Úrskurður yfirskattanefndar

  • Félagsslit
  • Arðstekjur
  • Álag

Úrskurður nr. 269/2014

Gjaldár 2010

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 4. tölul., 11. gr. 1. og 4. mgr., 96. gr., 108. gr. 2. mgr.  

Ágreiningur í máli þessu laut að því hvort greiðsla fjármuna til kæranda í desember 2009 frá erlendu félagi í eigu hans, X, hefði verið vegna venjulegrar arðsúthlutunar frá félaginu, eins og ríkisskattstjóri taldi, eða verið þáttur í úthlutun fjármuna í tengslum við slit X, eins og kærandi hélt fram. Yfirskattanefnd taldi að virtum gögnum málsins að ganga mætti út frá því að ákvörðun um slit X hefði legið fyrir af hálfu kæranda á árinu 2009. Þótti hin umdeilda yfirfærsla verðmæta frá félaginu til kæranda í desember 2009, sem tók til mikils meirihluta eigna félagsins, hafa ríkari einkenni úthlutunar við félagsslit en venjulegrar arðsúthlutunar. Var tekjufærsla ríkisskattstjóra lækkuð, en ákvörðun hans um beitingu 25% álags var staðfest.

I.

Með kæru, dags. 14. maí 2013, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. apríl 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2010. Er kæruefni málsins sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda, G, til tekna meintar vantaldar arðstekjur frá erlendu félagi í þeirra eigu, X S.A., að fjárhæð 15.316.717 kr. í skattframtali árið 2010, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 11. gr.sömu laga. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við þá hækkun fjármagnstekjuskattsstofns kærenda gjaldárið 2010 sem leiddi af greindri breytingu, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álagsins 3.829.179 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ómerktur og að kærendum verði ákvarðaður málskostnaður samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða að mati yfirskattanefndar.

II.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn var upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kæranda, G, dags. 4. nóvember 2011 og 1. mars 2012, svo og boðunarbréf til kærenda, dags. 9. október 2012, og svarbréf umboðsmanns kærenda, dags. 15. nóvember 2012. Í úrskurði sínum rakti ríkisskattstjóri að í skattframtali kærenda árið 2001 væri gerð grein fyrir kaupum kæranda, G, á hlutabréfum að nafnverði 1.250.000 kr. í X S.A. á árinu 2000 og væri kaupverð bréfanna tilgreint 25.000.000 kr. Kaupverðið væri síðan niðurfært í skattframtalinu um 12.000.000 kr., þ.e. í 13.000.000 kr., vegna söluhagnaðar annarra hlutabréfa. Hlutabréfaeign í X S.A. væri talin fram til eignar í skattframtölum kærenda árin 2002, 2003, 2004, 2005, 2006, 2008, 2009, 2010 og 2011, en ekki væri gerð grein fyrir hlutabréfaeigninni í skattframtali árið 2007. Þá hefði kærandi ekki fært til tekna arðstekjur frá X S.A. gjaldárin 2002-2012. Í skattframtali árið 2012, sbr. greinargerð RSK 3.19, væri síðan gerð grein fyrir sölu á öllum hlutabréfum kæranda í X S.A. og væri bæði söluverð og stofnverð hlutabréfanna tilgreint 20.500.000 kr.

Ríkisskattstjóri tók fram að mál kæranda væri til komið vegna athugunar embættisins á aflandsfélögum. Kvaðst ríkisskattstjóri hafa undir höndum ýmsar upplýsingar og gögn frá fyrirtækjaskránni í Lúxemborg. Fram kæmi í tilkynningu til fyrirtækjaskrárinnar í Lúxemborg að X S.A. hefði verið stofnað hinn 29. desember 2000. Þar kæmi einnig fram að félagið starfaði samkvæmt sérstökum lögum um eignarhaldsfélög frá 31. júlí 1929, þ.e. væri svokallað „1929 félag“, en slík félög greiddu hvorki skatta af tekjum sínum í Lúxemborg né hefðu með höndum rekstrarlega starfsemi þar í landi. Jafnframt hefði ríkisskattstjóri undir höndum ársreikninga X S.A. frá 2001 til og með 2009. Þá væri fyrirliggjandi tilkynning til fyrirtækjaskrárinnar í Lúxemborg um slit X S.A., dags. 15. desember 2010, þar sem fram kæmi að kærandi væri framkvæmdastjóri og fyrirsvarsmaður félagsins og eigandi að öllu hlutafé í félaginu við slit þess. Þá væri kærandi jafnframt tilgreindur sem ábyrgðarmaður á slitum félagsins. Nafnverð hlutafjár félagsins hefði samkvæmt stofngögnum og tilkynningu um slit verið 2.500.000 kr.

Ríkisskattstjóri greindi frá því að samkvæmt upplýsingum í framlögðum tölvupósti starfsmanns Banque Havilland S.A. í Lúxemborg, dags. 26. ágúst 2009, og tilkynningu frá nefndum banka, dags. 29. desember 2009, sem borist hefði embættinu 15. nóvember 2012, og innsendu persónulegu eignayfirliti (e. portfolio summary) kæranda í Lúxemborg með opnunardagsetningu 18. desember 2009, sem embættið hefði móttekið 14. janúar 2013, hefði kærandi fengið úthlutað inn á persónulegt eignasafn sitt í Lúxemborg eignir að verðmæti 15.316.717 kr. frá X S.A. í árslok 2009. Um hefði verið að ræða skuldabréf (Iceland Housing Finance Fund & Republic of Iceland T-notes) að verðmæti 14.444.409 kr., hlutabréf í A PLC að verðmæti 67.439 kr. og bankainnstæðu að fjárhæð 804.869 kr. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 teldist til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræddi í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda er telja yrði sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.

Vegna framkominna sjónarmiða í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 1. mars 2013, um að X S.A. hefði í raun verið slitið í árslok 2009 áréttaði ríkisskattstjóri að tilkynning til fyrirtækjaskrárinnar í Lúxemborg um slit félagsins væri dagsett 15. desember 2010. Í tilkynningunni kæmi fram að kærandi, G, myndi sem framkvæmdastjóri félagsins og eini hluthafi bera ábyrgð á slitum félagsins sem skiptastjóri. Þá myndi hann m.a. afhenda fyrirtækjaskránni skriflega yfirlýsingu um að allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar skuldir félagsins hefðu verið greiddar, um að starfsemi félagsins væri lokið o.fl. til þess að unnt væri að slíta félaginu. Þá væri jafnframt fyrirliggjandi eignayfirlit X S.A., dags. 1. febrúar 2011. Ríkisskattstjóri gæti því eigi annað en litið svo á að slitauppgjör félagsins hefði farið fram þann sama dag og eignayfirlitið væri dagsett, þ.e. í ársbyrjun 2011. Væri það í samræmi við tilgreinda sölu á öllum hlutabréfum kæranda í X S.A. í greinargerð RSK 3.19 með skattframtali kærenda árið 2012, en þar hefði kærandi sjálfur gert grein fyrir sölu hlutabréfanna í ársbyrjun 2011. Þá kæmi einnig fram í andmælabréfi umboðsmanns að engar upplýsingar lægju fyrir hvenær beiðni um slit hefði verið sett fram, málshraða slíkra mála í Lúxemborg o.s.frv. Úthlutunin á árinu 2009 gæti því eigi fallið undir yfirtöku eigna vegna félagsslita og kæmi því skattalegt stofnverð hlutabréfanna ekki til frádráttar. Ekki skipti máli í þessu sambandi hvort kærandi hefði fært umræddar eignir til Íslands eða verið með þær á vörslureikningi í Lúxemborg. Eignirnar hefðu verið færðar af reikningi félagsins yfir á persónulegan reikning kæranda löngu áður en tilkynnt hefði verið um slitameðferð félagsins og þar af leiðandi væri um að ræða úthlutun á verðmætum félagsins til eiganda samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

