Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Álag

Úrskurður nr. 34/2016

Gjaldár 2012 og 2013

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 101. gr. 3. mgr., 108. gr. 2. mgr.  

Í skattframtölum A hf. var þess getið að ríkisskattstjóri hefði endurákvarðað opinber gjöld félagsins fyrri gjaldár vegna ágreinings um frádráttarbærni vaxtagjalda og að kærandi hefði skotið þeirri ákvörðun til yfirskattanefndar. Í ljósi þess væri framtalsskilum hagað í samræmi við afstöðu stjórnenda kæranda til álitaefnisins og yfirfæranlegt tap því ekki lækkað til samræmis við niðurstöðu ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd taldi að framtalsgerð kæranda umrædd ár með tilliti til meðferðar vaxtagjalda yrði ekki á neinn hátt réttlætt með skírskotun til þess að málið hefði þá verið óútkljáð á kærustigi, þ.e. fyrir yfirskattanefnd, enda hefði hagsmuna kæranda í því sambandi verið gætt með ákvæðum 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Var kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 2. mars, er tekið fyrir mál nr. 84/2015; kæra A hf., dags. 24. febrúar 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 24. febrúar 2015, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. nóvember 2014, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Með úrskurðinum felldi ríkisskattstjóri niður gjaldfærðan fjármagnskostnað í skattskilum kæranda umrædd gjaldár vegna yfirtekinna fjárskuldbindinga frá X ehf. við samruna félaganna 1. júlí 2005. Nánar tiltekið lækkaði ríkisskattstjóri vaxtagjöld um 103.294.436 kr. rekstrarárið 2010, um 133.619.375 kr. rekstrarárið 2011 og um 140.802.882 kr. rekstrarárið 2012. Byggði ríkisskattstjóri á því að ekki hefði verið um að ræða frádráttarbær rekstrargjöld samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 49. gr. sömu laga, og vísaði í því sambandi m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 555/2012 og nr. 529/2013. Leiddu breytingar ríkisskattstjóra til lækkunar á yfirfæranlegu tapi til næsta árs í skattframtali kæranda árið 2011, en gjaldárin 2012 og 2013 leiddu breytingar ríkisskattstjóra til þess að hreinar tekjur ákvörðuðust 316.052.822 kr. fyrra árið og 1.882.183.421 kr. það síðara. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda gjaldárin 2012 og 2013, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram varðandi álagsbeitingu að þótt annmarkar á skattskilum yrðu raktir til vankunnáttu eða mistaka gæti það almennt ekki leitt til niðurfellingar álags. Þá gæti skattaðili ekki losnað undan ábyrgð á slíkum annmörkum á skattframtali með því að fela öðrum aðilum gerð þess og skil. Hafnaði ríkisskattstjóri því að réttaróvissa hefði verið fyrir hendi varðandi skattalega meðferð fjármagnsgjalda við samruna og benti á að hvað sem því liði hefði kærandi ekki leitast við að fá skorið úr meintri réttaróvissu með fyrirspurnum til skattyfirvalda. Þá hefði beiting 25% álags verði staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 555/2012 og í úrskurði yfirskattanefndar nr. 379/2013.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að 25% álag verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni er rakið að ríkisskattstjóri hafi með úrskurði hinn 30. desember 2011 hafnað gjaldfærslu fjármagnskostnaðar vegna yfirtekinna skuldbindinga frá X ehf. í skattskilum kæranda árin 2006-2010. Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 25. nóvember 2014, hafi verið kveðinn upp í beinu framhaldi af fyrri úrskurði. Kærandi hafi talið fyrri úrskurð ríkisskattstjóra í málinu rangan og skotið honum til yfirskattanefndar á sínum tíma. Hafi framtalsgerð kæranda árin 2012 og 2013 því verið hagað í samræmi við túlkun stjórnenda kæranda á ágreiningsefni málsins og væntinga sem kærandi hefði haft um niðurstöðu yfirskattanefndar. Upplýst hafi verið um þessa aðstöðu í athugasemdareit í skattframtölum kæranda árin 2012 og 2013 og því komið á framfæri við ríkisskattstjóra fullnægjandi upplýsingum án þess að með framtalsgerðinni hafi falist viðurkenning af hálfu kæranda á túlkun ríkisskattstjóra í hinu óútkljáða skattamáli. Ekki sé fyrir hendi nein lögmæt forsenda fyrir beitingu álags í málinu þar sem hvorki sé um að ræða annmarka á skattframtölum kæranda árin 2012 og 2013 né séu einstaka liðir rangir. Er bent á að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. júní 2012 í máli Toyota á Íslandi ehf. gegn íslenska ríkinu hafi varakrafa fyrirtækisins um niðurfellingu álags hlotið umfjöllun með tilvísun til þess að sjónarmið þess gætu átt við ef ágreiningsefnið hefði verið tilgreint í skattframtali. Þá hafi krafa aðila um niðurfellingu álags verið tekin til greina í úrskurði yfirskattanefndar nr. 265/2014 þar sem athygli hafi verið vakin á ágreiningsefni málsins í athugasemdalið í skattframtali. Sama niðurstaða hafi orðið uppi á teningnum í úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/1997. Með athugasemdum í skattframtölum sínum árin 2012 og 2013 hafi kærandi girt fyrir álagsbeitingu og séu því forsendur fyrir niðurfellingu álags á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

II.

Með bréfi, dags. 28. apríl 2015, hefur ríkisskattstjóri krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni kemur eftirfarandi fram:

„Til stuðnings máli sínu vísar umboðsmaður kæranda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 265/2014. Þar laut athugasemd framteljanda í skattframtali að framtöldum söluhagnaði vegna hlutabréfasölu og var honum til frekari fyllingar en með henni má segja að framteljandi hafi sýnt ákveðna viðleitni til réttra skattskila. Athugasemdir þær sem kærandi gerir í skattframtölum 2012 og 2013 eru að mati ríkisskattstjóra af öðrum meiði og í ósamræmi við framsett skattskil í þeim framtölum þar sem þær lúta að allt öðrum skattskilum. Þá verður að mati ríkisskattstjóra einnig að líta til þess að nefndin lítur jafnframt til þess við mat á því hvort álagi skuli beitt, að þrátt fyrir tilefni tók ríkisskattstjóri ekki til við formlega athugun á skattskilum kæranda fyrr en um mitt ár 2012. Telur ríkisskattstjóri greind atriði veikja fordæmisgildi þessa úrskurðar yfirskattanefndar. Svipaða viðleitni framteljanda má finna í úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/1997 þar sem hann gat styrks í athugasemdadálki skattframtals og leiddi það til niðurfellingar álags að mati nefndarinnar. Til viðbótar sker mál kæranda sig frá greindum úrskurðum nefndarinnar og dómi Hæstaréttar nr. 555/2012 að búið var að fjalla um skattskil kæranda vegna sama ágreiningsefnis en vegna fyrri gjaldára með endurákvörðun ríkisskattstjóra sem að mati embættisins batt hendur kæranda varðandi síðari skattskil hans þangað til önnur ákvörðun frá þess bærum aðila vék henni til hliðar. Í ljósi alls framangreinds metur ríkisskattstjóri það svo að skattskil kæranda hafi verið röng og því eigi beiting álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2009 (sic) að standa óbreytt.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. apríl 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 22. maí 2015, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er ítrekað í bréfinu að forsendur í dómi héraðsdóms í máli Toyota á Íslandi ehf. gegn íslenska ríkinu varðandi beitingu álags verði vart skildar á annan veg en að tilefni hefði verið til niðurfellingar álags ef stefnandi hefði í skattframtali sínu gert grein fyrir ágreiningsefni um gjaldfærslu fjármagnskostnaðar, eins og kærandi hafi gert í skattskilum sínum árin 2012 og 2013. Við gerð skattframtalana hafi úrskurður yfirskattanefndar í máli kæranda ekki legið fyrir og hafi verið gerð grein fyrir kærunni til yfirskattanefndar með athugasemd í skattframtölum árin 2012 og 2013. Hafi fyrirsvarsmenn kæranda litið svo á að hefði framtalsgerð kæranda umrædd ár verið hagað til samræmis við niðurstöðu og túlkun ríkisskattstjóra gæti það spillt fyrir málatilbúnaði kæranda fyrir yfirskattanefnd. Sé krafa kæranda um niðurfellingu álags því áréttuð.

Með bréfi, dags. 26. júní 2015, hefur ríkisskattstjóri ítrekað fyrri kröfu í málinu. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. júlí 2015. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2015, kom umboðsmaður kæranda athugasemdum sínum á framfæri og ítrekaði kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

III.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Eins og fram er komið endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010 með úrskurði, dags. 30. desember 2011. Með úrskurðinum lækkaði ríkisskattstjóri gjaldfærða vexti, verðbætur og gengistap í skattskilum kæranda umrædd ár vegna yfirtekinna fjárskuldbindinga frá X ehf. við samruna félaganna 1. júlí 2005. Byggði ríkisskattstjóri á því að ekki teldist vera um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 49. gr. sömu laga. Leiddi þetta til þess að yfirfæranlegt tap í skattframtölum kæranda árin 2006, 2007 og 2008 féll niður og í stað þess voru kæranda ákvarðaðar hreinar tekjur til skatts, en gjaldárin 2009 og 2010 leiddu breytingar ríkisskattstjóra til þess að yfirfæranlegt rekstrartap lækkaði um tilgreindar fjárhæðir. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við þá hækkun skattstofna gjaldárin 2006, 2007 og 2008 sem leiddu af fyrrgreindum breytingum, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda var úrskurði ríkisskattstjóra skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 29. mars 2012, og þess krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi, en til vara að 25% álag yrði fellt niður. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 379, 30. desember 2013 var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu félagsins um niðurfellingu álags. Varðandi síðastnefnda kröfu kom fram í forsendum úrskurðarins að þegar litið væri til þeirra annmarka sem verið hefðu á skattframtölum kæranda umrædd ár, sbr. niðurstöðu úrskurðarins, þætti kærandi með skýringum sínum hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hefðu verið með þeim hætti sem greindi í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella bæri álag niður né að tilefni væri til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Var tekið fram að með dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. febrúar 2013 í málinu nr. 555/2012 (Toyota á Íslandi ehf. gegn íslenska ríkinu) hefði kröfu um niðurfellingu álags verið hafnað við hliðstæðar aðstæður og um væri að ræða í máli kæranda.

Í skattframtölum kæranda árin 2012 og 2013 var þess getið í athugasemdadálki að ríkisskattstjóri hefði endurákvarðað opinber gjöld félagsins gjaldárin 2006-2010 vegna ágreinings um frádráttarbærni vaxtagjalda og að kærandi hefði skotið þeirri ákvörðun til yfirskattanefndar sem ekki hefði fellt úrskurð um kæruna. Í ljósi þess væri framtalsskilum hagað í samræmi við afstöðu stjórnenda kæranda til álitaefnisins og yfirfæranlegt tap því ekki lækkað til samræmis við niðurstöðu ríkisskattstjóra. Er krafa kæranda um að 25% álag verði fellt niður byggð á því að þar sem félagið hafi með þessum hætti komið á framfæri við ríkisskattstjóra fullnægjandi upplýsingum í skattskilum sínum sé ekki um að ræða annmarka á skattframtölunum eða að einstakir liðir hafi verið ranglega fram taldir, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Þá hefur kærandi vísað til þess að fordæmi séu fyrir því að álag hafi verið fellt niður á þeim grundvelli að skattaðili hafi upplýst um meinta annmarka með athugasemd í skattframtali, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 265/2014 og 92/1997 sem skírskotað er til í kæru til yfirskattanefndar.

Ágreiningslaust er í málinu að hin gjaldfærðu vaxtagjöld í skattskilum kæranda gjaldárin 2012 og 2013 vegna yfirtekinna fjárskuldbindinga frá X ehf. voru ekki frádráttarbær frá tekjum kæranda, sbr. ákvæði III. kafla laga nr. 90/2003. Var því um að ræða annmarka á skattframtölunum í skilningi 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og verður því að telja að ríkisskattstjóra hafi á grundvelli ákvæðisins verið heimilt að bæta álagi við hækkun skattstofna kæranda umrædd ár sem leiddi af niðurfellingu hinna ófrádráttarbæru útgjalda. Við framtalsgerð kæranda árin 2012 og 2013 lá fyrir að ríkisskattstjóri leit svo á að vaxtagjöldin heimiluðust ekki til frádráttar tekjum félagsins og hafði af þeim sökum fellt niður gjaldfærslu þeirra í skattskilum fyrri ára. Þegar af þessari ástæðu verða atvik í máli kæranda ekki lögð að jöfnu við aðstæður í málum þeim sem til umfjöllunar voru í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 265/2014 og 92/1997 og eru raunar að þessu leyti einnig frábrugðin atvikum í máli því sem dæmt var í dómi Hæstaréttar Íslands 28. febrúar 2013 í málinu nr. 555/2012, þ.e. svokölluðu Toyotamáli. Þá verður ekki séð að framtalsgerð kæranda umrædd ár með tilliti til meðferðar vaxtagjalda verði á neinn hátt réttlætt með skírskotun til þess að málið hafi þá verið óútkljáð á kærustigi, þ.e. fyrir yfirskattanefnd, enda verður að telja að hagsmuna kæranda í því sambandi hafi verið gætt með ákvæðum 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 sem mæla fyrir um leiðréttingar á skattskilum í tilefni þess að yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á. Þá er til þess að líta að hinn 13. júní 2012 eða áður en kærandi stóð skil á skattframtali sínu árið 2012 var kveðinn upp dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4614/2011, svokölluðu Toyotamáli, þar sem atvik voru í öllum grundvallaratriðum með sama hætti og í tilviki kæranda. Var sá dómur staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 28. febrúar 2013 í málinu nr. 555/2012 sem þannig lá fyrir þegar kærandi stóð skil á skattframtali árið 2013. Með vísan til framanritaðs og að öðru leyti með skírskotun til forsendna og niðurstöðu um beitingu álags í úrskurði yfirskattanefndar nr. 379/2013 í máli kæranda vegna gjaldáranna 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010 verður að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður og að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja