Úrskurður yfirskattanefndar
- Ívilnun í sköttum
- Menntun barns
- Takmörkuð skattskylda
Úrskurður nr. 39/2016
Gjaldár 2015
Lög nr. 90/2003, 3. gr., 65. gr. 1. mgr. 4. tölul., 70. gr. Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.
Fallist var á kröfu kærenda, sem voru búsett í Svíþjóð og báru takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna lífeyristekna og vaxtatekna, um ívilnun vegna náms sonar kærenda við framhaldsskóla í Svíþjóð. Kom fram að í fastmótaðri skattframkvæmd hefði verið lagt til grundvallar að einungis þyrfti að sýna fram á verulegan kostnað vegna náms, þ.e. kostnað umfram venjulegan námskostnað, í þeim tilvikum þegar sótt væri um hærri ívilnun en hámarksívilnun.
Ár 2016, miðvikudaginn 2. mars, er tekið fyrir mál nr. 205/2015; kæra A og B, dags. 20. október 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kærendur í máli þessu, sem voru búsett í Svíþjóð allt tekjuárið 2014, stóðu skil á skattframtali árið 2015 þar sem gerð var grein fyrir fjármagnstekjum og greiðslum til kæranda, B, frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, en ekki voru tilgreindar neinar tekjur kæranda, A, samkvæmt A- eða B-liðum 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda, B, en kærandi, A, sætti ekki álagningu. Í skattframtalinu óskuðu kærendur eftir lækkun tekjuskattstofns vegna menntunar barns, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram í framtalinu að sonur kærenda stundaði nám við Nösnäsgymnasiet í Stenungsund í Svíþjóð og hefði engar tekjur haft á árinu 2014. Skattframtalinu fylgdi vottorð frá skólanum, dags. 9. febrúar 2015, um að sonur kærenda væri í fullu námi við skólann og yrði til 15. júní 2016.
Með kærum, dags. 5. ágúst 2015, kærðu kærendur álagningu opinberra gjalda árið 2015 þar sem ekki hefði verið fallist á umsókn um lækkun tekjuskattsstofns vegna framfærslu ungmennis. Kærunni fylgdi vottorð Korrespondensgymnasiet í Torsås í Svíþjóð, dags. 3. ágúst 2015, um að sonur kærenda hefði verið nemandi við skólann frá 4. janúar til 15. júní 2014. Einnig fylgdi kærunni vottorð frá skattstofu Uddevalla í Svíþjóð um að sonur kærenda hefði engar tekjur haft á árinu 2014. Jafnframt var í kærunni farið fram á að ríkisskattstjóri tæki tillit til ofgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins við útreikning álagningar opinberra gjalda, enda hefði Tryggingastofnun endurkrafið kæranda, A, um tæplega eina milljón króna. Vegna þessa kæruatriðis fylgdi yfirlit frá Tryggingastofnun sem sýndi skuld kæranda, A.
Í tilefni af kæru kærenda lagði ríkisskattstjóri fyrir þau með bréfi, dags. 11. september 2015, að leggja fram gögn eða skýringar um kostnað þeirra vegna menntunar barns á árinu 2014. Óskaði ríkisskattstjóri eftir gögnum um greiðslu skólagjalda og upplýsingum um kaup á námsgögnum. Þá skoraði ríkisskattstjóri á kærendur að gera grein fyrir styrkjum sem þau eða ungmennið hefðu fengið í Svíþjóð vegna námsins og hvort þau hefðu fengið afslátt eða lækkun á opinberum gjöldum í Svíþjóð vegna ungmennis í námi með framlagningu gagna frá til þess bærum yfirvöldum. Loks var skorað á kærendur að leggja fram gögn um tekjur þeirra í Svíþjóð á árinu 2014 og skattlagningu þar.
Með tölvupósti, dags. 16. september 2015, greindi kærandi, B, frá því að í Svíþjóð væru engin skólagjöld eða kostnaður vegna bókakaupa. Hins vegar hefðu kærendur keypt fartölvu fyrir son sinn fyrir 2.890 sænskar krónur eða 49.225 kr. miðað við meðalgengi ársins 2014. Mánaðarlegur kostnaður vegna framfærslu ungmenna í Svíþjóð væri samkvæmt þarlendum yfirvöldum 148.528 kr. (8.720 sænskar krónur). Væru þar undanskildar veitingar utan heimilis, leiga og stéttarfélagsgjald þar sem sonur kærenda hefði að fullu verið á framfæri foreldra sinna. Í Svíþjóð væri ekki í boði skattaafsláttur eða lækkun opinberra gjalda vegna skólagöngu barna. Þá væri engin samsköttun í Svíþjóð eða skuldajöfnun, t.d vegna ónýtts persónufrádráttar. Loks tók kærandi fram að hún hefði engar tekjur haft í Svíþjóð árið 2014, en ætti samt von á álagningu þar sem hún lyti sænskum skattalögum vegna búsetu þar. Álagning vegna tekjuáranna 2013 og 2014 væri enn í vinnslu hjá sænskum skattyfirvöldum. Tölvupóstinum fylgdi afrit af kvittun vegna tölvukaupa, dags. 2. desember 2013, yfirlit frá Konsumverket um almennan framfærslukostnað í Svíþjóð, sænskt skattframtal kæranda fyrir tekjuárið 2014 og niðurstaða álagningar opinberra gjalda í Svíþjóð hjá kæranda, A, fyrir tekjuárið 2014.
Með kæruúrskurði, dags. 13. október 2015, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kærenda. Tók ríkisskattstjóri fram að í skattframtali kærenda væri ekki getið um tekjur kæranda, A, frá Tryggingastofnun á árinu 2014 og yrði ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að hann hefði þegið skattskyldar tekjur frá stofnuninni. Kærandi, A, hefði ekki sætt álagningu opinberra gjalda árið 2015 og væri kröfu um að álagningin tæki mið af endurreikningi bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins því synjað. Að því er varðaði umsókn kærenda um lækkun tekjuskattstofns vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram að kærendur hefðu verið heimilisföst í Svíþjóð allt árið 2014 og haft þar miðstöð persónulegra hagsmuna sinna. Hefði kærandi, B, eingöngu borið skattskyldu á Íslandi af bótagreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisgreiðslum frá íslenskum lífeyrissjóðum. Í því ljósi þætti rétt við framkvæmd 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 að taka tillit til þeirra úrræða sem stæðu til boða í heimilisfestisríkinu vegna kostnaðar af framfærslu ungmenna í námi. Yrði ekki annað ráðið af skýringum kærenda en að skólastig sonar kærenda hefði verið alfarið án kostnaðar í Svíþjóð og að kærendur hefðu ekki haft veruleg útgjöld vegna menntunar barns, eldra en 16 ára á árinu 2014. Yrði því að líta svo á að kærendur uppfylltu ekki skilyrði til lækkunar tekjuskattstofns á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og væri kröfu þar um því synjað.
II.
Með kæru, dags. 20. október 2015, hafa kærendur skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. október 2015, til yfirskattanefndar. Í kærunni er mótmælt afstöðu ríkisskattstjóra til beiðni kærenda um ívilnun vegna framfærslu sonar síns sem sé í skóla í Svíþjóð. Þótt lítill kostnaður sé við skólagöngu í Svíþjóð hafi annar kostnaður fallið til vegna framfærslu sonar kæranda, en hann hafi engar tekjur haft sjálfur. Er vísað til þess að sonur kærenda hafi verið greindur með Aspergers og ADHD og fylgi því ýmis annar kostnaður, svo sem meðfylgjandi greinargerð beri með sér. Aukakostnaður fyrir utan framfærslu sonarins sé um 38.825 sænskar krónur á ári eða 661.306 kr. Konsumentverket í Svíþjóð reikni með að mánaðarleg framfærsla ungmenna sé 4.770 sænskar krónur eða 821.247 kr.
Þá kemur fram í kærunni að kærandi, A, hafi fengið endurkröfu frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 125.129 kr. fyrir tekjuárið 2014. Kærandi, B, hafi ekki nýtt skattkort eiginmanns síns nema að hluta og því sótt um leiðréttingu með skuldajöfnuði maka vegna ónýtts persónuafsláttar eiginmanns síns. Loks kemur fram í kærunni að til viðbótar við álagningu opinberra gjalda hér á landi hafi verið lagðar á kæranda, B, 27.811 sænskar krónur eða 473.705 kr. vegna tekjuárs 2014 í Svíþjóð. Þyki henni nóg um, enda sé hún óvinnufær öryrki með lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði. Kærunni fylgir m.a. ódagsett greinargerð kærenda til tryggingastofnunar í Svíþjóð um greiningu sonar þeirra, umönnunarþörf og kostnað sem af ástandi hans hljótist, samantekt úr taugafræðilegu mati sálfræðings og barnageðlæknis, dags. 28. desember 2012, og hreyfingayfirlit Tryggingastofnunar, dags. 20. október 2015, vegna skuldar kæranda, A, að fjárhæð 125.159 kr. hinn 28. júlí 2014 vegna ofgreiðslu.
III.
Með bréfi, dags. 16. nóvember 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna þar sem þess er krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. nóvember 2015, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana.
Með tölvupósti 24. nóvember 2015 hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum.
IV.
Eins og fram er komið snýst mál þetta um þá ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 13. október 2015, að synja annars vegar umsókn kærenda um lækkun tekjuskattstofns gjaldárið 2014 á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hins vegar beiðni um að álagning taki mið af ofgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins.
Varðandi síðarnefnda atriðið er vísað til þess í kæru til yfirskattanefndar að kærandi, A, hafi fengið endurkröfu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna endurreiknings bóta fyrir tekjuárið 2014. Kærandi, B, hafi ekki nýtt skattkort hans nema að hluta það ár og því óskað eftir að fá að nýta ónýttan persónuafslátt hans. Vegna framangreinds skal bent á að samkvæmt skattframtali kærenda árið 2015 var kærandi, A, ekki með tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2014 og raunar engar skattskyldar tekjur hér á landi aðrar en vaxtatekjur samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 9/2003. Bar kærandi, A, takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 vegna greindra tekna, en við skattlagningu slíkra tekna samkvæmt 8. tölul. 70. gr. laganna kemur ekki til ákvörðunar persónuafsláttar. Verður ekki annað séð en að álagning opinberra gjalda kærenda hafi að þessu leyti verið í samræmi við lög. Getur þessi þáttur í kröfugerð kærenda því ekki náð fram að ganga.
Víkur þá að þeim hluta kærunnar sem lýtur að ívilnun í sköttum. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef hann hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið sé að barnið sé orðið 16 ára og stundi nám a.m.k. þrjá mánuði á árinu. Kemur fram að hér sé fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16-21 árs sem stundi nám að loknu grunnskólanámi, þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, iðnnám o.þ.h. Tiltekin hámarksívilnun sé vegna náms sem stundað sé hér á landi. Sé sótt um hærri ívilnun vegna náms sem stundað sé erlendis þurfi að sýna fram á verulegan kostnað vegna námsins sem telja verði umfram venjulegan námskostnað, svo sem há skólagjöld, fargjöld o.þ.h. Þá er í reglum þessum mælt fyrir um takmarkanir á fjárhæð ívilnunar vegna menntunar barna og skerðingu fjárhæðar ívilnunar vegna tekna námsmanns, svo sem nánar greinir. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra með skattframtali einstaklinga árið 2015 kemur fram að hægt sé að sækja um ívilnun samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 í lið 1.3 í skattframtali hafi framteljandi á framfæri sínu ungmenni sem séu við nám og skuli tilgreina þar tekjur og skóla ungmennis. Þá kemur fram í leiðbeiningunum að hámarkslækkun á tekjuskattstofni sé 348.000 kr. miðað við að ungmenni hafi engar tekjur haft. Frá þessari fjárhæð sé ella dreginn þriðjungur af tekjum ungmennisins. Sé um að ræða sérstök aukaútgjöld vegna náms barna umfram það sem venjulegt sé nægi þó ekki að fylla út umsókn í lið 1.3 í skattframtali, heldur þurfi að gera grein fyrir þessum kostnaði í umsókn RSK 3.05 og láta viðeigandi gögn fylgja.
Kærendur sóttu um lækkun tekjuskattsstofns í lið 1.3 í skattframtali sínu árið 2015 vegna framfærslu sonar síns sem væri við nám í Nösnäsgymnasiet, Stenungsund í Svíþjóð og verður því að telja að þau hafi ekki sótt um lækkun á grundvelli sérstakra aukaútgjalda vegna náms hans umfram það sem venjulegt er. Þá upplýstu kærendur að sonur þeirra hefði ekki haft neinar tekjur á árinu 2014. Eins og fram er komið byggði ríkisskattstjóri niðurstöðu sína í hinum kærða úrskurði um að synja kærendum um ívilnun í tekjum vegna kostnaðar af menntun barns á því að þau hefðu ekki haft veruleg útgjöld vegna menntunar barns. Tekið skal fram að umfjöllun ríkisskattstjóra um heimilisfesti kæranda í Svíþjóð og úrræði sem í boði séu þar í landi vegna framfærslu ungmenna í námi verður ekki skilin þannig að ríkisskattstjóri telji að skilyrði laga og reglna fyrir ívilnun séu mismunandi eftir því hvort framteljandi beri hér á landi skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 eða takmarkaða skattskyldu samkvæmt 3. gr. laganna, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 470/2012.
Í samræmi við framangreindar reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, sem settar voru með stoð í 3. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, hefur verið lagt til grundvallar í skattframkvæmd að til stuðnings beiðni um lækkun tekjuskattstofns á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laganna þurfi eingöngu að sýna fram á verulegan kostnað vegna náms, þ.e. kostnað umfram venjulegan námskostnað, í þeim tilvikum sem sótt er um hærri ívilnun en hámarksívilnun. Þykja framtalsleiðbeiningar ríkisskattstjóra vísa í sömu átt, en þar er mælt fyrir um upplýsingagjöf og framlagningu gagna vegna sérstakra aukaútgjalda vegna náms barna. Verður þessi túlkun ákvæðisins í skattframkvæmd að teljast bæði langvarandi og fastmótuð og hefur komið fram í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra um langt árabil. Sonur kærenda varð 18 ára á árinu 2014 og bera gögn málsins með sér að hann stundaði nám í framhaldsskóla í að minnsta kosti fimm mánuði á því ári. Þá hafa kærendur lagt fram gögn um tekjuleysi sonar síns árið 2014. Kærendur hafa ekki farið fram á hærri ívilnun en almennt er miðað við, sbr. fyrrgreindar reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996. Þá hefur að öðru leyti ekkert komið fram um að kostnaður kærenda vegna menntunar og framfæris barns þeirra sé annar og lægri en almennt gerist og gengur. Getur ekki skipt sköpum í þeim efnum þótt upplýst hafi verið að hvorki sé til að dreifa útgjöldum vegna námsbóka né skólagjöldum við sænska framhaldsskóla, enda augljóst að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 er ekki ætlað að mæta slíkum kostnaði eingöngu.
Samkvæmt framansögðu þykir bera að fallast á beiðni kærenda um lækkun tekjuskattstofns á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem kærandi, A, var ekki með tekjuskattsstofn á Íslandi lækkar tekjuskattstofn kæranda, B, um 348.000 kr., sbr. fyrrgreindar reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996 og leiðbeiningar ríkisskattstjóra um skattskil einstaklinga árið 2015.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Tekjuskattstofn kæranda, B, gjaldárið 2014 lækkar um 348.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kærenda í máli þessu hafnað.