Þá fjallaði ríkisskattstjóri nánar um slit X S.A. á árinu 2011 og tók fram í því sambandi að samkvæmt innsendu eignayfirliti hefðu eignir X S.A. við slit þann 1. febrúar 2011 verið skuldabréf (e. bonds) að verðmæti 4.846.163 kr. og bankainnstæður (e. cash) að fjárhæð 529.257 kr., eða samtals 5.375.420 kr. Þar sem skattalegt stofnverð hlutabréfanna í hendi kæranda hefði verið 13.000.000 kr., sbr. niðurfærslu kaupverðs hlutabréfa í skattframtali hans árið 2001, hefði ekki verið um að ræða úthlutun umfram skattalegt stofnverð í samræmi við 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Vegna þeirrar athugasemdar í andmælabréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 1. mars 2013, að engin ávöxtun hefði verið af fjárfestingu kæranda í félaginu og í ljósi þess væri aukaatriði hvenær endanleg slit hefðu farið fram, enda yrði niðurstaða málsins alltaf hin sama, áréttaði ríkisskattstjóri að skattalegt stofnverð hlutafjárins í X S.A. í hendi kæranda hefði verið 13.000.000 kr., en ekki 25.000.000 kr. eins og umboðsmaðurinn ýjaði að. Yrði talið að kærandi hefði fengið úthlutaðar samtals 20.692.137 kr. (15.316.717. kr. + 5.375.420 kr.) við slit félagsins, eins og umboðsmaður kæranda byggði á, hefði kærandi átt að færa sér til tekna arðstekjur að fjárhæð 7.692.137 kr. (20.692.137 kr. – 13.000.000 kr.) vegna úthlutunar við slit félagsins sem umfram hefði verið skattalegt stofnverð í samræmi við 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Ályktun umboðsmanns væri því ekki rétt.

Samkvæmt framansögðu væri greind fjárhæð 15.316.717 kr. færð til tekna sem arðstekjur kæranda gjaldárið 2010. Þar sem umrædd úthlutun hefði farið í árslok 2009 skattlegðust arðstekjurnar í 15% þrepi fjármagnstekjuskatts, sbr. 2. mgr. ákvæðis XXIX til bráðabirgða í lögum nr. 90/2003.

Til stuðnings álagsbeitingu vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði vantalið arðstekjur frá X S.A. í skattframtali árið 2010. Hefði kæranda mátt vera það ljóst sem eina eiganda félagsins og viðtakanda eignanna, hvort sem slíkt hefði verið gert með ásetningi eða gáleysi. Að framangreindu virtu og í ljósi þess að um vantaldar tekjur væri að ræða teldi ríkisskattstjóri fulla ástæðu vera fyrir hendi til að beita álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er rakið að kærandi, G, hafi á árinu 2000 keypt félagið X S.A. í Lúxemborg ásamt bróður sínum ... og hafi hvor um sig lagt 25.000.000 kr. til kaupanna. Tilgangur félagsins hafi verið að stunda viðskipti með eignarhluti í félögum. Hafi þeir verið sammála um að engum arði skyldi úthlutað úr félaginu, en þess í stað skyldi nota hugsanlegan hagnað til fjárfestinga. [Bróðir kæranda] hafi selt eignarhluta sinn á árinu 2006. Rekstur félagsins hafi gengið sæmilega á árunum 2000 til 2007, en síðan hafi farið að halla undan fæti hjá félaginu og hafi svo farið að lokum að kærandi hefði ákveðið að taka út allar eignir þess að frádregnum skuldum.

Til stuðnings kröfu um ógildingu á úrskurði ríkisskattstjóra vísar umboðsmaður kærenda í fyrsta lagi til þess að annmarkar séu á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Við uppgjör og framtal þeirra tekna, sem um sé deilt í málinu, hafi kærandi, G, gengið út frá því að um væri að ræða úthlutun við félagsslit. Ríkisskattstjóri byggi hins vegar á því að kærandi hafi fengið greiddan venjulegan arð samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Ekkert liggi þó fyrir um það. Þannig hafi ríkisskattstjóri ekki kallað eftir upplýsingum um hvernig staðið hafi verið að ákvörðun úthlutunarinnar, hvort nægilegt eigið fé hafi verið til staðar til arðgreiðslna o.s.frv. Virðist þannig skorta á rannsókn málsins. Auðvitað séu kærendur þakklát fyrir að vera ekki skattlagðir eins og um óheimila úthlutun hafi verið að ræða, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, hvað þá aðrar tekjur, sbr. 9. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessu sé kannski réttast að ómerkja úrskurð ríkisskattstjóra af formlegum ástæðum.

Í öðru lagi er krafa kæranda byggð á því að í raun hafi X S.A. verið slitið haustið 2009. Hafi greiðsla fjármuna frá félaginu yfir á persónulega reikninga kæranda 31. desember 2009 verið þáttur í úthlutun við slit félagsins. Í kærunni er vísað til þess að fyrir liggi tölvubréf, dags. 17. september 2009, frá starfsmanni Banque Havilland S.A. til kæranda þar sem lagt sé til að af skattalegum ástæðum verði X S.A. leyst upp, þ.e. slitið, að þetta ferli verði sett af stað hið fyrsta, enda geti tekið tíma að leysa félagið upp, og að kærandi fái eignir félagsins lagðar inn á persónulegan reikning sinn í bankanum. Í framhaldi af frekari samskiptum hafi kærandi lagt fyrir starfsmann bankans að slíta félaginu, sbr. tölvubréf kæranda, dags. 29. september 2009, sem fylgi kæru.

X S.A. hafi verið skuldlaust eins manns félag og slitin til þess að gera einföld. Óvissa hafi hins vegar verið um slitakostnað. Samkvæmt eignayfirliti á slitadegi 29. september 2009 hafi félagið átt verðbréf að markaðsverði um 14 millj. króna og inneignir á bankareikningi að fjárhæð 5 millj. króna. Þegar ákveðið hafi verið að slíta félaginu í árslok 2009 hafi því ekkert verið því til fyrirstöðu að yfirfæra verðbréfin á nafn eiganda. Hins vegar hafi menn metið það svo að skynsamlegra væri að geyma úthlutun peninganna þar til greiðslu óvissra krafna væri lokið. Á þessum tímapunkti hafi félaginu því talist slitið þótt eiginleg afskráning úr félagaskrá í Lúxemborg hafi ekki átt sér stað fyrr en 15. desember 2010. Samkvæmt þessu hafi liðið um eitt ár frá ákvörðun um slit félagsins fram að afskráningu úr félagaskrá og þótt það sé vissulega langur tími miðað við íslenskan mælikvarða þá þurfi það ekki að vera langur tími á lúxemborgskan mælikvarða. Engar upplýsingar lægju fyrir hvenær beiðni um slit hefði verið sett fram, málshraða slíkra mála í Lúxemborg o.s.frv. Um þessar mundir hafi íslenska hagkerfið verið svo til lokað. Hömlur hefðu verið settar á fjármagnsflutninga milli Íslands og annarra landa. Ekki hafi því mátt flytja gjaldeyri til og frá landinu nema með leyfi Seðlabankans. Umsókn og afgreiðsla slíks leyfis hafi tekið tíma og hafi ekki verið unnt að flytja peningana sem kærandi fékk úthlutaða í tengslum við slitin hingað til lands fyrr en árið 2011.

Við framtalsgerð vegna tekjuársins 2011 hafi kærandi loks fellt niður hlutabréfaeign sína í X S.A. Hafi það verið gert með því að jafna saman endanlegri úthlutun að fjárhæð um 20 millj. króna og hinu upphaflega kaupverði að fjárhæð 25 millj. króna. Engin ávöxtun hafi því verið af fjárfestingunni og eðlilega hafi því ekki þurft að gera grein fyrir úthlutuninni sem arði. Auðvitað megi deila um réttmæti þessa framtalsmáta, en ef til vill hefði verið réttara að telja úthlutunina fram hlutfallslega árin 2010 og 2011 eftir því sem hún greiddist. Aðalatriðið sé samt að yfir allan vafa sé hafið að kærandi hafi ekki haft tekjur af fjárfestingunni og í ljósi þessa sé aukaatriði hvenær endanlegt framtal hafi farið fram. Niðurstaða málsins verði nefnilega alltaf eins. Sé þess því krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ómerktur þannig að skattframtal kæranda árið 2010 standi óbreytt.

IV.

Með bréfi, dags. 8. júlí 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í kæru umboðsmanns kærenda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ómerktur vegna formannmarka. Byggir umboðsmaðurinn kröfu sína á því að skort hafi á rannsókn málsins og að tilgreining teknanna í hinum kærða úrskurði byggi á „[...] getsökum.“

Af málavöxtum hins kærða úrskurðar er ljóst að ríkisskattstjóri aflaði m.a. ítarlegra gagna um úthlutanir frá X S.A. til kærenda og byggði m.a. fjárhæðir úthlutana og tímamark þeirra á upplýsingum sem stöfuðu frá kærendum sjálfum, sbr. andmælabréf umboðsmannsins, dags. 15. nóvember 2012, og tölvupósti og fylgiskjölum með honum, dags. 30. janúar 2013.

Í hinum kærða úrskurði er lagt til grundvallar annars vegar að um tekjur af hlutafjáreign hafi verið að ræða, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hins vegar að um úthlutun vegna félagsslita hafi verið að ræða, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Rétt er að taka fram að skýrt kemur fram í fyrirliggjandi gögnum afstaða umboðmannsins til umræddra tekna, þ.e. að um greiðslurnar hafi verið í tengslum við slit X S.A. Þar sem ekki var sérstaklega fjallað um hvort umræddar tekjur gætu fallið undir 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 eða 9. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, eins og umboðsmaðurinn vísar til, er ljóst að fullnægjandi upplýsingar lágu fyrir hjá ríkisskattstjóra við úrlausn málsins. Þær upplýsingar sem umboðsmaðurinn vísar til að ríkisskattstjóri hafi ekki aflað hefðu ekki varpað frekari ljósi á málavexti eins og mál kærenda er upp byggt.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. júlí 2013, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2013, hefur umboðsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum.

V.

Eins og fram er komið er í máli þessu deilt um það hvort greiðsla fjármuna til kæranda, G, frá erlendu félagi í eigu hans, X S.A., sem ágreiningslaust er að farið hafi fram í desember 2009, hafi verið vegna venjulegrar arðsúthlutunar frá félaginu samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða verið þáttur í úthlutun fjármuna í tengslum við slit félagsins, sbr. ákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri byggði á hinu fyrrnefnda og færði kæranda umrædda greiðslu að fjárhæð 15.316.717 kr. til tekna í skattframtali hans árið 2010 sem arðstekjur frá félaginu á árinu 2009. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til þess að X S.A. hefði ekki verið slitið fyrr en í febrúar 2011 og að úthlutunin á árinu 2009 gæti því ekki fallið undir yfirtöku eigna vegna félagsslita. Af hálfu kærenda er gerð krafa um að breytingu ríkisskattstjóra verði hnekkt, enda hafi ákvörðun um slit X S.A. verið tekin í september 2009, þótt formlega hafi félagið ekki verið afskráð fyrr en í desember 2010, og verði að líta svo á að umrædd greiðsla í desember 2009 hafi staðið í tengslum við slitin.

Í kæru til yfirskattanefndar eru gerðar nokkrar athugasemdir við málsmeðferð ríkisskattstjóra. Ekki verður fallist á með kærendum að ríkisskattstjóri hafi vanrækt rannsóknarskyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, við meðferð málsins. Er þá haft í huga að ekki verður séð að neinn ágreiningur sé í málinu um að X S.A. hafi verið heimilt að lúxemborgskum lögum að greiða arð með umræddri fjárhæð til kæranda á árinu 2009, svo sem ríkisskattstjóri taldi að gert hefði verið, en í kæru til yfirskattanefndar kemur raunar fram að kærendur líta svo á að út af fyrir sig sé það þeim til hags, miðað við forsendur ríkisskattstjóra, að telja arðgreiðsluna hafa verið lögmæta. Verður hin umdeilda ákvörðun ríkisskattstjóra ekki felld úr gildi á þeim grundvelli að málsmeðferð hans hafi verið ábótavant.

Samkvæmt gögnum málsins var X S.A. stofnað í Lúxemborg þann 29. desember 2000. Jafnframt liggja fyrir gögn um slit félagsins í desember 2010. Kemur fram í úrskurði ríkisskattstjóra að félagið hafi verið eignarhaldsfélag (f. société anonyme holding) og lotið sérstökum lögum í Lúxemborg frá 31. júlí 1929, þ.e. verið svokallað „1929 félag“, en slík félög greiddu hvorki skatta af tekjum sínum í Lúxemborg né höfðu með höndum raunverulega starfsemi þar í landi. Er slíkra félaga sérstaklega getið í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Lúxemborgar sem gerður var í Lúxemborg á árinu 1999, sbr. auglýsingu nr. 19, 19. september 2001 í C-deild Stjórnartíðinda, en í 28. gr. tvísköttunarsamningsins kemur fram að samningurinn taki hvorki til félaga af umræddum toga né til fyrirtækja sem svipuð fjármálalöggjöf gildi um í Lúxemborg. Þá skuli samningurinn ekki heldur taka til tekna sem aðili heimilisfastur á Íslandi fái frá slíkum félögum né til hluta eða annarra réttinda sem slíkur aðili eigi í þeim.

Af hálfu kæranda, G, er komið fram að hann hafi ásamt bróður sínum stofnað eða keypt hlut í X S.A. á árinu 2000 og hafi framlag kæranda numið 25.000.000 kr. Keypt hlutafé kæranda var að nafnverði 1.250.000 kr. og verður að ætla að mismunurinn 23.750.000 kr. hafi verið færður á yfirverðsreikning innborgaðs hlutafjár. Ljóst er samkvæmt þessu að kaupverð (stofnverð) hlutafjár kæranda í félaginu nam 25.000.000 kr., sbr. ákvæði um stofnverð eigna í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003. Fram er komið að í skattframtali kærenda árið 2001 var stofnverð hlutabréfanna fært niður úr 25.000.000 kr. í 13.000.000 kr. vegna söluhagnaðar annarra hlutabréfa. Er óumdeilt í málinu að um hafi verið að ræða lögmæta ráðstöfun í skattskilum kærenda, að því er ætla verður á grundvelli 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 149/2000, sem taka beri tillit til við ákvörðun á stofnverði hlutabréfa í X S.A.

Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 skal við slit félags sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, telja úthlutun umfram kaupverð hlutabréfanna til arðs í skilningi 11. gr. laganna. Ekki þykja standa nein efni til annars en að skýra ákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 að þessu leyti til samræmis við almenn ákvæði um uppgjör söluhagnaðar af hlutabréfum í 18. gr. sömu laga, enda verður hvorki af ákvæðinu sjálfu né lögskýringargögnum með því ráðið að leggja beri annan skilning til grundvallar að því er snertir túlkun hugtaksins „kaupverð“ í ákvæðinu. Má í þessu sambandi jafnframt vísa til úrskurða yfirskattanefndar nr. 368/2005 og 100/2007 sem báðir eru birtir á vef nefndarinnar (www.yskn.is).

Í skattskilum sínum gjaldárið 2012 gerði kærandi grein fyrir sölu allra hlutabréfanna í X S.A. fyrir 25.000.000 kr. og var stofnverð þeirra jafnframt tilgreind sú fjárhæð. Eins og ríkisskattstjóri bendir á var þessi framtalsgerð röng, þótt miðað væri við forsendur kæranda í kæru til yfirskattanefndar, enda tók kærandi ekki tillit til fyrrgreindrar niðurfærslu í skattframtali árið 2001 við tilgreiningu stofnverðs auk þess sem tilgreint söluverð hlutabréfa (úthlutun við félagsslit) var tilfært með of hárri fjárhæð miðað við gögn málsins. Er þá ótalið að ekki fékk staðist að gera ekki grein fyrir félagsslitunum fyrr en í skattskilum vegna tekjuársins 2011.

Ekki eru efni til að draga í efa skýringar kæranda um að hann hafi í september 2009 lagt fyrir starfsmann Banque Havilland S.A. í Lúxemborg, sem mun hafa annast málefni X S.A., að hlutast til um slit félagsins, enda liggja fyrir gögn um þetta, þar sem einnig kemur fram að mikilvægt sé að ljúka skiptum og úthlutun eigna til kæranda fyrir ársbyrjun 2010. Hin umdeilda greiðsla X S.A. til kæranda að fjárhæð 15.316.717 kr. í desember 2009 fólst í því að tilteknar eignir félagsins voru færðar á nafn kæranda. Var þar í fyrsta lagi um að ræða húsbréf og ríkisbréf að verðmæti 14.444.409 kr., í öðru lagi hlutabréf í A PLC að verðmæti 67.439 kr. og í þriðja lagi bankainnstæðu að fjárhæð 804.869 kr. Samkvæmt gögnum málsins stóðu þá eftir í bókum félagsins skuldabréf að verðmæti 4.846.163 kr. og bankainnstæður að fjárhæð 529.257 kr., eða samtals eignir að fjárhæð 5.375.420 kr. Umrædd yfirfærsla verðmæta í desember 2009 tók samkvæmt þessu til mikils meirihluta eigna félagsins. Samkvæmt þessu og eins og að yfirfærslunni var staðið þykir hún hafa ríkari einkenni úthlutunar við félagsslit en venjulegrar arðsúthlutunar. Sem fyrr segir verður að ganga út frá því að ákvörðun um félagsslitin hafi legið fyrir af hálfu kæranda á þessum tíma. Að svo vöxnu þykir mega fallast á sjónarmið kæranda um eðli greindrar eignayfirfærslu.

Framangreind niðurstaða þykir þó ekki geta leitt til þess að krafa kæranda um ómerkingu á úrskurði ríkisskattstjóra verði tekin til greina, enda stendur óhaggað að kærandi fékk úthlutaðri greindri fjárhæð á árinu 2009 sem hann gerði ekki grein fyrir í skattframtali árið 2010. Í úrskurði ríkisskattstjóra kemur fram að yrði litið svo á að úthlutun við félagsslit hefði numið samtals 20.692.137 kr. (15.316.717 kr. + 5.375.420 kr.), svo sem kærandi héldi fram, teldust skattskyldar arðstekjur samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 nema 7.692.137 kr. (20.692.137 kr. – 13.000.000 kr.). Af hálfu kæranda hafa út af fyrir sig ekki verið gerðar athugasemdir við þetta. Er tekjufærsla ríkisskattstjóra því lækkað úr 15.316.717 kr. í 7.692.137 kr. Ákvörðun ríkisskattstjóra um beitingu álags er staðfest með vísan til forsendna í hinum kærða úrskurði.

Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kærendum í hag að hluta, þykir bera að úrskurða þeim málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kærenda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað þeirra vegna meðferðar málsins en umboðsmaður kærenda hefur gert grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kærenda hæfilega ákvarðaður 70.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjufærsla arðs í skattframtali kærenda árið 2010 lækkar úr 15.316.717 kr. í 7.692.137 kr. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 70.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kærenda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja