggja til grundvallar ákvörðunar gjaldstofna sameignarfélagsins gjaldárið 1987 að gerðum þeim breytingum að frá hagnaði ársins 1.370.799 kr. drægist ónotað tap 702.563 kr. og stofn til aðstöðugjalds hækki um andvirði seldra vörubirgða 293.000 kr. Eignir, sem eftir stæðu eftir sölu félagsins, skattlegðust með eignum fyrri eigenda þess, en við sölu félagsins félli niður sjálfstæð skattaðild þess, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 17. febrúar 1988, var hinum fyrirhuguðu breytingum skattstjóra mótmælt. Hækkun aðstöðugjaldsstofns um andvirði seldra vörubirgða 293.000 kr. var mótmælt á þeim grundvelli, að um eignabreytingar væri að ræða en ekki rekstrarkostnað, sbr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Þá var tekið fram, að eftir að rekstur kæranda hefði verið seldur hefði sameignarfélaginu verið slitið, enda ekki hægt að selja sameignarfélög, þar sem ábyrgð eigenda væri ótakmörkuð. Við slit félagsins félli niður sjálfstæð skattaðild þess. Tekjum og eignum hefði því verið skipt á eigendur. Ekki væri að finna í skattalögum ákvæði um, að öðruvísi skyldi fara með ónotuð töp sameignarfélaga, sem hefðu verið sjálfstæðir skattaðilar en sameignarfélaga, sem ekki hefðu verið sjálfstæðir skattaðilar við slit þeirra, enda væru réttindi og skyldur eigenda þær sömu. Persónubundin ábyrgð eigenda sameignarfélags gerði það að verkum, að skyldur félagsins yrðu ekki greindar frá eigendum og því hlytu réttindi að fylgja með að sama skapi.

Með bréfi, dags. 1. mars 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 1987. Hann féllst á mótmæli kæranda við hækkun aðstöðugjaldsstofns. Hins vegar taldi skattstjóri að krafa kæranda um skattlagningu rekstrar hans 1. janúar 1986 til 30. júní 1986 hjá öðrum eiganda kæranda, A., ætti ekki við rök að styðjast og skorti stoð í skattalögum. Sjálfstæðri skattaðild kæranda hefði lokið 1. júlí 1986, þar sem þeir aðilar, sem þá hefðu gengið inn í rekstur kæranda hefðu ekki uppfyllt skilyrði 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tilkynning A. og B. til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 18. júní 1986, væri ekki tilkynning um slit sameignarfélagsins heldur tilkynning um eigendaskipti. Framtalsskylda hvíldi því á félaginu vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 1986. Það sjónarmið umboðsmannsins, að ekki væri hægt að selja sameignarfélög, væri ekki í samræmi við 18. gr. laga nr. 75/1981. Varðandi frádrátt rekstrartaps kæranda frá tekjum eiganda vísaði skattstjóri til 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981, er heimiluðu yfirfærslu skattaréttarlegra skyldna og réttinda (s.s. rekstrartapa) milli óskyldra skattaðila. Umrætt tilvik félli ekki undir þau lagaákvæði. Þá skírskotaði skattstjóri til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 111/1986, þar sem fram kæmi, að ónotuð rekstrartöp sameignarfélags, er slitið væri og verið hefði sjálfstæður skattaðili, væri ekki heimilt að draga frá tekjum eigenda þess.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda voru breytingarnar kærðar með kæru, dags. 29. mars 1988, og vísað til framkominna gagna, en áskilinn réttur til framlagningar frekari gagna. Með kæruúrskurði, dags. 18. júlí 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.

III.

Með kæru, dags. 15. ágúst 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og mótmælir breytingum skattstjóra, þ.e. skattlagningu rekstrarins 1. janúar 1986 til 30. júní 1986 hjá kæranda og færslu hans og ónotaðra rekstrartapa af framtali eiganda, A. Færir umboðsmaðurinn fram sömu röksemdir og áður.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með vísan til þeirra forsendna sem skattstjóri byggir á í úrskurði sínum frá 1. mars 1988 er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.“

V.

Skattstjóri hefur byggt á því að kæranda, sem er sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, hafi af hálfu eigenda hans, A. og B., verið slitið 1. júlí 1986, að seldum rekstri félagsins. Verður við þetta tímamark miðað, enda þótt í tilkynningu til firmaskrár sé 18/6 1986 tilgreindur sem söludagur. Sýnist skattstjóri hafa byggt á því, að félagið hafi eftir þessa sölu eigi uppfyllt skilyrði 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 til þess að vera sjálfstæður skattaðili, þar sem kaupendur hafi verið hjón. Samkvæmt því lauk skattskyldu kæranda við þessi slit hans. Bar því að skattleggja kæranda fyrir það tímabil, sem í málinu greinir jafnframt því að eftirstöðvar rekstrartapa kæranda frá fyrri árum koma til frádráttar í þessum skattskilum hans. Þetta rekstrartap lögaðilans var eigendum félagsins óheimilt að draga frá atvinnurekstrartekjum sínum. Er kröfum kæranda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja