Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 643/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 3. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. 1. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Yfirfærðar launatekjur — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Rökstuðningur — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Rökstuðningi úrskurðar áfátt — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi áætlun skattstofna af hálfu skattstjóra að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu stofna skv. heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 30. júní 1988, sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1988 til skattstjóra og fór fram á, að framtalið yrði tekið til álagningar án álags vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem þau stöfuðu af önnum hans, umboðsmannsins. Kærandi, sem er tæknifræðingur, rekur teiknistofu. Hann reiknaði sér endurgjald vegna vinnu sinnar við þessa starfsemi. Nam fjárhæð endurgjaldsins 3.649.500 kr. Í fylgiskjali með skattframtalinu gerði kærandi grein fyrir ákvörðun þessarar fjárhæðar. Kom þar fram, að tekið hefði verið mið af taxta tæknifræðinga eins og hann hefði verið 1. júlí 1987, þar sem settur væri fram leiðbeinandi taxti fyrir starfsmenn með svipaða starfsreynslu og ábyrgð eða 147.886 kr. í mánaðarlaun. Við þessa fjárhæð væri bætt yfirvinnu 110 klst. á mánuði að meðaltali eða 162.675 kr. Skv. þessu væru mánaðarlaun reiknuð 310.561 kr. og árslaun því 3.726.732 kr. Fjárhæðin væri síðan lækkuð í það hámark, sem ákveðið væri í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra 3.649.500 kr.

Skattstjóri tók framtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð þann 7. október 1988. Féllst hann á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 í stað áætlunar án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Skattstjóri gerði breytingar á framtalinu, sem tilgreindar eru í kæruúrskurðinum. Ágreiningsefnið í máli þessu er sú breyting skattstjóra að lækka fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda í 2.230.000 kr., er væri hámark skv. reglum ríkisskattstjóra (Flokkur A 3 + 100%). Þá benti skattstjóri á, að reiknað endurgjald árið 1988 væri 2.220.000 kr. Hækkaði skattstjóri hreinar tekjur kæranda um þá fjárhæð, er þessari lækkun nam.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. nóvember 1988. Kæran er svohljóðandi:

„Í framtali umbjóðanda var gert ráð fyrir að reiknuð laun v/tekjuársins næmu kr. 3.649.500 og með framtali var send sérstök greinargerð um við hvaða endurgjald væri miðað, en sú viðmiðun sýndi, að í raun takmörkuðust hin reiknuðu laun af því hámarki sem ríkisskattstjóri ákvað í viðmiðunarreglum framtalsársins þ.e.:

Liður A 1. Sérmenntaðir menn sem starfa
að sérmenntun minni ásamt sér-
menntuðum starfsmanni 1.622.000.-
+ Hámarkshækkun m.v. venjulegan
vinnutíma (50%) 811.000.-
2.433.000.-
+ Hámarkshækkun v/yfirvinnu (50%) 1.216.500.-
Samtals hámark ríkisskattstjóra 3.649.500.-

Framteljandi vinnur að mestu leyti við járna- og lagnateikningar, og hafði á síðari hluta ársins í þjónustu sinni sérmenntaða aðstoðarmenn, vinnustundafjöldi framteljanda var að meðaltali tæpar 300 stundir á mánuði, og því fellur starfsemi hans og vinnuframlag að því hámarki sem að ofan getur og honum því reiknað ofangreint hámark.

Hvað varðar þá athugasemd skattstjóra, að reiknað endurgjald 1988 sé ákveðið kr. 2.220.000, fær undirritaður ekki séð á hvern hátt það varðar reiknað endurgjald vegna ársins 1987, hér er að sjálfsögðu um varfærna áætlun að ræða, gerða á tíma þar sem mjög óljóst var um verkefni á árinu, auk þess sem skv. gildandi lögum hefur skattþegn janúarmánuð 1989 til að leiðrétta greiðslur staðgreiðsluskatta til samræmis við reiknað endurgjald ársins. Þessi röksemd skattstjóra getur því vart skert rétt skattþegns til að reikna sér sanngjarnt endurgjald fyrir árið 1987, þar sem allar forsendur þess útreiknings eru að sjálfsögðu fyrirliggjandi við ákvörðunina, árið er einfaldlega liðið.

Þess er því farið á leit við nefndina að samþykkt verði það reiknaða endurgjald sem fært var í framtali kr. 3.649.500. Til vara er þess krafist, að umbjóðanda verði heimiluð sú hækkun milli ára sem ákveðin var í gildistökulögum, þ.e. 47% til viðbótar þeim launatekjum sem umbjóðandi minn hafði á árinu 1986 þ.e. kr. 2.015.100 + 47% samt. kr. 2.962.197 og þar með viðurkennt að það sé sú lágmarkshækkun sem öllum þeim er reiknuðu sér endurgjald vegna 1987 var heimil, enda ekki sjáanlegt að neinar forsendur séu til þess að umbjóðandi minn sitji ekki við sama borð og aðrir í þessu efni.“

Með bréfi, dags. 26. september 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Vegna varakröfu kæranda skal tekið fram, að skattstjóri skattlagði eigi hluta reiknaðs endurgjalds kæranda sem yfirfærðar launatekjur eftir þeim sérstöku reglum, sem kveðið er á um í 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Málið varðar efnislega vefengingu á fjárhæð tilfærðs reiknaðs endurgjalds kæranda, er skattstjóri taldi of hátt ákvarðaða af hendi kæranda, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. og 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri lækkaði reiknað endurgjald kæranda til þess er hann taldi hámark í tilviki kæranda skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi tekjuárið 1987. Í þeim efnum byggði ríkisskattstjóri á flokki A 3. tl. í nefndum viðmiðunarreglum að viðbættum þeim hækkunum (100%), sem heimilar eru skv. reglum þessum. Þessi breyting skattstjóra þykir eigi hafa byggst á nægilega traustum grunni og eigi vera svo rökstudd sem skyldi. M.a. hefur kærandi leitt líkur að því að skattstjóri hafi byggt ákvörðun sína á rangri viðmiðunarfjárhæð, þar sem ekki hafi verið horft til aðkeyptrar vinnu sérmenntaðra starfsmanna. Þá liggur fyrir, að launatekjur kæranda tekjuárið 1986 frá Teiknistofunni s.f. voru 1.095.100 kr. og reiknað endurgjald sama ár vegna teiknistofureksturs nam 920.000 kr. eða samtals 2.015.100 kr. Launatekjur þessar voru vegna 20 vikna vinnu. Með tilkynningu til firmaskrár dags. 1. júní 1986, mótt. 1. sept. s.á., tilkynnti kærandi, að hann ræki einkafyrirtækið X. Ekki haggaði skattstjóri við tilfærðu reiknuðu endurgjaldi gjaldárið 1987. Þótt tilfært reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 1988 sýnist nokkuð um skör fram þá þykir hin kærða breyting skattstjóra í þeim mæli ómarkviss og órökstudd, að eigi þykir hjá því komist að ómerkja hana. Að svo vöxnu verður í úrskurði þessum eigi tekin efnisleg afstaða til fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja