Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 11/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 3. tl. — 74. gr. 5. tl. 2. mgr.  

Niðurfærsla útistandandi viðskiptaskulda — Niðurfærsla — Útistandandi viðskiptaskuldir — Viðskiptakrafa — Skuldabréf — Milligönguaðili — Ársreikningur — Frávísun — Framtalsháttur — Framtalsháttur, samræmi — Skattframtal, ófullnægjandi — Skattframtal, óglöggt — Fylgigögn skattframtals

Málavextir eru þeir, að skattstjóri ritaði kæranda bréf, dags. 27. júlí 1988. Í því segir m.a.:

„Með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt tilkynnist yður hér með, að eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á skattframtali yðar 1988: Niðurfærsla útistandandi viðskiptaskulda kr. 25.078.410,- hefur verið lækkuð í kr. 24.392.105,- þar sem hún takmarkast við 5% af kröfum, sem stofnast hafa vegna sölu á vörum og þjónustu, til styttri tíma en eins árs skv. 3. tl. 1. mgr. 31. gr., sbr. 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981. Skuldabréfaeign uppfyllir ekki ofangreint skilyrði og telst því ekki með við reikning niðurfærslu.“

Þessi breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1988 var kærð til hans með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 23. ágúst 1988. Í kærunni var lækkun niðurfærslunnar alfarið mótmælt og á það bent, að kr. 9.417.238 af skuldabréfaeigninni væri til styttri tíma en eins árs og bæri því að leyfa 5% niðurfærslu af þeirri fjárhæð. Þá segir í kærunni til skattstjóra: „Ljóst er, að samkvæmt eðli rekstrar fyrirtækisins er skuldabréfaeign ekkert annað en viðskiptaskuldir sem greiddar hafa verið með skuldabréfum. Í ljósi framansagðs föllumst við á, að niðurfærslan verði lækkuð um kr. 248.630,- og tekjuskattur lagður á til samræmis við það.“

Skattstjóri kvað upp úrskurð í máli þessu þann 31. október 1988 og hafnaði kröfu kæranda með svofelldum rökum:

„Skv. 3. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 er heimilt að færa niður útistandandi viðskiptaskuldir í árslok, sbr. 2. mgr. 5. tl. 74. gr., um allt að 5% og telja þá fjárhæð til frádráttar skattskyldum tekjum. Í 3. ml. 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981 segir: útistandandi viðskiptaskuldir í þessu sambandi teljast kröfur sem stofnast hafa vegna sölu á vörum og þjónustu og falla í gjalddaga innan eins árs frá því að til þeirra var stofnað. ...

Ljóst er því að „næsta árs afb. af skuldabréfum kr. 9.417.238,-“ uppfylla ekki skilyrði 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, þar sem einungis er um að ræða hluta skuldabréfa til lengri tíma en eins árs. Kröfu kæranda er hafnað.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 14. nóvember 1988. Varðandi rökstuðning er vísað til kæru til skattstjóra dags. 23. ágúst 1988. Síðan segir umboðsmaðurinn í kærunni til ríkisskattanefndar m.a.:

„Ég vil benda nefndinni á 3. ml. 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981 en þar segir: „útistandandi viðskiptaskuldir í þessu sambandi teljast kröfur sem stofnast hafa vegna sölu á vörum og þjónustu og falla í gjalddaga innan eins árs frá því að til þeirra var stofnað“.

Ljóst er að skuldabréfaeign félagsins fellur undir þessa grein, enda hefur félagið eignast öll sín skuldabréf með því að taka við þeim sem greiðslu á úttektum viðskiptavina.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 9. nóvember 1989, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Ársreikningur kæranda vegna ársins 1987 fylgdi skattframtali hans árið 1988. Samkvæmt rekstrarreikningnum tjáist hann vera milligöngumaður um viðskipti með þær fjárkröfur sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt efnahagsreikningnum er hann það ekki. Vegna þessa misræmis verður eigi hjá öðru komist en vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja