Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun

Úrskurður nr. 13/2016

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun legsteina og fylgihluta úr graníti sem kærandi hafði flutt til landsins. Tollstjóri taldi að um væri að ræða unninn stein sem félli undir vörulið 6802 í tollskrá, en kærandi hélt því fram að varan félli undir vörulið 2516 sem óunninn steinn til legsteinagerðar. Yfirskattanefnd taldi ljóst að undir 25. kafla tollskrár féllu aðeins óunnar vörur í þeim skilningi að þær bæru þess enn veruleg merki að vera óunnar. Samkvæmt því gæti granít, sem hefði verið pússað og lagað eftir ákveðnum málum til nota sem legsteinn, ekki fallið undir vörulið 2516 þrátt fyrir að það ætti eftir að vinna steininn frekar, svo sem með áletrun og samsetningu. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 3. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 32/2015; kæra A ehf., dags. 27. janúar 2015, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 27. janúar 2015, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 2. desember 2014, um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna tilgreindra vörusendinga á árunum 2012, 2013 og 2014. Með úrskurði þessum hækkaði tollstjóri aðflutningsgjöld kæranda um samtals 2.801.419 kr., sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og að greiðsluskylda kæranda verði með öllu felld niður. Til vara er þess krafist að hin endurákvarðaða fjárhæð verði lækkuð verulega. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 16. október 2014, tilkynnti tollstjóri kæranda að fyrirhugað væri að endurákvarða aðflutningsgjöld félagsins vegna 13 vörusendinga á árunum 2012, 2013 og 2014, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Kom fram í bréfinu að tollstjóri liti svo á að í tollskýrslum vegna innflutnings varanna hefði kærandi ranglega lagt til grundvallar að vörurnar, sem væru legsteinar og fylgihlutir úr graníti, féllu ýmist undir tollskrárnúmer 2516.1100, 2516.1200 eða 6802.9902. Að mati tollstjóra féllu allar vörurnar undir tollskrárnúmer 6802.9303 og hefði því borið að greiða af þeim 5% almennan toll. Myndi þetta leiða til gjaldabreytinga í tilfelli ellefu vörusendinga.

Af hálfu kæranda var fyrirhugaðri endurákvörðun tollstjóra mótmælt með bréfi, dags. 14. nóvember 2014. Var byggt á því að fyrirhuguð tollflokkun tollstjóra undir tollskrárnúmer 6802.9303 (misritun 6802.9309 í bréfi) væri röng. Sýna mætti fram á það með gagnályktun frá tollskrárnúmeri 6802.9303 að kæranda bæri ekki að greiða toll af vörunum. Fluttar hefðu verið inn granítblokkir til legsteinagerðar sem væru samsettar á verkstæði kæranda. Væri annars vegar um að ræða ferningslaga undirlag og hins vegar grófhöggvið granít sem væri áletrað, fínpússað og boltað niður á granítundirlag á verkstæði kæranda. Tilvísun tollstjóra í tollskrárnúmer 6802.9303 „Aðrar framleiðsluvörur, þó ekki klæðningar“ vísaði til þess að um væri að ræða aðrar framleiðsluvörur en „búsáhöld og skrautmunir“ (6802.9301) og „áletraða legsteina“ (6802.9302). Legsteinar, hvort sem þeir væru áletraðir eða ekki, væru sama framleiðsluvaran. Legsteinar sem ekki væru áletraðir, hvort sem þeir væru samsettir eða grófhöggnir eða ekki, gætu því ekki fallið undir vörulið 6802 eða undirflokka þess. Hefði ætlunin verið að fella alla legsteina undir vörulið 6802 hefði hæglega verið hægt að vísa almennt til legsteina, en ekki bara til „áletraða legsteina“. Leiddi það líkum fyrir því að „óáletruðum“ legsteinum væri ætlað að standa utan tollnúmersins, ella hefði sérstök tilvísun í umræddu tollnúmeri til áleturs enga sjálfstæða þýðingu. Stæði því eftir að umræddar framleiðsluvörur féllu réttilega undir tollnúmer 2516.1100 eða 2516.1200, eftir því hvort um væri að ræða stein eða undirlag steins sem kærandi áletri. Bæri að skýra allan vafa kæranda í hag. Hið innflutta granít yrði að teljast óunnið granít og í það minnsta grófhöggvið, þar sem samsetning og áletrun legsteinsins færi fram hér á landi. Ósamsettar graníteiningar, sem myndi fyrst legstein vegna vinnuframlags kæranda, gæti ekki talist legsteinn í almennum skilningi þess orðs.

Með úrskurði, dags. 2. desember 2014, hratt tollstjóri hinum boðuðu breytingum á aðflutningsgjöldum kæranda í framkvæmd. Tollstjóri veitti andmælum umboðsmanns kæranda úrlausn. Kom fram að það væri ekki á verk- eða valdsviði tollstjóra að ákvarða um gildi settra laga sem leggi aðflutningsgjöld á vörur og/eða reglugerða um uppskiptingu tollskrárnúmera í undirnúmer. Hafnaði tollstjóri staðhæfingu kæranda um að innflutt vara hefði verið rétt tollmerkt. Vara sem félli undir tollnúmer 2516.1100 eða 2516.1200 ætti ekkert skylt við þá vöru sem kærandi hefði framvísað reikningum fyrir við tollafgreiðslu umræddra sendinga. Ættu áðurnefnd tollskrárnúmer einungis við um eftirfarandi vörulýsingu: „2516.1100: --Óunnið eða óhöggvið /-tæmandi vörulýsing og 2516.1200-Einungis sagað eða hlutað sundur með öðrum hætti í rétthyrningslaga (þar með talið ferningslag) blokkir eða hellur./tæmandi vörulýsing.“ Hinar innfluttu vörur hefðu verið unnar vörur, sbr. upplýsingar í framlögðum reikningum um pússun, undirlag og legstein eftir ákveðnu máli. Bæri að tollflokka umrædda vöru, framleiðsluvöru unna úr graníti, undir tollskrárnúmer 6802.9303. Breytingar tollstjóra leiddu til hækkunar á aðflutningsgjöldum kæranda um samtals 2.801.419 kr.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. janúar 2015, sbr. greinargerð, dags. 19. febrúar 2015, er þess aðallega krafist að hinum kærða úrskurði tollstjóra verði hrundið og að greiðsluskylda kæranda verði með öllu felld niður, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Jafnframt er krafist hæfilegs málskostnaðar úr ríkissjóði. Í kæru er vísað til röksemda sem fram komu í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. nóvember 2014. Áréttað er að innflutt granít sem kærandi noti til legsteinagerðar falli undir tollnúmer 2516.1100 og/eða 2516.1200. Tollnúmer 2516.1200 vísi til graníts sem sé sagað eða hlutað í sundur með öðrum hætti í blokkir eða hellur. Við legsteinagerðina noti kærandi slíkar blokkir sem undirlag þess steins sem er áletraður og settur saman af kæranda. Undirlagið sé undantekningarlaust rétthyrnings- eða ferningslaga. Ákvæðið geri ekki áskilnað um að þær hellur séu óunnar eða grófhöggnar. Leiði þetta til þess að allir steinar sem teljist undirlag, hvort heldur pússaðir eða ekki, falli undir greint tollnúmer og beri því ekki gjöld. Sama sé að segja um höfuðsteininn sjálfan, sbr. gagnályktun frá tollnúmeri 6802.9302, sbr. tollnúmer 2516.1100. Umræddir steinar séu óunnir í skilningi tollnúmersins þó að þeir kunni að vera pússaðir að hluta eða öllu leyti. Steinarnir séu óunnir í skilningi ákvæðisins þar sem þeir séu fluttir inn til legsteinagerðar, en til þess þurfi að vinna þá, eftir atvikum með áletrun og samsetningu. Slíkir steinar, þ.e. þeir sem beri áletrun teljist fullunnir og falli undir tollnúmer 6802.9302. Kærandi flytji ekki inn slíka steina. Ítrekað er í kæru að vafa um tollflokkun beri að skýra innflytjanda í hag.

IV.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2015, lagði tollstjóri fram umsögn í málinu. Í umsögn tollstjóra er þess krafist að úrskurður embættisins verði staðfestur. Er rakið að ágreiningur málsins varði innflutning á fullunnum legsteinum og fylgihlutum úr graníti, granít vasa og granít legsteina. Sé það mat tollstjóra að kærandi hafi ranglega flokkað vörur þessar undir tollskrárnúmerið 2516.1100, „óunnið eða grófhöggvið“ granít, og 2516.1200, granít sem sé „einungis sagað eða hlutað sundur með öðrum hætti í rétthyrningslaga (þar með talið ferningslaga) blokkir eða hellur“. Tollstjóri hafi endurákvarðað aðflutningsgjöld með vísan til þess að rétt tollflokkun á vörunum sé tollskrárnúmer 6802.9903 (sic.) „aðrar framleiðsluvörur, þó ekki til klæðningar“ úr granít. Af hálfu kæranda hafi verið byggt á því að ekki sé gerður áskilnaður um það í tollskrárnúmeri 2516.1200 að steinarnir séu óunnir. Tollstjóri geti ekki fallist á þá túlkun kæranda. Vörur séu tollflokkaðar eftir alþjóðlegu tollflokkunarkerfi sem Alþjóðatollastofnunin gefi út. Íslenska tollskráin byggi á tollskrá Alþjóðatollastofnunarinnar og hafi hún verið lögfest sem viðauki við tollalög nr. 88/2005. Þá séu skýringabækur Alþjóðatollastofnunarinnar notaðar tollskránni til stuðnings sem lögskýringagögn. Er vitnað orðrétt til skýringa Alþjóðatollastofnunarinnar þar sem segi um vörulið 2516:

„The stones of this heading may be shaped or processed in the same ways as the stones of heading 25.15 (see the Explanatory Note to that heading).“

Í nánari lýsingu undirflokka tollskrárnúmera 2516.1100 og 2516.1200 sé einnig vísað til umfjöllunar um tollskrárnúmer 2515.1100 og 2515.1200. Í umfjöllun um tollskrárnúmer 2516 segi síðan:

„Blocks, etc., which have been further worked, i.e., bossed, dressed with the pick, bushing hammer or chisel, etc., sand-dressed, ground, polished, chamfered, etc., are classified in heading 68.02. The same classification applies to blanks of articles.“

Sé því ljóst að steinn sem hafi verið unninn að einhverju leyti, t.d. pússaður að hluta eða öllu leyti, falli undir vörulið 6802. Þá vitnar tollstjóri orðrétt í skýringu Alþjóðatollastofnunarinnar á ensku hugtökunum „crude“ (óunnið) og „roughly-trimmed“ (grófhöggvið) í skilningi tollskrárnúmers 2516.1100. Segi um „crude“:

„[...] refers to blocks or slabs which have been merely split along the natural cleavage planes of the stone. Their surfaces are often uneven or undulating and frequently bear marks of the tools used to separate them (crowbars, wedges, picks, etc.)“

Um „roughly-trimmed:

„[...] is stone which has been very crudely worked after quarrying, to form blocks or slabs, still having some rough, uneven surfaces. This working involves removing superflous protuberances by means of hammer or chisel-type tools.“

Þá komi fram um tollskrárnúmer 2516.1200:

„To fall in this subheading, the blocks and slabs which have been merely cut by sawing must bear discernible traces of the sawing (by wire strand or other saws) on their surfaces... This subheading also covers blocks and slabs of a rectangular (including square) shape obtained otherwise than by sawing, e.g., by working with a hammer or chisel.“

Kemur fram í umsögn tollstjóra að í vörureikningum vegna margra sendinga kæranda komi skýrt fram að vörurnar séu unnar eða „Polished“. Þó sé ekki að finna neinar upplýsingar um hvort að vörur í tveimur tilgreindum sendingum kæranda séu unnar eða ekki. Við nánari skoðun sé þó ljóst að um sambærilegar vörur sé að ræða, þar sem lýsing varanna sé í öllu falli eins og í hinum sendingum kæranda. Því til viðbótar komi fram á vörureikningi að vörurnar falli undir „HS CODE: 68029390“, sem sé í samræmi við ákvörðun tollstjóra. Ein sending kæranda hafi hvorki upplýsingar um hvort vörurnar séu unnar, né upplýsingar á vörureikningi um „HS CODE“ númer. Hins vegar komi vörulýsingin „GRANITE MONUMENTS“ fram á viðkomandi vörureikningi, sem styðji þá niðurstöðu að fella viðkomandi vörur undir tollskrárnúmer 6802.9303 (misritun 6802.9309 í umsögn). Tollstjóri hafnar því sjónarmiði kæranda að með tilvísun tollskrárnúmers 6802.9302 til áletraða legsteina hafi „óáletruðum“ legsteinum verið ætlað að standa utan vöruliðarins 6802. Í umfjöllun um vörulið 6802 í skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar sé sérstaklega tekið fram að tollflokkurinn eigi við um legsteina, og sé enginn greinarmunur gerður á því hvort þeir séu áletraðir eða ekki. Þá sé tollstjóri ósammála þeim rökum umboðsmanns kæranda að vafa um tollflokkun beri að skýra innflytjanda í hag. Við tollflokkun sé ekki litið til þeirra gjalda sem fylgi tollskrárnúmerum. Tollflokkun vöru fari eftir orðalagi vöruliða, athugasemdum og almennum túlkunarreglum tollskrár. Gjöld sem lögð séu á hina ýmsa tollflokka séu síðan ákvörðuð af Alþingi. Lýsing tollskrárnúmera 2516.1100, 2516.1200 og 6802.9303 og skýringarbækur Alþjóðatollastofnunar veiti greinargóðar leiðbeiningar um það hvernig flokka skuli vöru kæranda.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. apríl 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Þá kemur fram í a-lið 3. tölul. reglnanna að þegar til álita kemur að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða skuli sá vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Í 25. kafla tollskrár er m.a. fjallað um mold og steintegundir. Í athugasemd 1 við þennan kafla tollskrárinnar segir að leiði ekki annað af 4. athugasemd við þennan kafla eða af orðalagi vöruliða þessa kafla teljist til þeirra aðeins óunnar vörur eða vörur sem hafi verið þvegnar (einnig með kemískum efnum til þess að ná burtu óhreinindum án þess að vörurnar breyti eðli sínu), muldar, malaðar, í duftformi, rifnar, sáldaðar, sigtaðar, kjarnaðar með fleytingu, segulgreiningu eða öðrum vélrænum eða fysískum aðferðum (þó ekki kristöllun), en ekki vörur sem hafa verið ristaðar, brenndar, blandaðar eða meðfarnar frekar en tilgreint er í einstökum vöruliðum. Undir vörulið 2516 í þessum kafla fellur „Granít, porfyr, basalt, sandsteinn og annar steinn til höggmyndagerðar eða bygginga, einnig grófhöggvið eða einungis sagað eða hlutað sundur með öðrum hætti í rétthyrningslaga (þar með talið ferningslaga) blokkir eða hellur.“ Að því er snertir granít eru tilgreind tvö tollskrárnúmer, þ.e. tollskrárnúmer 2516.1100 („Óunnið eða grófhöggvið“) og tollskrárnúmer 2516.1200 („Einungis sagað eða hlutað sundur með öðrum hætti í rétthyrningslaga (þar með talið ferningslaga) blokkir eða hellur“).

Í 68. kafla tollskrár er fjallað um vörur úr steini, gipsefni, sementi, asbesti, gljásteini eða áþekkum efnum. Í athugasemd 1 við þennan kafla tollskrárinnar segir m.a. að til kaflans teljist ekki vörur í 25. kafla. Undir vörulið 6802 í 68. kafla fellur „Unninn steinn til höggmyndagerðar eða bygginga (þó ekki flögusteinn) og vörur úr þeim, þó ekki vörur í nr. 6801; mósaikteningar og þess háttar, úr náttúrlegum steintegundum (þ.m.t. flögusteinn), einnig á undirlagi; gervilitaðar agnir, flísar og duft, úr náttúrlegum steinefnum (þ.m.t. flögusteinn):“.

Eins og fram er komið tók hin umdeilda endurákvörðun tollstjóra til alls 13 vörusendinga á árunum 2012, 2013 og 2014. Byggði tollstjóri á því að í vörureikningum sem fylgdu sendingunum kæmi skýrt fram að vörurnar væru unnar eða „polished“. Af hálfu kæranda er því ekki sérstaklega mótmælt að hinar innfluttu vörur hafi að einhverju leyti verið unnar. Hins vegar er byggt á því í kæru til yfirskattanefndar að það komi ekki í veg fyrir flokkun undirlagssteina undir tollskrárnúmer 2516.1200. Þá er byggt á því að innfluttir höfuðsteinar séu óunnir í skilningi vöruliðar 2516 þrátt fyrir að þeir kunni að vera pússaðir að hluta eða að öllu leyti. Þeir séu fluttir inn til legsteinagerðar og til þess þurfi að vinna þá, eftir atvikum með áletrun og samsetningu. Er jafnframt byggt á gagnályktun frá tollskrárnúmeri 6802.9302 sem fjalli sérstaklega um áletraða legsteina.

Ekki verður dregin önnur ályktun af orðalagi vöruliðar 2516, sbr. tollskrárnúmer 2516.1100 og 2516.1200, og fyrrnefndum athugasemdum með 25. kafla tollskrárinnar en að undir þennan kafla tollskrárinnar falli aðeins óunnar vörur í þeim skilningi að þær beri þess enn veruleg merki að vera óunnar. Samkvæmt þessu getur granít, sem hefur verið pússað og lagað eftir ákveðnum málum til nota sem legsteinn, ekki fallið undir vörulið 2516 þrátt fyrir að það eigi eftir að vinna steininn frekar, svo sem með áletrun og samsetningu. Leiða skýringar alþjóðatollastofnunarinnar til sömu niðurstöðu, en eins og fram kemur í umsögn tollstjóra styðst íslenska tollskráin við samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá alþjóðatollastofnunarinnar. Að þessu athuguðu verður að fallast á með tollstjóra að hinar innfluttu vörur falli undir tollskrárnúmer 6802.9303 í tollskrá. Með vísan til þess og 1. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja