Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum
  • Framfærsla vandamanna

Úrskurður nr. 55/2016

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 3. tölul.   Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.  

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum vegna framfærslu vandamanna í Víetnam var hafnað þar sem kærandi var ekki talin hafa sýnt fram á að skilyrði ívilnunar væru fyrir hendi.

Ár 2016, miðvikudaginn 30. mars, er tekið fyrir mál nr. 175/2015; kæra A, dags. 19. ágúst 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru umboðsmanns kæranda, dags. 19. ágúst 2015, er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hafna beiðni kæranda um lækkun tekjuskattstofns gjaldárið 2014 vegna framfærslu vandamanna á árinu 2013. Var ákvörðunin upphaflega tekin með kæruúrskurði, dags. 28. nóvember 2014. Af hálfu kæranda var þeim kæruúrskurði skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 16. desember 2014, og gerð krafa um að úrskurðurinn yrði endurskoðaður og að fallist yrði á ívilnun í sköttum. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 120, 29. apríl 2015 var kærunni vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Í framhaldi af því tók ríkisskattstjóri mál kæranda fyrir að nýju og með úrskurði, dags. 22. júlí 2015, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda á ný.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að fallist verði á lækkun tekjuskattsstofns kæranda gjaldárið 2014 vegna framfærslu vandamanna.

II.

Helstu málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2014 fylgdi umsókn um lækkun á tekjuskattstofni (RSK 3.05) vegna foreldra eða annarra vandamanna á framfæri kæranda, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í greinargerð með umsókninni kom fram að fjölskylda kæranda í Víetnam glímdi við fjárhagserfiðleika og hefði kærandi sent fé til að taka þátt í framfærslu aldraðra foreldra sinna og fjölskyldu bróður síns. Hefði mágkona kæranda þurft að gangast undir dýra hjartaaðgerð árið 2012 sem hefði verið ómögulegt án þátttöku allrar fjölskyldunnar í þeim kostnaði. Bróðir kæranda hefði lágar tekjur þar sem hann hefði þurft að sinna fjölskyldunni í veikindum eiginkonu sinnar. Hann hefði ekki efni á skólagjöldum fyrir tvo unga syni sína og hefði kærandi einnig tekið þátt í þeim kostnaði. Væri menntunar- og lækniskostnaður mjög hár í Víetnam og þar væri ekkert almannatryggingakerfi til að treysta á þegar veikindi kæmu upp. Þessi útgjöld hefðu verið fjölskyldu kæranda ofviða án styrks frá kæranda og eiginmanni hennar. Á síðasta ári hefði kærandi sent alls 919.575 kr. Greiðslugeta hennar væri mjög skert vegna þessa, en hún og eiginmaður hennar hefðu ekki miklar tekjur þar sem eiginmaðurinn hefði verið frá vinnu vegna bakveiki og allt sem þeim tækist að öngla saman færi í að styrkja fjölskyldu kæranda í Víetnam. Með tölvupósti 8. apríl 2014 lagði kærandi fram gögn til stuðnings umsókn sinni, afrit af kvittunum tveggja banka og póstdreifingarfyrirtækis vegna fjórtán millifærslna fjár til Víetnam frá júní til desember 2013, samtals að fjárhæð 1.238.518 kr. Var H tilgreindur viðtakandi í tveimur tilvikum, D í fimm tilvikum og V í sjö tilvikum. Þá fylgdi sama tölvupósti excel-skjal með yfirliti yfir millifærslur í tímaröð.

Með bréfi, dags. 21. júlí 2014, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um ívilnun og tók m.a. fram að óyggjandi upplýsingar þyrftu að liggja fyrir svo að ákvarða mætti um lækkun samkvæmt heimildarákvæði 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Rakti ríkisskattstjóri umrætt ákvæði og reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, og tók fram að leggja þyrfti fram gögn til stuðnings framfærslukostnaði og sýna fram á að vandamaður gæti ekki annast framfærslu sjálfur. Þeir sem nytu fullra bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða eða sambærilegra eða hærri tekna væru taldir hafa fulla framfærslu nema til kæmu óbætt útgjöld vegna veikinda eða sérþarfa sem tilgreina þyrfti og styðja með framlagningu kvittana. Þá tók ríkisskattstjóri fram að ef um væri að ræða stuðning við ættingja í öðrum þjóðríkjum þyrfti einnig að fullnægja skilyrðum um staðfestingu tengsla aðila og að þeim fylgdi skuldbinding um aðstoð, staðfestingu banka eða póstþjónustu um peningasendingar og staðfestingu móttakanda fyrir úttekt greiðslu, staðfestar upplýsingar og/eða gögn um tekjur, efnahag og aðstæður fjölskyldu umsækjanda og að tilgreindir eigendur bankareikninga væru í raun vandamenn og einu ráðstöfunaraðilar reikninganna.

Með bréfi, mótteknu hjá ríkisskattstjóra 11. ágúst 2014, mótmælti kærandi synjun ríkisskattstjóra. Kom þar fram að kærandi hefði ekki há laun og að eiginmaður hennar hefði verið frá vinnu marga mánuði vegna veikinda sinna. Skortur á almannatryggingum í Víetnam leiddi til þess að fólk þar í landi yrði að treysta alfarið á sína nánustu ef veikindi eða erfiðleikar kæmu upp. Án hinna gífurlega kostnaðarsömu hjartauppskurða væri mágkona kæranda ekki á lífi og yrði hún að fara 200 kílómetra til Saigon í reglubundið eftirlit og lyfjagjöf í hverjum mánuði. Hefði bróðir kæranda þurft að hætta að vinna til að annast eiginkonu sína og börn. Hefðu ættingjar þeirra staðið undir bæði hjartaaðgerðum mágkonunnar og framfærslu fjölskyldunnar í Víetnam. Þá væri eldri sonur bróður og mágkonu kæranda byrjaður í skóla og hefðu þau ekki efni á að greiða skólagjöldin. Benti kærandi á að ekki ætti að vera erfitt fyrir ríkisskattstjóra að kynna sér skattkerfi og tryggingabætur í Víetnam, sem hins vegar væri erfitt og tímafrekt fyrir almenna borgara. Loks vísaði kærandi til viðbótargagna sem fylgdu bréfinu og ítrekaði beiðni sína um ívilnun. Bréfinu fylgdu tvö handskrifuð skjöl á víetnömsku, dags. 5. ágúst 2014, sem samkvæmt bréfi kæranda voru yfirlýsingar um mánaðarlegar peningasendingar kæranda til bróður síns og mágkonu, önnur frá foreldrum kæranda en hin frá bróður hennar og mágkonu. Þá fylgdi bréfi kæranda fæðingarvottorð bróður kæranda, dags. 21. desember 2012, vottorð frá víetnömskum yfirvöldum um aðstæður bróður kæranda, dags. 21. ágúst 2013, ásamt handskrifaðri lauslegri þýðingu á íslensku, og vottorð frá sjúkrastofnun í Víetnam sem tengdust veikindum mágkonu kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 28. nóvember 2014, tók ríkisskattstjóri kæru kæranda til úrlausnar, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og synjaði kröfu kæranda. Ríkisskattsstjóri gerði grein fyrir því að helstu forsendur lækkunar gjaldstofna samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 væri skerðing á gjaldþoli og greiðsluhæfni vegna óbættra útgjalda umfram venjulegan framfærslukostnað, t.d. vegna veikinda, slysa eða framfærslu vandamanna. Að uppfylltum efnisskilyrðum væri skilyrði lækkunar gjaldstofna vegna framfærslu vandamanna, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, skert gjaldhæfi vegna sannanlegra útgjalda og umframkostnaðar af framfærslu þeirra. Gera þyrfti grein fyrir í hverju útgjöldin væru fólgin og leggja fram gögn þeim til staðfestingar. Sýna þyrfti fram á að vandamaður ætti þess ekki kost að standa undir framfærslu sinni án aðstoðar og væri í því sambandi litið til tekna hans. Aðili sem nyti sambærilegra tekna og eðlilegar teldust frá lífeyris- og almannatryggingakerfi teldist ekki á framfæri annarra nema um aukinn framfærslukostnað væri að ræða vegna sjúkdóms eða sérþarfa og greiðslugeta ekki fyrir hendi til að mæta kostnaði. Kærandi hefði óskað eftir lækkun tekjuskattsstofns vegna framfærslu vandamanna í skattframtali sínu árið 2014. Til stuðnings hefðu fylgt gögn um almennar peningasendingar til viðtakenda í Víetnam. Umsókn kæranda hefði verið tekin til úrlausnar fyrir álagningu opinberra gjalda árið 2014 og hefði synjun umsóknar hennar verið rökstudd með því að sýna þyrfti fram á að tekjur vandamanna stæðu ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslu auk þess sem upplýsingar þyrftu að liggja fyrir um tengsl við aðila sem kærandi væri skuldbundin til að aðstoða. Samkvæmt 99. gr. laga nr. 90/2003 skyldu kærur studdar gögnum og yrði því að líta svo á að það bæri undir kæranda að leggja fram gögn til stuðnings kæru og gæti kærandi ekki lagt gagnaöflun af þeim toga í hendur ríkisskattstjóra. Þá yrðu gögn um tekjur þriðja aðila ekki notuð í skattmáli ótengdu honum nema hann legði þau fram sjálfur. Taldi ríkisskattstjóri ljóst að kærandi hefði hvorki nú né gæti síðar aflað gagna um framfærslu vandamanna erlendis eða gæti sýnt fram á skyldu sína til að annast framfærslu fjölskyldu sinnar í Víetnam. Millifærsla peninga til viðtakanda í Víetnam yrði ekki lögð að jöfnu við framfærslu vandamanna vegna sannanlegra útgjalda og umframkostnaðar af framfærslu þeirra. Þar sem krafa kæranda uppfyllti ekki skilyrði til lækkunar tekjuskattstofns samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 væri kröfu kæranda synjað.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. desember 2014, fór kærandi fram á endurskoðun á ákvörðun ríkisskattstjóra og að fallist yrði á ívilnun í sköttum. Gerði kærandi nánari grein fyrir aðstæðum vandamanna sinna í Víetnam og vísaði að öðru leyti til skýringa og gagna sem komu fram við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 120, 29. apríl 2015 var kæran ásamt meðfylgjandi gögnum send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Í forsendum úrskurðar yfirskattanefndar kom eftirfarandi fram:

„Með hinum kærða úrskurði [...] synjaði ríkisskattstjóri umsókn kæranda um ívilnun samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna gjaldársins 2014, sbr. m.a. kæru til ríkisskattstjóra, dags. 11. ágúst 2014. Laut beiðni kæranda að lækkun tekjuskattsstofns vegna framfærslu bróður kæranda og fjölskyldu hans sem búsett er í Víetnam. Byggði ríkisskattstjóri ákvörðun sína aðallega á því að kærandi hefði ekki leitt í ljós að bróðir kæranda gæti ekki sjálfur annast framfærslu sína. Eins og bent er á í kæru til yfirskattanefndar fylgdu kærunni til ríkisskattstjóra ýmis gögn varðandi aðstæður bróður kæranda og fjölskyldu hans. Ekki er þó vikið sérstaklega að þessum gögnum í úrskurði ríkisskattstjóra. Tekið skal fram að hafi ríkisskattstjóri talið þörf á frekari skýringum eða gögnum varðandi ívilnunarbeiðni kæranda áður en afstaða væri tekin til hennar bar ríkisskattstjóra að skora á kæranda að leggja skýringar sínar eða gögn fram, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir yfirskattanefnd hefur kærandi gert nánari grein fyrir aðstæðum umrædds vandamanns síns, en að öðru leyti vísað til skýringa og gagna sem komu fram við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Umsögn ríkisskattstjóra í máli þessu verður að skilja þannig að embættið telji að ekki hafi verið tekin afstaða til þessara gagna og skýringa með fullnægjandi hætti. Með vísan til þessa og þeirra lagaraka sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

III.

Í kjölfar framanritaðs tók ríkisskattstjóri mál kæranda til nýrrar meðferðar og með bréfi, dags. 2. júní 2015, skoraði ríkisskattstjóri á kæranda að leggja fram frekari gögn og skýringar vegna málsins. Í bréfinu tók ríkisskattstjóri m.a. fram að í ljósi forsögu ákvæða 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skilyrði fyrir ívilnun nr. 212/1996 og samantekt umboðsmanns Alþingis í áliti nr. 2723/1999, yrði að líta svo á að til stuðnings umsókn um lækkun vegna framfærslu vandamanna sem búsettir væru í öðru þjóðríki þyrftu að liggja fyrir gögn vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna. Gera þyrfti grein fyrir í hverju útgjöldin væru fólgin og jafnframt að sýna fram á að framfærslufé foreldris eða vandamanns, þ.e. tekjur, bætur og styrkir, stæðu ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslu. Einnig þyrftu að liggja fyrir gögn um tengsl aðila og gögn til staðfestingar því að sá er aðstoðar nyti hefði veitt greiðslum móttöku. Þá þyrftu að liggja fyrir upplýsingar um mat á hæfilegu eða lágmarks framfærslufé í búsetulandi vandamanna og framfærslufé fjölskyldunnar þar. Gögn þessi þyrftu að vera skiljanleg og rekjanleg. Fyrir lægi að kærandi hefði millifært fjármagn til Víetnam og gæfu óstaðfest gögn til kynna að sá sem aðstoðar nyti hefði veitt greiðslum móttöku og nýtt þær til greiðslu nauðsynlegs kostnaðar. Þá virtust framlögð gögn gefa til kynna að viðtakandi aðstoðarinnar hefði verið bróðir kæranda. Hins vegar skorti gögn um að fjölskylda bróður kæranda hefði ekki getað staðið undir eigin framfærslu án aðstoðar kæranda. Í kæru til ríkisskattstjóra hefði komið fram að fjölskylda bróður kæranda hefði alfarið þurft að reiða sig á aðstoð ættingja, en ekki hefði komið fram hverjir aðrir hefðu aðstoðað fjölskylduna á árinu 2013 og þá að hve miklu leyti. Yrði að líta svo á að það væri undir kæranda komið að leggja fram gögn til stuðnings kæru og nægði ekki að leggja slíka gagnaöflun í hendur ríkisskattstjóra. Gögn um tekjur þriðja aðila ekki notuð við úrlausn annarra mála nema þriðji aðili legði gögnin sjálfur fram. Upplýsingaskiptaákvæði í 26. gr. samnings milli ríkisstjórna Íslands og Víetnam til að koma í veg fyrir tvísköttun næðu þannig ekki til þeirrar upplýsingaöflunar sem kærandi hefði stungið upp á að ríkisskattstjóri framkvæmdi. Skoraði ríkisskattstjóri á kæranda að sýna fram á að fjölskylda bróður hennar hefði ekki getað staðið undir eigin framfærslu, vegna sérstakra atburða á árinu 2013, án aðstoðar frá kæranda. Koma þyrfti fram hverjir aðrir hefðu verið framfærendur fjölskyldu bróður kæranda á árinu 2013 og hver þátttaka þeirra hefði verið í framfærslunni. Þá lagði ríkisskattstjóri einnig fyrir kæranda að sýna fram á að tekjur fjölskyldu bróður kæranda hefðu án aðstoðar kæranda og annarra ættingja ekki nægt þeim til framfærslu, m.a. með framlagningu frumgagna um tekjur og eignir bróður og mágkonu kæranda og gögn um fjárhæð almenns framfærslukostnaðar í An Giang héraði í Víetnam. Þyrftu gögnin að vera íslenskum skattyfirvöldum skiljanleg, t.d. með þýðingu á íslensku eða ensku frá til þess bærum aðila. Ennfremur þyrftu gögnin að vera rekjanleg til bærra aðila, t.d. skattyfirvalda í Víetnam, og „staðfest með Apostille eða sambærilegri áritun frá Ministry of Justice of the Socialist Republic of Viet Nam“, sbr. Haag-samning um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra skjala.

Í svarbréfi kæranda, dags. 20. júlí 2015, kom fram að bróðir kæranda hefði notið styrkja frá kæranda. Ekki væru aðrir aflögufærir í fjölskyldunni og nyti fjölskylda bróður hennar ekki annarra styrkja, svo sem meðfylgjandi vottorð bæru með sér. Ekki væri unnt að senda skattframtöl þar sem fjölskyldur í sömu stöðu og fjölskylda bróður kæranda skiluðu ekki skattframtölum eða öðrum gögnum til skattyfirvalda. Að öðru leyti var í bréfinu vísað til gagna sem þegar hefðu verið lögð fram auk nýrra gagna sem fylgdu bréfinu. Var þar um að ræða afrit af beiðni V til skattstofu Long Xuyen borgar í Víetnam um staðfestingu þess að hann greiddi ekki skatt vegna tekjuleysis, dags. 6. júlí 2015, og afrit skjals á erlendu tungumáli, dags. 7. júlí 2015. Loks fylgdi bréfinu afrit af staðfestingu „People´s Committee of My Hoa Ward“ í Long Xuyen, dags. 6. júlí 2015, á því að fjölskylda V ætti í fjárhagsvanda.

Með kæruúrskurði, dags. 22. júlí 2015, synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns. Gerði hann grein fyrir bréfaskiptum í málinu og innsendum gögnum af hálfu kæranda. Rakti hann ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði reglna ríkisskattstjóra nr. 212/1996 um skilyrði fyrir ívilnun vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna. Þá vísaði ríkisskattstjóri til samantektar umboðsmanns Alþingis í áliti nr. 2723/1999. Taldi ríkisskattstjóri að ekki yrði ráðið með afdráttarlausum hætti af fyrirliggjandi skýringum og gögnum að kærandi hefði borið sannanleg útgjöld vegna framfærslu vandamanna sem ekki hefðu sjálfir getað staðið undir útgjöldum vegna framfærslu, sbr. ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og reglna ríkisskattstjóra nr. 212/1996. Tók ríkisskattstjóri fram að í málinu lægi fyrir að kærandi hefði millifært fé til Víetnam. Þá lægju fyrir óstaðfest gögn sem gæfu til kynna að sá sem aðstoðar nyti hefði veitt greiðslum móttöku og nýtt þær til greiðslu nauðsynlegs kostnaðar. Þá virtust framlögð gögn gefa til kynna að viðtakandi aðstoðarinnar hefði verið bróðir kæranda. Hins vegar skorti gögn um að fjölskylda bróður kæranda hefði ekki getað staðið undir eigin framfærslu án aðstoðar frá kæranda. Þá hefði ekki komið fram hverjir aðrir hefðu aðstoðað fjölskylduna á árinu 2013 og að hve miklu leyti. Ítrekaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi áður fram komin sjónarmið varðandi skyldu kæranda til framlagningar gagna til stuðnings kæru og tók fram að ekki yrði fallist á með kæranda að fjarlægð frá Víetnam og tungumálaerfiðleikar réttlættu að fallið yrði frá formskilyrðum um framlagningu gagna, enda verulega líklegt að kærandi væri í samskiptum við bróður sinn í Víetnam auk þess sem kærandi væri fædd í Víetnam.

IV.

Með kæru, dags. 19. ágúst 2015, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 22. júlí 2015, til yfirskattanefndar. Í kærunni er gerð grein fyrir aðstæðum kæranda og fjölskyldu hennar. Kemur fram að síðustu ár hafi verið fjölskyldu kæranda sérstaklega erfið vegna veikinda mágkonu hennar. Ekki sé um að ræða eignir hjá bróður og mágkonu kæranda og séu kærandi og eiginmaður hennar ein um að aðstoða þau. Líklega hefði fjölskylda bróður kæranda skrimt án hjálpar eins og aðrir í umræddu héraði, þar sem fátækt og skortur sé ríkjandi, ef ekki hefðu komið til hin alvarlegu veikindi. Þá kemur fram í kærunni að börn sem njóti ekki skólagöngu eigi ekki bjarta framtíð í Víetnam og er ítrekað að eldri sonur bróður kæranda hefði ekki notið menntunar án aðstoðar kæranda. Hafi kærandi lýst aðstæðum sínum og fjölskyldu sinnar af einlægni og aflað gagna eftir bestu getu. Þýðing gagnanna hafi vissulega verið lausleg, en kærandi eigi ekki gott með að þýða þau á íslensku. Ef á þurfi að halda megi fá nánari þýðingar á gögnunum, en einkum sé um að ræða læknisvottorð og gögn um sjúkrakostnað. Ekki komi fram í úrskurði ríkisskattstjóra að hvaða leyti vottorð frá foreldrum kæranda og bróður séu óstaðfest, en bæta megi úr því t.d. með því að fá ný vottorð með staðfestingu á undirritun ættingjanna. Kærandi geti ekki lagt fram gögn frá yfirvöldum í Hanoi þar sem fjölskylda hennar heyri ekki undir stofnanir þar. Þá hafi skattyfirvöld í búsetuhéraði þegar vottað að kærandi geti ekki lagt fram skattframtöl og fyrir liggi gögn frá yfirvöldum í heimahéraði bróður kæranda um erfiða stöðu þeirra hjóna og fjárhagserfiðleika. Er tekið fram að kærandi hafi svarað öllum fyrirspurnum ríkisskattstjóra, en embættið leggi áherslu á að gera framlögð gögn tortryggileg. Ekki hafi verið farið fram á að ríkisskattstjóri afli gagna um fjölskyldu kæranda. Hins vegar eigi embættið auðveldara með að afla upplýsinga um almennan framfærslukostnað og eflaust um skattareglur og almannatryggingar í Víetnam. Vart standi ákvæði tvísköttunarsamninga um þagnarskyldu því í vegi.

V.

Með bréfi, dags. 14. september 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. september 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Eins og fram kemur í kæru til yfirskattanefndar lýtur krafa kæranda að því að kæranda verði ákvörðuð ívilnun vegna framfærslu fjölskyldu sinnar í Víetnam á árinu 2013, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt greindu ákvæði skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið séu sannanleg útgjöld vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna. Gera þurfi grein fyrir í hverju útgjöldin séu fólgin og jafnframt að sýna fram á að framfærslufé foreldris eða vandamanns, þ.e. tekjur, bætur og styrkir, standi ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslunnar.

Eins og fram er komið fylgdi skattframtali kæranda árið 2014 umsókn um lækkun (RSK 3.05) þar sem kærandi óskaði eftir lækkun tekjuskattstofns vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Í greinargerð fyrir umsókninni kom fram að fjölskylda kæranda í Víetnam glímdi við mikla fjárhagserfiðleika og að kærandi hefði sent peninga til Víetnam til að taka þátt í framfærslu aldraðra foreldra sinna og fjölskyldu bróður síns. Mágkona kæranda hefði gengist undir dýra hjartaaðgerð á árinu 2012 og hefði öll fjölskyldan þurft að taka þátt í þeim kostnaði. Bróðir kæranda hefði haft litlar sem engar tekjur þar sem hann hefði þurft að sinna fjölskyldunni í veikindunum. Hann ætti tvo unga syni sem hann hefði ekki efni á að kosta í skóla og hefði kærandi tekið þátt í þeim kostnaði. Lækniskostnaður og skólagjöld í Víetnam væru há og ekkert almannatryggingakerfi til að treysta á undir svona kringumstæðum. Hefðu framangreind útgjöld fjölskyldu kæranda í Víetnam orðið þeim ofviða ef ekki hefði komið til styrkur frá kæranda. Hefði kærandi sent alls 919.575 kr. til fjölskyldu sinnar í Víetnam og hefði það skert greiðslugetu kæranda sem ekki hefði miklar tekjur, en eiginmaður kæranda hefði einnig verið frá vinnu vegna veikinda. Umsókn kæranda fylgdu gögn um peningasendingar til Víetnam alls að fjárhæð 1.286.518 kr., ýmist til bróður kæranda, föður hennar eða þriðja aðila. Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 11. ágúst 2014, lagði kærandi jafnframt fram staðfestingar frá bróður sínum, mágkonu og foreldrum á því að kærandi hefði styrkt þau fjárhagslega með mánaðarlegum peningasendingum. Þá fylgdi fæðingarvottorð bróður kæranda og staðfesting á aðstæðum hans og fjölskyldu hans. Loks fylgdu kærunni gögn um veikindi mágkonu kæranda og kostnað vegna þeirra á árunum 2012 og 2013. Vegna fyrirspurnar ríkisskattstjóra, dags. 2. júní 2015, lagði kærandi auk þessa fram staðfestingu á erlendu tungumáli, vottorð um skattleysi og tekjuleysi bróður kæranda, dags. 6. júlí 2015, og vottorð frá „People´s Committee of My Hoa Ward“ um bága stöðu fjölskyldu bróður kæranda, dags. 6. júlí 2005.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kærandi hefur sent fjölskyldu sinni í Víetnam, þ.e. foreldrum sínum og bróður, fjármuni á árinu 2013. Hefur kærandi lagt fram gögn um aðstæður fjölskyldunnar. Engin gögn hafa þó komið fram í málinu um greiðslu skólagjalda vegna bróðursonar kæranda. Eins og fram er komið er það skilyrði ívilnunar vegna framfærslu vandamanna að sýnt sé fram á að framfærslufé vandamanns, þ.e. tekjur, bætur og styrkir, standi ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslunnar. Í umsókn kæranda um lækkun (RSK 3.05), sem fylgdi skattframtali hennar árið 2014, kom m.a. fram að mágkona kæranda hefði þurft að gangast undir læknisaðgerð á árinu 2012 og til að gera það mögulegt hefði „öll fjölskyldan“ þurft að taka þátt í kostnaði. Ekkert er þó komið fram um þátttöku annarra fjölskyldumeðlima í umræddum kostnaði. Kærandi hefur ekki gert grein fyrir mati á hæfilegu eða lágmarks framfærslufé í Víetnam og framfærslufé fjölskyldu hennar þar í landi þrátt fyrir áskorun í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. júní 2015. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á það með sannanlegum hætti að fjölskylda hennar í Víetnam hafi ekki haft aðrar tekjur til framfærslu sem líta verði til í þessu sambandi, sbr. fyrrgreindan áskilnað í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996. Hefur kærandi látið sitja við almennar staðhæfingar um tekjuleysi í þessu sambandi og um skort á almannatryggingum í Víetnam. Ekki verður talið að fyrrgreind gögn sem fylgdu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 20. júlí 2015, staðfesti með fullnægjandi hætti að foreldrar kæranda eða bróðir og fjölskylda hans hafi ekki haft frekari tekjur, bætur eða styrki til eigin framfærslu en sem nam umræddum greiðslum kæranda til þeirra.

Með vísan til framanritaðs verður að taka undir með ríkisskattstjóra að kærandi hafi ekki með fram komnum skýringum og gögnum sýnt fram á að skilyrði ívilnunar vegna framfærslu vandamanna samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, sbr. reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, séu fyrir hendi í tilviki kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja