Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 37/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 32. gr. — 33. gr. — 55. gr. 1. mgr. 1. og 2. tl. — 55. gr. A  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fyrning — Fyrningartími — Fyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Fyrnanleg eign — Sérstök fyrirframfyrning — Fyrirframfyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrirframfyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Álag — Álag á tekjufært fjárfestingarsjóðstillag — Ráðstöfun fjárfestingarsjóðstillags — Bifreið — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé

Kærandi tekjufærði fjárfestingarsjóðstillag, er nam framreiknað 718.152 kr., og nýtti hina skattskyldu fjárhæð til sérstakrar fyrningar fasteignar að X, Reykjavík. Skattstjóri felldi fyrninguna niður og bætti álagi á fjárhæð uppleysts fjárfestingarsjóðs, þar sem skilyrði 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 11. gr. laga nr. 8/1984, væru ekki uppfyllt með því að umrædd fasteign hefði verið tekin í notkun þegar árið 1986, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 11. nóvember 1988.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. nóvember 1988. Er kæran svohljóðandi:

„Í framhaldi af kæru til skattstofu Reykjavíkur dags. 10.08. 1988, og svari hennar frá 11.11., sl., leyfi ég mér að skjóta kærunni til úrskurðar háttvirtrar ríkisskattanefndar.

Umbjóðandi minn eignaðist bifreið í árslok 1987, sendibifreið, M. Bens, sem var keypt innflutt notuð. - Ekki tókst að skrásetja bifreið þessa fyrir lok ársins 1987, en áfallinn kostnaður vegna kaupanna kr. 980.914,00, var færður í efnahagsreikningi pr. 31.12. 1987, sem fyrirframgreiddur kostnaður.

Hér með fer ég fram í að tillag það í fjárfestingarsjóð, sem rætt er um í nefndu bréfi skattstofu kr. 608.861,00 auk endurmats að upphæð kr. 109.291,00, samtals kr. 718.152,00 verði fyrnt yfir á þessa bifreið félagsins, sem myndi teljast fyrirframfyrning af eign sem ætluð er til tekjuöflunar, en hefur ekki á þessu tímabili verið tekin í notkun.“

Með bréfi, dags. 20. desember 1989, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum.

Að því virtu, sem nú er upplýst um nefndan eignalið, og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda, sbr. 2. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja