Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 699/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A—liður 1. tl. 2. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 3. mgr.  

Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga - Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Reiknað endurgjald – Yfirfærðar launatekjur – Skattlagning hluta reiknaðs endurgjalds sem yfirfærðra launatekna – Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra – Viðmiðunarflokkur reiknaðs endurgjalds - Lögmaður

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er starfandi lögmaður, reiknaði sér endurgjald vegna vinnu sinnar við þá starfsemi árið 1987, að fjárhæð 2.870.000 kr. Tilfært reiknað endurgjald hans við sömu starfsemi tekjuárið 1986 nam 1.390.000 kr.

Með bréfi, dags. 3. júní 1988, krafði skattstjóra kæranda um rökstudda greinargerð fyrir tilfærðu reiknuðu endurgjaldi gjaldárið 1988, þar sem m.a. kæmi fram vinnutími, tegund vinnu, sundurliðaður útreikningur á hinum reiknuðu launum og hvernig sá útreikningum grundvallaðist. Þá var óskað skýringa á hækkun reiknaðs endurgjalds milli rekstraráranna 1986 og 1987. Í bréfinu skírskotaði skattstjóra til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. júní 1988, kom m.a. fram, að við ákvörðun reiknaðs endurgjalds gjaldárið 1988 hefði m.a. verið stuðst við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, útgefnar 11. janúar 1988 svo og tekið tillit til umfangs starfsins tekjuárið 1987. Hins vegar væri útilokað eðli málsins samkvæmt að gera þá grein fyrir hinum umspurðu atriðum, sem skattstjóri krefðist. Fram kom, að kærandi hefði um áratugaskeið rekið lögmannsstofu og laun hans væru afrakstur þeirra starfsemi. Vinnutími væri mjög breytilegur og unnið að fjölda mála samtímis, er tækju mjög mismunandi tíma. Ógerlegt væri því að tiltaka þann tíma, sem færi í hvert mál. Gjald fyrir störfin væri ákveði skv. gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, en nokkur tilviljun réði því, hverjar tekjurnar væru frá ári til árs, er réðist af stærð þeirra mála sem kærandi hefði með höndum hverju sinni. Tekjuárið 1987 hefði verið óvenjulegt að því leyti, að þá hefði stórum og viðamiklum málum lokið og því óvenjumiklar tekjur á því ári. Væri það skýringin á hinni miklu teknahækkun milli áranna 1986 og 1987.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að 640.000 kr. af tilfærðu reiknuðu endurgjaldi hans teldust til yfirfærðra tekna og skattlegðust í samræmi við það, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Segir svo nánar um þetta:

„Á skattframtali yðar 1988 færið þér til tekna reiknað endurgjald að fjárhæð kr. 2.870.000. Með bréfi dags. 3. (sic) júní sl. er gerð nánari grein fyrir ákvörðun þess á framhaldi af fyrirspurn skattstjóra þar að lútandi. Þar kemur fram að endurgjaldið er nákvæmlega miðað við flokk B2 (sic) í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra með hæfilegu hámarksfráviki. Hins vegar verður eigi annað séð með hliðsjón af launagreiðslum samkvæmt rekstrarreikningi en þér fallið undir flokk Bl (sic). Með vísan til þess og ofangreindra lagaákvæða teljast því kr. 640.000 af hinu reiknaða endurgjaldi til yfirfærðra launatekna og tekur álagning opinberra gjalda yðar gjaldárið 1988 mið af því. “

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari ákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 10. ágúst 1988. Kom fram, að fjárhæð reiknaðs endurgjalds væri sniðin eftir flokki A-2 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra með hámarksfráviki. Þeirri túlkun var mótmælt að miða bæri við flokk B-l. Starfstétt kæranda væri sérstaklega tilgreind í A flokki. Reiknað endurgjald kæranda árin 1984—1987 hafi ávallt verið yfir viðmiðunarflokki A-l. Þess var krafist, að endurgjaldið yrði látið óhreyft standa.

Með kæruúrskurði, dags. 15. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Í úrskurðinum leiðrétti skattstjóri tilvísanir sínar í viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Att hafi verið við flokka A-2 og A-3 í stað B-l og B-2. Þá segir svo í úrskurðinum:

„Í kærunni er minnst á reiknuð laun kæranda á fyrri árum. Er því rétt að skoða hver þau voru og hver þau hefðu átt að vera ef notuð er viðmiðun kæranda nú svo og sú sem gengið var út frá við hina kærðu álagningu. Í sviga aftan við reiknuð laun hvers árs koma því þessar fjárhæðir og þá viðmiðun kæranda á undan. Á skattframtali 1983 eru reiknuð laun kr. 200.700 (474.000 og 382.000), á skattframtali 1984 kr. 373.500 (754.000 og 592.000), á skattframtali 1985 kr. 535.000 (904.000 og 710.000), á skattframtali 1986 kr. 680.000 (1.626.000 og 1.324.000) og á skattframtali 1987 kr. 1.390.000 (2.136.000 og 1.720.000). Öll þessi ár er nánast engin fjárhæð í reit 62 nema á skattframtali 1986, kr. 365.824.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort starfsemi kæranda falli undir flokk A-2 eða A-3 samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra til ákvörðunar reiknuðu endurgjaldi.

Undir A-3 falla sérmenntaðir menn sem starfa einir að sérgrein sinni og falla ekki undir A-l eða A-2. Þeir sömu falla og undir A-3 þótt þeir hafi greitt laun sem nema árslaunum aðstoðarmanns sem ekki er sérmenntaður. Þar sem kærandi fellur ekki undir upptalningu í A-l eða A-2 enda eigi fallist á að með ráðgjafarsérfræðingum sé átt við lögmenn og greidd laun fara eigi fram úr árslaunum er það niðurstaða úrskurðar þessa að kærandi tilheyri flokki A-3.“

Með kæru, dags. 25. nóvember 1988, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu umboðsmanns kæranda. Þess er krafist, að enginn hluti reiknaðs endurgjalds kæranda verði talinn yfirfærðar launatekjur skv. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Umboðsmaðurinn gerir þá athugasemd við samanburð skattstjóra á fjárhæðum reiknaðs endurgjalds á framtölum 1983—1987, að skattstjóri taki fjárhæðir skv. flokkum A-2 og A-3 með 100% álagi en reiknað endurgjald þessi ár sé án álags. Álag hafi verið notað gjaldárið 1988 vegna sérstaklegra mikilla umsvifa tekjuárið 1987. Séu fjárhæðirnar skoðaðar í réttu samhengi verði ekki séð að óeðlilegt sé að miða við flokk A-2, þegar litið sé til reiknaðra launa þetta tímabil. Gerir umboðsmaðurinn tölulega grein fyrir þessu. Krefst hann þess, að miðað verði við flokk A-2. Jafnframt bendir umboðsmaðurinn á, að viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra séu aðallega til leiðbeiningar. Þá er til þess vísað, að kærandi hafi á yfirstandandi ári miðað reiknað endurgjald sitt við flokk A-2. Ennfremur hafi verið farið eftir orðalagi viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra, en augljóst sé að lögfræðingar geti valið sér flokk A-2 samkvæmt því. Færir umboðsmaðurinn nokkur rök fyrir því, að flokkur þessi eigi við um starf kæranda samkvæmt orðanna hljóðan.

Með bréfi, dags. 26. september 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ágreiningurinn í máli þessu sýnist vera um það, hvaða flokk í nefndum viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds tekjuárið 1987, dags. 11. janúar 1988, beri að miða við í tilviki kæranda. Málið þykir bera að virða svo, að nægjanlega sé fram komið, að hin umdeilda fjárhæð „yfirfærðra tekna“ sé öll umfram þau mörk, sem sett eru í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er kröfu kæranda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja